Verðlaunuð fyrir frumkvöðlastarf á sviði atferlisgreiningar | Háskóli Íslands Skip to main content
22. mars 2021

Verðlaunuð fyrir frumkvöðlastarf á sviði atferlisgreiningar

Verðlaunuð fyrir frumkvöðlastarf á sviði atferlisgreiningar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tilkynnt var nýlega að Zuilma Gabríela Sigurðardóttir, prófessor við Sálfræðideild Háskóla Íslands, fengi viðurkenningu Society for the Advancement of Behavior Analysis (SABA) árið 2023 fyrir framlag sitt til alþjóðlegrar útbreiðslu atferlisgreiningar, þ.e. bæði hér á landi og í Austur-Evrópu. Gabríela, eins og hún er kölluð, segir fræðasviðið ört vaxandi í heiminum en hún hefur unnið frekari framgangi þess m.a. með nýrri námsleið í hagnýtri atferlisgreiningu við Háskóla Íslands.

„Atferlisgreining er vísindagrein sem fæst við að uppgötva og nýta þau lögmál, sem gilda um hegðun og hvernig hún lærist. Atferlisgreining er enn álitin undirgrein sálfræðinnar þó svo að nokkrar tilraunir hafi verið gerðar undanfarna áratugi til að skilja hana frá sálfræðinni því nálgunin er að miklu leyti ólík flestu í sálfræði“ útskýrir Gabríela.

Að sögn Gabríelu hefur greinin vaxið mjög á síðustu áratugum en henni hefur oft verið skipt í fjögur aðalasvið: róttæka atferlishyggju, sem er hugmyndafræði um hegðun og hvað hafi áhrif á hana, tilraunalega atferlisgreiningu þar sem hegðun er skoðuð í einangruðum aðstæðum á tilraunastofum, hagnýta atferilsgreiningu þar sem lögmál hegðunar eru nýtt markvisst til að reyna að leysa úr ýmsum vandamálum fólks og loks þjónusta í margs konar samhengi sem byggist á á raunprófuðum aðferðum.

„Öll þessi svið atferlisgreiningar eru nátengd en það sem bindur þau saman er hugmyndafræðin sem allar rannsóknirnar eru sprottnar út frá í upphafi. Rannsóknarniðurstöðurnar hafa leitt af sér nýjar spurningar en við höfum líka fundið nú þegar fullt af svörum. Enn er verið að uppgötva ný lögmál hegðunar. Þau eru svo stundum prófuð í hagnýtri atferlisgreiningu,“ segir Gabríela. Hún bætir við að atferlisgreining hafi því, líkt og læknisfræðin, þróast úr því að vera hugmyndafræði eða heimspeki, sem hafi leitt til rannsóknaspurninga og endurtekinna tilrauna, sem aftur hafi leitt í ljós ákveðnar staðreyndir sem hafi svo nýst til að bæta líf fólks. 

Áhuginn kviknaði í námi í Háskóla Íslands

Áhugi Gabríelu sjálfrar á viðfangsefninu kviknaði í sálfræðinámi í Háskóla Íslands á níunda áratug síðustu aldar. Hún segir Magnús Kristjánsson hafa byrjað að kenna um róttæka atferlishyggju og atferlisgreiningu árið 1976 en þá hafi nánast enginn evrópskur háskóli boðið upp á slíkt. Magnús hafi því lagt grunninn að framtíð margra sem hafi helgað sig faginu, hérlendis eða erlendis, en Íslendingar eiga að sögn Gabríelu marga þekkta vísindamenn innan atferlisgreiningar sem starfa erlendis.

Heimsókn dr. Gary Athelstan, gestaprófessors frá Minnesota-háskóla, sem kenndi endurhæfingasálfræði, varð einnig til þess að vekja mikinn áhuga hjá Gabrielu á atferlisgreiningu og að hennar sögn féll hún kylliflöt fyrir róttækri atferlishyggju B. F. Skinners, sem jafnan er nefndur faðir atferlisgreiningarinnar, þegar hún tók Persónuleikasálfræði hjá Magnúsi Kristjánssyni á fjórða misseri BA-námsins. Það leiddi hana á endanum í meistaranám í atferlisgreiningu og meðferð í Southern Illinois University í Carbondale í Bandaríkjunum. Þaðan lá leið hennar til Northeastern University í Boston þaðan sem hún lauk doktorsprófi í tilraunalegri atferlisgreiningu. „Rannsóknir mínar fóru þá að snúast um flókið nám fólks, til dæmis máltöku, ályktunarfærni, sköpunargáfu, alhæfingu hegðunar, flokkun umhverfisins og fleira,“ segir Gabríela.

