Skip to main content
4. apríl 2023

Verðlauna hugmyndir hjá nemendum við Háskóla Íslands

Verðlauna hugmyndir hjá nemendum við Háskóla Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þriðjudaginn 4. apríl fór fram verðlaunaafhending í námskeiðinu Viðskiptaáætlanir sem er þriðja árs námskeið í viðskiptafræði við Háskóla Íslands í umsjá Ástu Dísar Óladóttur dósents. Tæplega 160 nemendur í viðskiptafræði, uppeldis- og menntunarfræði, tölvunarfræði, stjórnmálafræði og nemendur í íslensku sem öðru máli tóku þátt í námskeiðinu að þessu sinni. 

Námskeiðið hefst á því að mynduð eru sex manna teymi sem eiga að koma upp með nýja viðskiptahugmynd og skila að lokum fullmótaðri viðskiptaáætlun. „Að þessu sinni urðu til 27 nýjar hugmyndir og það hefur verið einstaklega gaman að fylgjast með metnaði nemenda þær 12 vikur sem verkefnavinnan stóð yfir og alveg ljóst að einhverjum hugmyndum verður hrint í framkvæmd að námskeiði loknu,“ segir Ásta Dís.

Það var svo þriðjudaginn 4. apríl sem dómnefnd veitti þremur bestu verkefnunum verðlaun við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands þar sem Jón Atli Benediktsson rektor flutti ávarp. Það var samhljóða álit dómnefndar að valið hefði verið erfitt enda um gríðarlega mörg og góð verkefni að ræða.  

Dómnefnd skipuðu auk Ástu Dísar þau Kristján Markús Bragason, stundakennari og sérfræðingur í lánamálum hjá Íslandsbanka, Karl Sólnes Jónsson, viðskiptastjóri hjá Íslandsbanka, og Elísabet Sveinsdóttir, markaðssérfræðingur og ráðgjafi.

Af þessum 27 hugmyndum valdi dómnefnd sex hugmyndir til að keppa til úrslita. Nemendur kynntu hugmyndina í síðustu kennslustundinni og svöruðu spurningum dómnefndar.  Þær hugmyndir sem kepptu til úrslita í dag voru:

  • Bjöllubox, hugmynd um afþreyingu fyrir börn og aukna samveru foreldra með börnum sínum.
  • Drekkum rétt, heimsending á efni til kokteilagerðar fyrir skemmtanaglaða Íslendinga.
  • Klæða, leiga með fatnað, skó og fylgihluti sem ýtir undir hringrásarhagkerfið.
  • Roomy, þjónusta sem parar saman réttu einstaklingana í húsnæðisleit erlendis.
  • Tangle Tamer, tæki/gildra sem tekur girni eða taumefni veiðimanna sem þeir eru hættir að nota og safnar á einn stað. 
  • Þrekkur, framleiðsla á áburði úr úrgangi úr fiskeldi. 

Þær hugmyndir sem unnu í ár: 

  1. Tangle Tamer
  2. Roomy 
  3. Drekkum rétt 

Um Tangle Tamer

Dýraríkinu hefur lengi stafað hætta af ónýtu girni/taum veiðifæra víða í náttúrunni.  Því ákvað hópurinn að kynna nýja lausn sem stuðlar að ábyrgri umgengni veiðimanna við ár og vötn landsins. TangleTamer er falleg og handhæg í notkun, henni er krækt í vesti veiðimannsins og með einum takka fangar gildran ónýtt girni/taum á auðveldan og öruggan hátt og stuðlar um leið að náttúruvernd og öryggi lífríkisins. Hópurinn bakvið hugmyndina eru sex viðskiptafræðinemar með fjölbreyttan bakgrunn. Hópurinn stefnir á að framleiða vöruna á Íslandi og verður þess gætt að framleiðsluaðili uppfylli staðla samfélagslegrar ábyrgðar. Teymið stefnir að því að selja vöruna á heimasíðu félagsins en einnig í helstu veiðibúðum landsins. 

Hópinn skipa Jakob Freyr Kolbeinsson, Jónas Valtýsson, Júlíana Sveinsdóttir, Magnea Björg Jónsdóttir, Ragnheiður Lína Kjartansdóttir og Sigríður Elva Ármannsdóttir.

Umsögn dómnefndar: Dómnefndin var sammála um að þarna væri mjög sniðug vara á ferðinni og kostur sem vert væri að láta reyna á enda ýtir varan undir bætta umgengni í náttúru Íslands, við ár og vötn. Þetta er eitthvað sem allir stangveiðimenn ættu að hafa á sér við veiðar.

