Skip to main content

Frumkvöðull á sviði jarðvísinda styrkti HÍ

Fullyrt er að stærðfræðibækur úreldist seinna en fræðibækur í öðrum greinum og eru þær oft notaðar í áratugi. Eitt öflugasta safn Háskóla Íslands á einstöku fræðasviði er stærðfræðisafn skólans. Veglegur hluti af því er safn Gunnars Böðvarssonar prófessors, sem afhent var Háskóla Íslands árið 1990 af ekkju hans, Tove Böðvarsson, og syni þeirra, Erni Gunnarssyni, en Gunnar hafði ánafnað Háskóla Íslands bókasafn sitt eftir sinn dag. Gjöfin nemur alls um 2000 bindum auk bréfa og handrita. Auk stærðfræðirita er þar einnig að finna fræðibækur í öðrum raungreinum, s.s. eðlisfræði, haffræði og verkfræði og ber fjölbreytni safnsins merki um fjölhæfni Gunnars.

Gunnar Böðvarsson lauk prófi í stærðfræði, kraftfræði og skipaverkfræði frá Tækniháskólanum í Berlín árið 1943 en að námi loknu fluttist hann til Íslands árið 1945 eftir stutta viðdvöl í Danmörku. Hér heima réðst hann m.a. til starfa hjá Jarðborunum ríkisins og Raforkumálaskrifstofu þar sem hann byggði upp margháttaða rannsóknastarfsemi við jarðhitaleit og jarðhitanýtingu og stýrði hann m.a. borunum eftir heitu og köldu vatni.

Gunnar Böðvarsson

Auk stærðfræðirita er í bókasafni Gunnars að finna fræðibækur í öðrum raungreinum, s.s. eðlisfræði, haffræði og verkfræði og ber fjölbreytni safnsins merki um fjölhæfni Gunnars.

Gunnar Böðvarsson

Árið 1957 lauk hann doktorsprófi við California Institute of Technology og starfaði eftir það í nokkur ár á Íslandi en varð síðan prófessor í stærðfræði og jarðeðlisfræði við Oregon State University í Corvallis 1964-1984. Gunnar gegndi ráðgjafarstörfum fyrir Sameinuðu þjóðirnar, ríkisstjórnir margra landa og fyrirtæki og stofnanir. Þótt hann starfaði aldrei við Háskóla Íslands stuðlaði hann að eflingu rannsókna innan skólans og átti m.a. sæti í nefnd um eflingu raunvísinda við Háskóla Íslands á árinu 1961 sem lagði m.a. til að sett yrði á laggirnar rannsóknastofnun í raunvísindum og hóf Raunvísindastofnun Háskóla Íslands starfsemi árið 1966.

Gunnar var einn helsti frumkvöðull hér á landi á sviði rannsókna á jarðhita. Á hann stóran þátt í því hve framarlega Íslendingar eru í jarðhitanýtingu og hve snemma og vel þeir voru kynntir á því sviði. Gunnar var kjörinn heiðursdoktor við Raunvísindadeild árið 1988 en hann lést ári síðar, 72 ára að aldri.

Kona Gunnars, Tove Böðvarsson, var dönsk og hafði hún miklar mætur á Íslendingum og öllu sem íslenskt var. Alla tíð nutu nemendur og starfsmenn Háskóla Íslands greiðvikni þeirra á erlendri grundu og voru hjálpsemi þeirra og höfðinglegar móttökur rómaðar.

Í bókagjöf Gunnars Böðvarssonar prófessor eru mörg sígild grundvallarrit. Því lifir gjöfin góðu lífi og hefur átt drjúgan þátt í menntun stærðfræðinga og raunvísindafólks.