Hún bætir við að með tilraunum megi varpa ljósi á það hvernig slíkt nám á sér stað og þannig sé hægt að hjálpa þeim sem eigi í erfiðleikum með það. „Tilraunir í atferlisgreiningu og þau líkön sem hafa orðið til hafa heldur betur sýnt hvernig flókin hegðun, sem oft er talin vera „mannleg“ eða „hugræn“, lærist líka í samspili hegðunar og umhverfis og er því ekki sérlega „sjálfsprottin“ nema rétt nám (kennsla) hafi farið fram. Við erum alltaf að öðlast meiri innsýn í hvernig hægt er að þjálfa/kenna „mannlega“ eða „hugræna“ hegðun og þar af leiðandi skiljum við betur námsferlana, sem eru undirstaðan,“ segir Gabríela.

skrifað

Rannsakar áhrif raunprófaðra kennsluaðferða

Eftir að hafa sinnt stundakennslu við Háskóla Íslands samhliða störfum við Svæðisskrifstofu fatlaðra í Reykjavík og síðar við sálfræðideild Fræðslumiðstöðvar í Reykjavík var Gabríela ráðin lektor við Háskólann árið 1999, varð dósent árið 2004 og fékk framgang í starf prófessors árið 2018. 

Aðspurð segist hún hafa lagt áherslu á rannsóknir tengdar hagnýtri atferlisgreiningu í störfum sínum innan Háskólans. „Ég hef ásamt mínum nemendum lagt stund á rannsóknir á áhrifum inngrips í hegðunarvanda í skólum og leikskólum, þjálfun starfsfólks í árangursríkri tækni til að koma í veg fyrir hegðunarvanda eða leysa slíkan vanda og hef gert svipaða hluti með foreldrum. Ég hef svo meira og meira farið út í að rannsaka áhrif þess að beita raunprófuðum kennsluaðferðum í námi grunnskólanemenda, sem hafa verið í sérkennslu vegna örðugleika í lestri eða stærðfræði eða bæði,“ segir Gabríela. Hún segir Íslendinga eftirbáta margra þjóða í þessum efnum. „Fjölmargar þjóðir hafa nú sett lög um beitingu raunprófaðra aðferða í kennslu, t.d. Bandaríkin, Bretland, Ástralía og Nýja-Sjáland og ég veit að málið er líka í athugum í nokkrum Evrópuríkjum.“

Rannsóknir Gabríelu hafa einnig snert innkaupaferðir landsmanna. „Ég hef verið að prófa íhlutun í öryggi barna í innkaupakerrum,“ segir hún en í því felst að kanna hvort hægt sé að breyta atferli foreldra og koma í veg fyrir að þeir setji börn sín í vöruhluta kerranna með því að setja  áberandi skilti í kerrurnar. Til mikils er að vinna því árlega er talið að um hundrað börn slasist af völdum falls úr innkaupakerrum, mörg slysin eru alvarleg og geta haft langtímaafleiðingar. 

„Tilraunir í atferlisgreiningu og þau líkön sem hafa orðið til hafa heldur betur sýnt hvernig flókin hegðun, sem oft er talin vera „mannleg“ eða „hugræn“, lærist líka í samspili hegðunar og umhverfis og er því ekki sérlega „sjálfsprottin“ nema rétt nám (kennsla) hafi farið fram. Við erum alltaf að öðlast meiri innsýn í hvernig hægt er að þjálfa/kenna „mannlega“ eða „hugræna“ hegðun og þar af leiðandi skiljum við betur námsferlana, sem eru undirstaðan,“ segir Gabríela. MYND/Kristinn Ingvarsson