Um Roomy 

Nemendur sem ferðast til annara landa þurfa margir að leita af íbúð og meðleigjanda. Það getur verið mikill hausverkur að reyna að ná að lenda akkúrat á einstakling sem hentar þínum lífsstíl og persónuleika. Ef maður lendir á meðleigjanda sem hentar ekki þá þarftu að byrja frá byrjun að leita af íbúð og nýjum meðleigjanda. Roomy er vefsíða sem leysir þetta vandamál. Þetta er gullið tækifæri fyrir fólk sem leitar að herbergisfélaga sem deilir svipuðum áhugamálum, lífsstíl og venjum. Í fyrstu mun við einblína á Ísland, Danmörku og Svíþjóð en með tímanum ætlum við að ná til allrar Evrópu. Notast verður við samfélagsmiðla, skólakynningar og leitarvélabestun til að auglýsa Roomy. Framtíðarsýnin er að vera komin með app í símann til að gera þetta enn einfaldara og vera með spjallvettvang á vefsíðunni til að mynda betri tengsl. Stofnendur Roomy eru hópur sem samanstendur af sex einstaklingum með fjölbreytta styrkleika og reynslu sem býr til öfluga liðsheild. Allir í teyminu eru viðskiptafræðinemar á sínu síðasti ári með áherslu á stjórnun eða markaðsfræði. 

Hópinn skipa Dagný Þorláksdóttir, Daníel Tryggvi, Eva Rún Eiðsdóttir, Margrét Fríða Hjálmarsdóttir, Sólveig Þrastardóttir og Þóra Ólafsdóttir.

Umsögn dómnefndar: „Stórsniðug hugmynd sem gæti leyst vandamál sem margir skiptinemendur og nemendur í framhaldsnámi þekkja vel, vandamálið að finna húsnæði í öðru landi. Þetta er mjög áhugaverð hugmynd og dómnefnd hvetur hópinn til þess að koma hugmyndinni í loftið.“

Um Drekkum rétt

Fyrirtækið Drekkum rétt er þjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í því að útbúa pakka með kokteilum sem auðveldar neytendum að útbúa drykki heima hjá sér. Fyrirtækið samanstendur af 6 ungum háskólanemum sem öll eiga það sameiginlegt að hafa gaman að því að bjóða upp á góða kokteila í heimahúsum. Hugmyndina fengum við þegar einn meðlimur hópsins var að halda matarboð og langaði að búa til drykki fyrir gestina eftir matinn. Eftir langa íhugun um það hvaða drykk hann ætti að gera strandaði hann á verkefninu vegna þess að það var svo mikið sem hann þurfti að kaupa. 

Flestir kannast við fyrirtæki á borð við „Eldum rétt“ og „Einn tveir og elda“ en þau bjóða upp á þjónustu þar sem er hægt að panta sér mat fyrir vikuna sem kemur í kassa með öllum þeim hráefnum sem þú þarft í nákvæmlega réttu magni. Hugmyndin Drekkum rétt er ákveðið afsprengi af þessum fyrirtækjum fyrir utan það að þau sérhæfa sig í gerð kokteila. Verkefnið verður í formi vefsíðu með netverslun þar sem hægt er að velja úr miklu úrvali áfengra og óáfengra drykkja. Notendur skrá sig inn á síðuna og gefa þar upp allar helstu upplýsingar um sig ásamt afriti af persónuskilríkjum til þess að sanna að einstaklingurinn hafi náð 20 ára aldri. Eftir það getur notandinn sett inn fyrir hversu marga hann er að panta og hvaða drykki hann vill bjóða upp á. Með pakkanum verða sendar ítarlegar leiðbeiningar með hverjum drykk þar sem auðvelt er að lesa og framkvæma hann, eina sem notandinn þarf að eiga eru klakar og kokteilsett sem að við að sjálfsögðu seljum hjá okkur. 

Hópinn skipa Bjarnleifur Þór Þorkelsson, Davíð Arnar Jónsson, Eyþór Örn Ólafsson, Hjördís Rósa Guðmundsdóttir, Leó Kristinn Þórisson og Tindur Snær Schram.

Umsögn dómnefndar: Þetta er skemmtileg hugmynd sem leysir ýmis vandamál fyrir skemmtanaglaða Íslendinga og dregur úr sóun. Hugmyndinni svipar til Eldum rétt, sem hefur markaðssett sig mjög vel og nýtist það hópnum vel til framtíðar. 

,,Auk þess að óska nemendum innilega til hamingju viljum við hjá Viðskiptafræðideild þakka Íslandsbanka kærlega fyrir að vera bakhjarl þessa verkefnis sl. 3 ár. Stuðningur bankans, bæði í formi peningaverðlauna sem og tíma starfsmanna, gerir okkur kleift að halda verðlaunaafhendingu sem þessa. Því er stuðningurinn ómetanlegur og er nemendum aukaleg hvatning til að virkja sköpunarkraft sinn“ segir Ásta Dís að lokum.

Myndir tók Kristinn Ingvarsson.

Tangle tamer hópurinn
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands opnaði verðlaunaafhendinguna
Edda Hermannsdóttir markaðs- og samskiptastjóri Íslandsbanka
Ásta Dís Óladóttir, umsjónarmaður námskeiðsins Viðskiptaáætlanir
Drekkum rétt hópurinn
Roomy hópurinn
Sigurvegarar ásamt dómnefnd, rektor, Eddu Hermannsdóttur frá Íslandsbanka og Ástu Dís Óladóttur
Fulltrúar allra verkefna ásamt dómnefnd, Jóni Atla Benediktssyni, Gylfa Magnússyni, Eddu Hermannsdóttur, Ástu Dís Óladóttur og Gyðu Hlín Björnsdóttur