Skip to main content
29. september 2022

Úrræða leitað fyrir fólk sem vill hætta í vændi

Úrræða leitað fyrir fólk sem vill hætta í vændi - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í stefnu Háskóla Íslands, HÍ26, er rík áhersla lögð á að rannsóknir hafi samfélagsleg áhrif og að tekist sé á við brýnar áskoranir og flókin verkefni sem fólk glímir við í samtímanum. Jafnrétti er eitt af grunnstefjum stefnunnar en þar segir að þekkingarsköpun, rannsóknir og kennsla við skólann eigi að hafa sem víðtækust áhrif og nýtast til stuðnings við jafnrétti, lýðheilsu og farsæla samfélagsþróun. 

Gyða Margrét Pétursdóttir, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands, vinnur einmitt fjölda rannsókna þar sem fengist er við allt þetta. Í rannsóknum sínum beinir hún sjónum að margslungnum þáttum sem varða m.a. réttindi og reynslu fólks við ólíkar samfélagslegar aðstæður. Gyða Margrét segir að kynjafræðinni sé enda ekkert óviðkomandi og það gefi henni færi á að leita víða fanga því allt í samfélaginu hafi kynjafræðilegar víddir.

„Það skiptir öllu máli að fjallað sé um öll málefni af þekkingu, að byggt sé á reynslu þeirra sem fjallað er um hverju sinni og að reynslan sé sett í fræðilegt samhengi,“ segir Gyða Margrét sem vinnur nú ásamt Sveinu Hjördísi Þorvaldsdóttur að rannsókn sem fjallar um reynslu fólks af vændi. Sveina er rannsakandi við HÍ en hún útskrifast með MA-gráðu í kynjafræði frá skólanum í október. Með rannsókninni leita þær leiða til að þróa samfélagið á jákvæðan hátt því þær skoða og meta í verkefninu hvaða úrræði þurfi að vera til staðar fyrir fólk sem vilji hætta í vændi. 

„Ástæða þess að við notum orðið vændi í rannsókninni en ekki kynlífsvinna,“ segir Gyða Margrét, „er sú að viðmælendur okkar fjalla um reynslu sína með þeim hætti. Þau hafa flest leitað til Stígamóta og upplifa vændi sem kynferðisofbeldi.“

Kveikjan var lagasetning á Alþingi

Aðspurð um kveikjuna að þessari rannsóknavinnu segir Gyða Margrét að árið 2009 hafi verið samþykkt á Alþingi „hin svokallaða sænska leið sem gerir kaup en ekki sölu á vændi refsiverð. Í kjölfar lagasetningarinnar hafa aðstæður fólks í vændi ekki verið kortlagðar og hvaða úrræði þurfa að vera til staðar fyrir þau sem vilja hætta í vændi. Þessari rannsókn er ætlað að stoppa í þetta gat í þekkingunni.“

Unnin í samstarfi við Stígamót

Í heildarstefnu HÍ er lagt kapp á að vinna með atvinnulífi og stofnunum samfélagsins á sem flestum sviðum. Þessi rannsókn er unnin í samstarfi við Stígamót en Gyða Margrét segir að þar hefði lengi verið áhugi á að kortleggja reynslu þess hóps sem virðist að hennar sögn glíma við alvarlegri afleiðingar kynferðisofbeldis en aðrir sem leita til Stígamóta.

„Rannsókninni er ætlað að hafa áhrif á stefnumótun stjórnvalda í málaflokknum og byggt á henni vonumst við til að geta átt í samræðum við stjórnvöld um hvernig megi koma til móts við fólk í vændi og hvaða úrræði þurfa að vera til staðar fyrir fólk sem vill hætta í vændi.“

Konur afmennskaðar og upplifi skeytingarleysi

Nýnæmi þessarar rannsóknar er umtalsvert en eftir því sem Gyða Margrét veit best er rannsóknin fyrsta sinnar tegundar hér landi eftir að sænska leiðin var samþykkt „og markmið hennar er að bæta aðstæður jaðarsetts hóps í samfélaginu og verður vonandi til þess að valdefla fólk sem hefur verið og er í vændi.“

Rannsóknin felst í því að taka viðtöl og nú þegar hafa slík verið tekin við á annan tug kvenna sem hafa eða eru í vændi. „Flestar urðu þær fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku og allar eiga þær margþætta áfallasögu. Félagsleg og/eða efnahagsleg staða þeirra er veik og margar fara í vændi til að láta enda ná saman. Í byrjun upplifa þær margar ákveðna valdeflingu en sú tilfinning víkur fyrir ótta og skömm. Þær eru afmennskaðar og upplifa skeytingarleysi lögreglu og fleiri opinberra stofnanna á aðstæðum sínum og kjörum.“ 

Gyða Margrét segir að rannsóknin takist á við jafnrétti sem sé eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og leggi mikilvægt lóð á þær vogarskálar. 

 

Gyða Margrét Pétursóttir og Sveina Hjördís Þorvaldsdóttir