Á meðal áhrifamestu hegðunarfræðinga Evrópu

Verðlaunin sem Gabríela hlýtur að tveimur árum liðnum veita Society for the Advancement of Behavior Analysis (SABA) og eru ein af mörgum sem samtökin úthluta. „SABA er nátengt Alþjóðasamtökum um atferlisgreiningu, Association for behavior analysis – International (ABAI), sem er fagfélag allra í heiminum sem stunda og hafa menntun í atferlisgreiningu. SABA veitir m.a. margs konar styrki, bæði nemendum og vísindamönnum, stendur fyrir ráðstefnum og verðlaunar þau sem talið er að hafi skarað fram úr á einhverju sviði atferlisgreiningar,“ útskýrir Gabríela. Verðlaunin fyrir að stuðla að útbreiðslu atferlisgreiningar á alþjóðavísu eru ein af mörgum sem SABA veitir.

Í tilkynningu stjórnar SABA til Gabríelu vegna verðlaunanna segir m.a. að þau séu bæði veitt fyrir áhrif hennar á útbreiðslu atferlisgreiningar á Íslandi, innan háskólasamfélagsins, við þróun þjónustu og miðlun þekkingar, og víðar í heiminum, ekki síst í Austur-Evrópu. „Það eru engar ýkjur að þú ert meðal áhrifamestu hegðunarfræðinga Evrópu og faggreininni hefur fleygt fram um allan heim, þökk sé þínum störfum,“ segir m.a. í tilkynningunni.

Störf Gabríelu í Austur-Evrópu hafa aðallega verið í Ríga í Lettlandi og Sofíu í Búlgaríu. „Störf mín þar hafa snúist um tvennt: Annars vegar kennslu í atferlisgreiningu fyrir meistara- og doktorsnema, og fjölbreytta hópa fagmanna, t.d. sálfræðinga, félagsráðgjafa, lækna, og kynningar á málþingum fyrir ýmsar starfsstéttir sem vinna í grunnskólum. Hins vegar tók ég þátt í því og studdi við undirbúning á fyrstu ráðstefnu um atferlisgreiningu í Búlgaríu. Ég var þá forseti Evrópusamtaka um atferlisgreiningu (European Association for Behavior Analysis, EABA),“ segir Gabríela sem beitti sér m.a. fyrir því að EABA stofnaði styrktar- og þróunarsjóð til að stuðla að framgangi atferlisgreiningar í löndum eins og Búlgaríu, þar sem fræðin eru lítið þekkt, skortur er á fé til að vinna að þróun fræðigreinarinnar, laun eru mjög lág og erfitt að skipuleggja ráðstefnur með sérfræðingum erlendis frá sem geta miðlað af sinni þekkingu. 

En hvaða þýðingu hafa verðlaunin? „Þau eru afskaplega mikil viðurkenning fyrir mig, sem mig óraði aldrei fyrir að ég myndi fá. Ég hef í gegnum árin unnið mjög mikið ein með mínum nemendum og fyrrverandi nemendum með aðstoð og stuðningi kollega víða um heim. Eftir því sem árin hafa liðið þá hefur mér fundist meira og meira að ég væri hér einangruð frá restinni af heiminum í mínum daglegum störfum sem engum fyndist merkileg nema mér og nemendum mínum, kannski örfáum fagmönnum hér heima. Ég varð því mjög hissa þegar mér var tilkynnt um tilnefningu mína til verðlaunanna og jafnvel þá datt mér aldrei í hug að ég myndi hljóta þau. Ég hugsaði að það sem ég hefði gert gæti aldrei talist jafngott eða merkilegt og það sem kollegar út í hinum stóra heimi hafa gert því þeir eru í svo miklu betri aðstöðu því þeir eru mun nær miðju atferlisgreiningarheimsins sem stækkar og snýst hratt,“ segir Gabríela.

