Skip to main content
1. júní 2023

Yfir hundrað manns í nýrri fjarnámsleið um farsæld barna

Yfir hundrað manns í nýrri fjarnámsleið um farsæld barna - á vefsíðu Háskóla Íslands

Við þróun nýrra námsleiða við Háskóla Íslands er m.a. tekið mið af nýjum áskorunum sem fengist er við í samfélaginu hverju sinni og jafnframt er tekið mið af þeim kröfum sem samfélagið sjálft gerir. Ný námsleið í fjarnámi á framhaldsstigi sem nefnist Farsæld barna er gott dæmi um þetta en yfir 100 manns hafa stundað nám við hana í vetur. 

Eins og nafn námsleiðarinnar gefur til kynna er markmiðið að efla farsæld barna í íslensku samfélagi en í því felst að skapa börnum skilyrði til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðilegum og félagslegum þroska og heilsu á eigin forsendum til framtíðar.

„Námsleiðin byggist á samningi milli mennta- og barnamálaráðuneytis og Háskóla Íslands um eflingu kennslu og rannsókna vegna samþættingar þjónustu við börn og fjölskyldur. Náminu er ætlað að styðja við innleiðingu laga um samþætta þjónustu við börn og fjölskyldur sem tóku gildi 1. janúar á síðasta ári,“ segir Ragnheiður Hergeirsdóttir, lektor á sviði barnaverndar við Félagsráðgjafardeild sem umsjónarmaður námsleiðarinnar ásamt Herdísi Sigurjónsdóttur, lektor á sviði hagfræði. 

Ragnheiður  býr yfir fjölbreyttri starfsreynslu á sviði velferðarmála, m.a. í málefnum barna og fjölskyldna. „Ég sá í þessu tækifæri til taka virkan þátt í innleiðingu farsældarlaganna en þau marka tímamót hér á landi og munu vonandi skapa börnum hér á landi betra líf,“ segir hún aðspurð um það hvers vegna hún sóttist eftir því að hafa umsjón með námsleiðinni.

Ragnheidur

Ragnheiður Hergeirsdóttir.

Mætir þörfum starfsfólks sem vinnur með börnum og fjölskyldum þeirra

Farsæld barna er 30 eininga diplómanám sem byggt er upp sem hlutanám til eins árs. Náminu er ætlað að styðja við innleiðingu farsældarlaganna og koma til móts við þarfir fólks sem veitir börnum og fjölskyldum þeirra þjónustu. Því er m.a. ætlað að efla þverfaglegt samstarf og teymisvinnu í þjónustu við börn og undirbúa fólk fyrir hlutverk tengiliða og málstjóra í samræmi við nýju lögin. Námið er kennt í fjarnámi með staðlotum og hentar því vel fólki sem er í vinnu en vill bæta við sig þekkingu sem nýtist í starfi. 

Byrjað var að bjóða upp á námsleiðina haustið 2022 og ljóst má vera af aðsókninni að þörfin og áhuginn var mikill því yfir 120 nemendur hófu nám síðasta haust og 107 eru að ljúka náminu nú í vor.

Því fylgdu ýmsar áskoranir að fara af stað með nýja og fjölmenna námsleið, að sögn Ragnheiðar, m.a. að hefja námið strax við upphaf innleiðingarferilsins þar sem nýmæli og áherslubreytingar sem lögin fela í sér höfðu að mjög takmörkuðu leyti verið útfærð hjá stofnunum ríkis og sveitarfélaga. „Í flestum stofnunum var fólk rétt komið á byrjunarreit við innleiðingu. Að sama skapi má auðvitað segja að það felist ýmis tækifæri í því að setja námið af stað svo snemma í innleiðingarferlinu og ótrúlega gaman að fá að vera þátttakandi í því. Praktískt skipulag fjarnáms reyndist einnig áskorun þar sem kennsla fer fram í streymi í rauntíma og í nokkrum staðlotum og nemendahópurinn er svo fjölmennur og fjölbreyttur og þá reynir mikið á skipulag og góða blöndu af festu og sveigjanleika,“ segir hún.

