Skip to main content
11. mars 2022

Verjum þau gildi sem skipta okkur mestu máli

Verjum þau gildi sem skipta okkur mestu máli - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (11. mars 2022):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Það er mikilvægt hverri þjóð að eiga háskóla sem beinir sjónum að eðli hennar sjálfrar, sögu, menningu, pælingum og tengslum okkar sjálfra við samfélagið, lífríki og umhverfi. Oft viljum við fullvissa sem flesta, ekki síst okkur sjálf, að rannsóknir þurfi að hafa sem hagnýtast gildi, en við megum aldrei gleyma því að rannsóknir innan háskóla hafa ekki síður gildi í sér sjálfum. Vísindin ein og sér breyta okkur, þau breyta heiminum. Þekkingin er undirstaða velferðar og vagga lýðræðis. 

„Vísindin efla alla dáð, orkuna styrkja, viljann hvessa, vonina glæða, hugann hressa.“ 

Svona orti vísindamaðurinn Jónas Hallgrímsson. Jónas var fjölbragðasmiður á sviði nýyrða og eftir hann liggur ótrúlegur fjöldi nýyrða sem löngu hafa öðlast sess í tungumálinu og við notum daglega án þess að þekkkja uppruna þeirra. Eitt þessara orða er seigla sem hefur einkennt allt ykkar starf, kæru nemendur og samstarfólk, undanfarin tvö ár í þeim miklu áskorunum sem leitt hafa af COVID-faraldrinum. Í orðasmíð Jónasar fólst ekki bara nýsköpun heldur má segja að hann hafi stuðlað að eflingu íslenskunnar í heimi breytinga allt fram á okkar dag. Einmitt þetta er í núverandi stefnu Háskólans, HÍ26, að efla tungumálið á tímum nýrrar tækni.

Orðaspilið Skrafl er oft uppspretta fjölbreyttra nýyrða og stundum íðorða en á Hugvísindaþingi sem hefst í dag er einmitt sjónum beint að þessu merkilega orðkynngispili og líka að íðorðum. Hugvísindaþing er árviss ráðstefna Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands en þingið fer fram í Árnagarði og Odda og heldur svo áfram á morgun á sömu stöðum. Á þinginu er fram borið það helsta í hugvísindum og er hægt að velja um hartnær 40 málstofur og eru fyrirlesarar á annað hundrað. Þarna má m.a. hlýða á erindi um mannréttindi, fjölmenningu, trú, loftslagsvá, skáldskap, feminíska heimspeki, fornsögur, táknmál, útrás íslenskrar dægurmenningar og svo auðvitað íðorð og Skrafl. Ég hvet ykkur til að fylgjast með. 

Eins og fram hefur komið bætti Háskóli Íslands stöðu sína meðal þeirra stofnanna samfélagsins sem mests trausts njóta. Það er verulega ánægjuleg niðurstaða nýs þjóðarpúls Gallup að HÍ nýtur afar mikils trausts meðal yngra fólks og mest meðal þess aldurshóps sem nú nemur í háskóla. Þetta traust byggist á elju vísindafólks, kennara og annars starfsfólks HÍ en líka á metnaði nemenda sem ljúka héðan prófi til að bæta íslenskt samfélag. Kæru nemendur og samstarfsfólk, þetta er traustið sem þið hafið áunnið skólanum. Fyrir það er ég afar þakklátur. Niðurstöðurnar sýna líka að traust til skólans eykst samfara aukinni menntun. 

Nú eru undirbúningur framkvæmda hafinn á Háskólatorgi en þar varð sem kunnugt er mikið tjón vegna vatns sem streymdi inní fjölda bygginga á háskólasvæðinu. Þá er undirbúningur hafinn við viðgerðir á Sögu við Hagatorg sem mun m.a. hýsa Menntavísindasvið skólans. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun heimsækja okkur í HÍ í dag og ganga með okkur um þessa glæsilegu byggingu og heyra af metnaðarfullum áformum HÍ og FS um nýtingu byggingarinnar um leið og farið verður yfir það helsta sem er á döfinni í starfi Háskóla Íslands. 

Og það er fleira sem víkur að mikilvægum breytingum í starfi skólans og helgast af nýju húsnæði og snarbættri aðstöðu til náms og rannsókna. Með bættu húsnæði getum við eflt það kraumandi samfélag ólíkra fræðigreina sem fæðir gjarnan af sér atvinnuskapandi tækifæri og leiðir til lausna á víðtækum áskorunum. Nýjasta rósin í hnappagat skólans er væntanleg bygging fyrir stóran hluta af starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs sem rísa mun innan fárra ára í tengslum við nýjan spítala á Hringbrautarsvæðinu. Fyrr í vikunni var samið við hóp undir forystu verkfræðistofunnar Verkís um fullnaðarhönnun á þessu nýja húsnæði Heilbrigðisvísindasviðs.

Stafrænn háskóladagur sem var á dögunum tókst einkar vel en í ljósi þess að engar hömlur eru lengur á samkomum vill HÍ gera enn betur við að kynna bæði grunn- og framhaldsnám við skólann. Háskólinn ætlar því að opna byggingar sínar og bjóða öllum áhugasömum í heimsókn laugardaginn 2. apríl. Þá munu öll fræðasvið skólans kynna hátt á fjórða hundrað spennandi námsleiðir í grunn- og framhaldsnámi á Háskólatorgi. Stór hópur starfsfólks og nemenda tekur þátt í þessu átaki og er ég afar þakklátur fyrir þann tíma sem þið verjið í að kynna nám við skólann. 

Undanfarnar rúmar tvær vikur höfum við fylgst af miklum óhug með stríðsátökum í Evrópu, einum þeim mestu frá því í seinni heimsstyrjöldinni. Við höfum séð hvernig hernaðarveldi hefur ruðst yfir landamæri nágrannaríkis og látið sprengjum rigna á þéttbýlar borgir. Innrás Rússa í Úkraínu sýnir okkur að við getum aldrei gengið að friðinum vísum né er lýðræði þess eðlis að ekki verður að vernda það öllum stundum. Stöndum vörð um þau gildi sem skipta okkur mestu máli, mannréttindi, tjáningarfrelsi, lýðræðið sjálft. 

Látum gott af okkur leiða. Hugum hvert að öðru. 

Góða helgi, 

Jón Atli Benediktsson, rektor“

 

Stigi í hótel sögu