Hún bætir við að verðlaunin hafi mikla þýðingu fyrir sig en hljóti líka að vera það fyrir þá sem hafa ráðið hana í vinnu „vegna sérþekkingar minnar á atferlisgreiningu og hafa treyst mér til að gera mitt besta á því sviði. Verðlaunin votta að  ég hef reynt að gera það sem mér var treyst fyrir með árangri sem hefur verið tekið eftir á alþjóðavettvangi og ég er auðvitað mjög þakklát fyrir það og tel mig mjög heppna því þetta er ekki sjálfsagt.“

Gríðarlegur áhugi fyrir námi í hagnýtri atferlisgreiningu

Gabríela segir þetta ekki bara góða viðurkenningu fyrir sig persónulega heldur líka frábært fyrir þverfræðilegt nám í atferlisgreiningu sem Menntavísindasvið og Heilbrigðisvísindasvið, þar með talið Sálfræðideild þar sem Gabríela starfar, hófu að bjóða upp á í sameiningu haustið 2020.

Í boði er bæði eins árs diplómanám og tveggja ára meistaranám og áhersla er á börn með sérþarfir. „Við í undirbúningsnefnd skilgreindum sérþarfir sem hegðunarvanda, þroskahömlun og námsvanda, bæði almennan og sértækan. Námskeiðin og starfsþjálfunin snúast um þessi þrjú svið. En aðrar sérþarfir barna, t.d. vegna kvíða eða ótta, félagsfærni, svefns, ofbeldis eða vanrækslu, rúmast innan þessara sviða líka og nemendur geta kynnst mati og meðferð við slíkum vanda,“ útskýrir hún.Gríðarlegur áhugi reyndist strax fyrir náminu því yfir 70 umsóknir bárust síðastliðið vor en aðeins 21 nemandi var tekinn inn í haust. „Fjöldi nemenda afmarkast af starfsþjálfunarplássum sem aftur ræðst af fjölda leiðbeinenda. Nemendur okkar eru aðallega með bakgrunn úr menntavísindum eða sálfræði. Sumir hafa langa reynslu sem grunnskóla- eða leikskólakennarar en litla þekkingu á atferlisgreiningu, aðrir hafa litla reynslu af vinnu með fólki og komu inn í námið með góðan grunn í sálfræði, aðferðarfræði og atferlisgreiningu eftir sálfræðinám við HÍ,“ segir hún.

COVID-19-faraldurinn hefur vissulega sett strik í reikninginn í skólastarfi undanfarin misseri en Gabríela segir námið hafa engu að síður gengið vel. „Við, sem sjáum daglega um námið, höfum lært margt nú þegar sem mun hjálpa okkur að slípa til nokkra þætti í námsleiðinni, eins og við áttum von á þegar við fórum af stað. Það eru allir að læra á fullu í þessari námsleið, nemendur, kennarar og leiðbeinendur á vettvangi. Samstarfið hefur verið til fyrirmyndar bæði innan námsins, milli sviða og deilda og við samstarfsfólk á vettvangi,“ segir hún.

Hópur

Frá stofnun námsleiðarinnar í hagnýtri atferlisgreiningu sem er samstarfsverkefni fræðasviða innan Háskólans og fleiri aðila.

Hún segir fámennan kennarahóp takmarka möguleika á að taka inn fleiri nemendur ár hvert og það verði mjög gleðilegt þegar hægt verði að bæta við fleirum í hópinn. „Ég á ekki von á öðru en námið vaxi og dafni og hafi áfram áhrif á íslenskt þjóðfélag eins og mín störf í Sálfræðideild og víðar hafa gert hingað til. Áherslan í náminu er á börn með sérþarfir en það eru mörg önnur svið þar sem þörfin fyrir fólk, sem kann til verka í atferlisgreningu og er vel menntað á sviðinu, er brýn. Ég held ég hafi sáð fræjum síðustu þrjátíu árin sem ég er að sjá spretta upp, vaxa og fjölga sér, sem er afar ánægjulegt fyrir mig og aðra sem vinna á sviði atferlisgreiningar á Íslandi. Það er þó mikið starf eftir óunnið og ég vil geta haldið áfram að byggja upp, fái ég áfram tækifæri til þess með góðri hjálp og stuðning nemenda minna og góðra samstarfsmanna, bæði hérlendis og erlendis,“ segir Gabríela að endingu. 

Zuilma Gabríela Sigurðardóttir