„Ég hefði ekki getað sótt þetta nám sem staðnám. Ég hef kynnst mismunandi skipulagi fjarnáms en skipulagið í þessu námi fannst mér til fyrirmyndar. Ein vika í einu og skuldbinding í hverri þeirra er skipulag sem ég tel skila góðum árangri með tilliti til þess náms sem á sér stað hjá nemendum,“ segir Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir, nemi í farsæld barna.

Fjölbreyttur nemendahópur af öllu landinu

Að sögn Ragnheiðar er nemendahópurinn með afar fjölbreytta menntun og reynslu að baki. „Þau koma víðs vegar að af landinu og eru öll í starfi með börnum eða við þjónustu sem snertir málefni barna. Langflestir nemenda starfa við leik- og grunnskóla, allmargir úr félagsþjónustu og barnavernd en einnig koma nemendur t.d. úr frístundastarfi, heilbrigðisþjónustu, löggæslu, sérfræðiþjónustu skóla og sértækri þjónustu fyrir börn og fjölskyldur. Inntökuskilyrði fyrir námið eru BA-,BS- eða B.Ed.-próf og að fólk sé í starfi við þjónustu við börn og/eða fjölskyldur barna,“ segir Ragnheiður enn fremur.

Mögnuð tengsl milli reynslumikils fagfólks

Í hópi nemenda er Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir, skólastjóri Þelamerkurskóla, sem er í nágrenni Akureyrar. „Sem skólastjóri í grunnskóla fyrir alla tel ég nauðsynlegt að hafa góða þekkingu á svona viðamiklum nýjum lögum sem tengjast sterkt hlutverki okkar í skólunum. Auk þess brenn ég fyrir því að við getum skapað öllum börnum gott umhverfi í skóla fyrir alla og veitt þeim þá þjónustu sem þau hafa þörf fyrir til að geta öðlast gott líf,“ segir Ragnheiður Lilja aðspurð um ástæður þess að hún skráði sig í námið. 

Hún segir það hafa skipt öllu máli að námsleiðin er kennd í fjarnámi. „Ég hefði ekki getað sótt þetta nám sem staðnám. Ég hef kynnst mismunandi skipulagi fjarnáms en skipulagið í þessu námi fannst mér til fyrirmyndar. Ein vika í einu og skuldbinding í hverri þeirra er skipulag sem ég tel skila góðum árangri með tilliti til þess náms sem á sér stað hjá nemendum,“ segir Ragnheiður Lilja enn fremur.

Nafna hennar, Ragnheiður Hergeirsdóttir, segir það ótvíræðan kost að fólk geti stundað námið hvar sem það býr á landinu og að því sé dreift yfir tvö misseri. Hún bendir enn fremur á að námið hafi ýmsa aðra kosti, ekki síst þá þverfræðilegu nálgun sem námið grundvallast á. „Vegna þess að lögin um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna byggjast á því að tengja saman þá sem koma að þjónustu við börn, að hlusta og læra hvert af öðru þvert á faggreinar og „brjóta niður veggi“ og „brúa bil“ á milli þjónustuaðila. Það er líka kostur að þetta er nám með starfi þar sem fólk vinnur með börnum og nemendur geta því miðlað sín á milli og þannig þróað með okkur námið, við lærum mikið hvert af öðru og það er mjög mikilvægt fyrir innleiðingu farsældarlaganna,“ segir Ragnheiður enn fremur.

Ragnheiður Lilja bætir við að efnistök í náminu hafi verið fjölbreytt og hópavinna skilvirk. „Samskipti nemenda sem tilheyra sama námshópi eru mikil og gríðarlega dýrmæt að mínu mati. Í mínum hópi mynduðust mögnuð tengsl reynslumikils fagfólks sem nýtast beint í daglegt starf allra innan hópsins. Þau tengsl eru komin til að vera. Námið nýtist mér á hverjum degi í starfi mínu innan grunnskólans og mun nýtast mér svo lengi sem ég vinn að málefnum barna,“ segir Ragnheiður Lilja að endingu. 

Ragnheiður Hergeirsdóttir og Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir.