Skip to main content
5. mars 2019

Wiki4Women á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna í HÍ

Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri og Listaháskóli Íslands í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið standa fyrir viðburðinum #wiki4women í tilefni af Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars, en honum er fagnað víða um heim.

Markmiðið er að bregðast við ákalli frá UNESCO og Wikimedia Foundation og stuðla að betri kynningu og umfjöllun um konur á upplýsingasíðum Wikipedia. Samkvæmt nýrri talningu UNESCO eru 12.152 greinar á Wikipedia um Íslendinga. Af þeim eru tæplega 19% um íslenskar konur en um 81% um íslenska karla. Sjónum verður sérstaklega beint að konum sem tengjast málefnasviðum UNESCO, þ.e. menntun, menningu, listum, fjölmiðlum, vísindum og upplýsingatækni.

Háskólarnir og mennta- og menningarmálaráðuneytið hvetja nemendur og starfsfólk til að taka höndum saman og breyta þessu á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Gerum konur sýnilegar og stuðlum að betri kynningu og umfjöllun um þær á netinu.

Taktu þátt í að skrifa og þýða greinar um konur þann 8. mars. Hægt verður að velja nafn/nöfn kvenna af listum til að skrifa um. Gert er ráð fyrir að þátttakendur mætir með eigin tölvu.

Viðburður í Háskóla Íslands hefst kl. 15:00 í Gimli 102 og lýkur kl. 17:00 með pítsum og gosi.

Hvernig getur þú tekið þátt?
1. Búið til Wikipedia reikning

2. Valið úr fjölda íslenskra kvenna til að skrifa um (sjá Facebook-viðburð)

logo wiki4women