Vinnur gegn matvendni leikskólabarna með bragðlaukaþjálfun
Þau sem komið hafa að uppeldi barna kannast eflaust mörg við þá þraut að fá börnin til að prófa nýjan mat og njóta á fyrstu árunum. Grettur og geiflur, snúningar og sveiflur í barnastólnum og hávær mótmæli er partur af veruleika margra foreldra sem reyna að kynna ungviðið fyrir nýjum mat og það verður oft til þess að fólk gefst upp. Innan Háskóla Íslands er nú að hefjast ný rannsókn þar sem markmiðið er að koma í veg fyrir eða draga úr matvendni meðal leikskólabarna um leið og foreldrar fá verkfæri til að bæta fæðuumhverfið heima fyrir. Að rannsókninni vinnur Berglind Lilja Guðlaugsdóttir, doktorsnemi í heilsueflingu á Menntavísindasviði, ásamt leiðbeinanda sínum, Önnu Sigríði Ólafsdóttur, prófessor og Sigrúnu Þorsteinsdóttur, nýútskrifuðum doktor frá HÍ.
„Matvendni hjá börnum er yfirleitt í hámarki í kringum 2-6 ára aldurinn og algengt er að börn skorti fjölbreytileika í fæðuvali og þá helst grænmeti og ávexti. Einnig getur matvendni valdið streitu og kvíða hjá foreldrum og börnum í kringum matmálstíma og oft skortir foreldra úrræði þegar kemur að matvendni barna þeirra,“ segir Berglind um verkefnið sem byggist á aðferðum Bragðlaukaþjálfunar sem teymið hefur þróað á síðustu árum.
Fyrstu árin skipta sköpum fyrir framtíðarheilbrigði barna
„Í Bragðlaukaþjálfun beitum við aðferðum þar sem börn eru markvisst þjálfuð í að upplifa mat með öllum skynfærum sínum en margt bendir til þess að draga megi úr matvendni með slíkri nálgun,“ segir Berglind og vísar í doktorsrannsókn Sigrúnar Þorsteinsdóttur, þar sem bragðlaukaþjálfun var sniðin að fjölskyldum grunnskólabarna með og án taugaþroskaraskana hér á landi. „Rannsókn Sigrúnar sýndi mjög jákvæðar niðurstöður þar sem matvendni minnkaði, fæðufjölbreytni jókst ásamt því sem það dró úr erfiðri hegðun í kringum matmálstíma. Þá voru vísbendingar um að börnin nytu þess frekar að nærast eftir íhlutun, sem er mikilvægur þáttur í að styrkja heilbrigt samband við mat.“
Þessar niðurstöður urðu, að sögn Berglindar, kveikjan að því að hún fór að velta fyrir sér hvort hægt væri að yfirfæra aðferðirnar á leikskólabörn. „Fyrstu æviár barna skipta sköpum fyrir framtíðarheilbrigði þeirra og þroska, þar sem fjölbreytt og hollt mataræði er grundvallaratriði. Þetta er því mjög mikilvægur aldur. Það er líka skortur á íhlutunarrannsóknum á þessu sviði og efniviðurinn því spennandi í alþjóðlegu vísindasamhengi,“ bendir hún á.
„Rannsókn sem þessi skapar nýja þekkingu og úrræðið getur gagnast breiðum hópi í samfélaginu en engar sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar, hvorki hérlendis né erlendis. Rannsóknin getur skapað dýrmætan stuðning til foreldra sem skortir úrræði til að takast á við matvendni barna sinna og minnka þar með líkur á að vandamálið versni,“ segir Berglind.
Náið samstarf við leikskóla um allt land
Verkefnið verður unnið í nánu samstarfi við leikskóla, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, þar sem leitast verður við að nota bragðlaukaþjálfun til að koma í veg fyrir eða draga úr matvendni hjá börnum allt frá öðru aldursári, eða áður en hápunktur matvendni kemur yfirleitt fram. „Bragðlaukaþjálfun verður hluti af daglegu skólastarfi og styður við heilsueflandi umhverfi leikskólanna en einnig munu fjölskyldur barnanna vera virkjaðar til þátttöku enda eru þær mikilvægur þáttur þegar kemur að breyttri fæðuhegðun barna. Börnin verja stærsta hluta vökutíma síns á leikskóla og fá þar stóran hluta máltíða dagsins. Það lá því beinast við að aðlaga aðferðir bragðlaukaþjálfunar að leikskólaumhverfinu. Aðferðirnar og fræðsluefni verður unnið í samsköpun (e. Co-creation) með leikskólastarfsfólki til að það falli sem best að leikskólaumhverfinu en leikskólastarfsfólk mun einnig fá þjálfun í notkun á aðferðunum,“ segir Berglind og bætir við að í verkefninu sé einnig ætlunin að kanna hvort bragðlaukaþjálfun geti haft áhrif á vaxtarferla barna til lengri tíma litið og þar verði samstarf við heilsugæslu.
Berglind státar af bæði BS- og MS-gráðu í næringarfræði og segir rannsóknaráhuga sinn liggja helst á því sviði. „Næring, matvendni og bættar fæðuvenjur og fæðuumhverfi fjölskyldna er rauði þráðurinn í mínu áhugasviði og starfi og spannar rannsóknin alla þessa þætti. Ég brenn fyrir því að aðstoða börn og fjölskyldur þeirra við að bæta fæðuvenjur sínar og gera fæðuumhverfið betra,“ bætir Berglind við.
Fyrsta rannsókn sinnar tegundar í heiminum
Rannsóknin er skammt á veg komin og því ekki komnar neinar niðurstöður en aðspurð segist Berglind vona að aðferðirnar gefi jafn góðar niðurstöður og fyrri rannsókn á bragðlaukaþjálfun, þ.e.a.s. að þær geti dregið úr matvendni á meðal leikskólabarnanna, auki fæðufjölbreytni og hafi jákvæð áhrif á fæðuumhverfið heima fyrir og í leikskólunum.
Auk Berglindar, Önnu Sigríðar og Sigrúnar kemur þverfræðilegur og reynslumikill hópur starfsfélaga þeirra hérlendis og erlendis að verkefninu sem er algjört brautryðjendaverk. „Rannsókn sem þessi skapar nýja þekkingu og úrræðið getur gagnast breiðum hópi í samfélaginu en engar sambærilegar rannsóknir hafa verið gerðar, hvorki hérlendis né erlendis. Rannsóknin getur skapað dýrmætan stuðning til foreldra sem skortir úrræði til að takast á við matvendni barna sinna og minnka þar með líkur á að vandamálið versni. Ef vel tekst til og aðferðirnar reynast áhrifaríkar væri því hægt að þróa þær enn frekar og samþætta inn í námskrá leikskóla,“ segir Berglind um framtíðarmöguleika verkefnisins.