Skip to main content
25. október 2022

Vísindamenn HÍ í nærmynd á Hringbraut 

 Vísindamenn HÍ í nærmynd á Hringbraut  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Undur stærðfræðinnar og tölfræðinnar verða í brennidepli í fyrsta þættinum í annarri þáttaröð um vísindi og rannsóknir í Háskóla Íslands á sjónvarpsstöðinni Hringbraut sem hefst í kvöld. Þáttaröðin ber heitið Vísindin og við og alls verða sex vísindamenn skólans í nærmynd í þáttunum á næstu vikum. 

Vísindin og við er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Hringbrautar en það hófst fyrr á þessu ári með frumsýningu fimm þátta um vísindamenn skólans. Umsjón með þáttunum hafa þau Þóra Katrín Kristinsdóttir, efnafræðingur og fjölmiðlakona, og Sigmundur Ernir Rúnarson, sjónvarpsmaður, rithöfundur og ritstjóri Fréttblaðsins og Hringbrautar. Þau taka hús á vísindafólki á öllum fræðasviðum skólans og úti á rannsóknasetrum hans. Þar forvitnast þau um rannsóknir vísindafólksins ásamt því að bregða ljósi á manneskjuna á bak við vísindamanninn. Einnig er rætt við nemendur og samstarfsfólk þess vísindafólks sem er í brennidepli í hverjum þætti.

Í fyrsta þætti þessarar annarrar þáttaraðar hitta umsjónarmenn fyrir Önnu Helgu Jónsdóttur,  dósent í tölfræði. Anna Helga hefur m.a. lagt áherslu á vefstudda kennslu í stærð- og tölfræði og m.a. unnið að þróun kennsluhugbúnaðar í greinunum ásamt samstarfsmanni sínum, Gunnari Stefánssyni prófessor, sem einnig er viðmælandi í þættinum. Kerfið sem um ræði heitir tutor-web og hefur að geyma þúsundir æfinga í stærðfræði, tölfræði og tölvunarfræði sem ekki eru hugsaðar til að prófa kunnáttu nemenda heldur til að þeir byggi upp þekkingu við það að leysa dæmin. Fylgst er með frammistöðu hvers nemenda og hefur Anna Helga þróað algrím sem úthlutar æfingum til nemenda sem henta þeim hverju sinni. Kerfið hefur bæði verið notað í framhaldsskólum og háskólum hér á landi og einnig í Kenía í gegnum verkefnið „Menntun í ferðatösku“ (e. Education in a suitcase) sem sett var á laggirnar í samstarfi við þarlenda fræðimenn.

Stikla úr þætti kvöldsins

Anna Helga hefur einnig sinnt ýmsum öðrum rannsóknum, m.a. á gengi nýnema við Háskóla Íslands í stærðfræði og tengslaneti nemenda innan skólans og mögulegum tengslum þeirra við brotthvarf nemenda úr námi. Hún var jafnframt í hópi fyrstu starfsmanna HÍ til þess að fá inngöngu í Kennnsluakademíu opinberu háskólanna.

Þá hefur Anna Helga ásamt nemanda sínum, Nönnu Kristjánsdóttur, þróað sumarbúðir í stærðfræði fyrir stelpur og stálp sem nefnast Stelpur diffra. Markmið þeirra er að kveikja áhuga hjá fleiri stelpum á unglingsaldri á stærðfræði og vinna bug á ýmsum staðalmyndum um greinina. Nanna er einnig meðal viðmælenda í þætti kvöldsins.

Þáttaröðin Vísindin og við heldur svo áfram næstu vikur þar sem rætt verður m.a. við þau Þorvarð Árnason, forstöðumann Rannsóknaseturs HÍ á Höfn í Hornafirði, Jón Gunnar Bernburg, prófessor í félagsfræði, Erling Jóhannsson, prófessor í íþrótta- og heisufræði, og Steinunni Kristjánsdóttur, prófessor í fornleifafræði.
 

Anna Helga Jónsdóttir