Skip to main content
5. júlí 2023

Um upphaf formlegrar kennslu í heimspeki

Um upphaf formlegrar kennslu í heimspeki - á vefsíðu Háskóla Íslands

Því var fagnað í fyrra að 50 ár væru liðinn frá því að nám til BA-gráðu í heimspeki hófst við Háskóla Íslands. Í tengslum við þessi tímamót hefur Þórður Kristinsson, fyrrverandi heimspekinemi og fyrrverandi kennslustjóri HÍ, tekið saman texta um upphaf kennslunnar sem fylgir hér á eftir:

„Tímans þungi niður er samur við sig. Síðastliðið haust var liðin hálf öld frá því kennsla til BA prófs í heimspeki hófst við Háskóla Íslands. Frumkvöðlar formlegrar heimspekikennslu til prófgráðu voru einkum þrír, Páll Skúlason, Þorsteinn Gylfason og Mikael M. Karlsson. Kennsla hófst haustið 1972 og annaðist Páll Skúlason, settur prófessor, kennsluna. Í byrjun voru nemendur um tuttugu talsins. Símoni Jóh. Ágústssyni prófessor hafði verið veitt ársleyfi frá störfum vegna veikinda en hann hafði annast kennslu í heimspekilegum forspjallsvísindum um áratugaskeið, auk kennslu á sviði uppeldis og sálarfræði, sem var hans meginviðfangsefni. Hann var prófessor árin 1945-1975. Páll var settur prófessor í stað hans í veikindaleyfinu, frá 1. október 1972, en Páll hafði áður verið settur lektor í heimspeki 15. september 1971 og var skipaður 1. október 1973 samtímis Þorsteini Gylfasyni. Páll var síðan skipaður prófessor 1. október 1975. Þorsteinn var skipaður dósent 1. janúar 1983 og prófessor 1. maí 1989.

Þeir Páll og Þorsteinn lögðu grunninn og mótuðu skipan námsins. Á öðru árinu fengu þeir til liðsinnis Mikael M. Karlsson sem rak hér á fjörur landsins af tilviljun árið 1973 og kom inn sem gistilektor í september 1975. Setning hans í stöðu lektors var framlengd 1. september 1979, skipaður 1. september 1986, varð prófessor 1. júlí 1995. Arnór Hannibalsson bættist svo í hópinn í ágúst 1977 er hann var skipaður lektor. Hann var skipaður dósent 1. janúar 1983 og prófessor 1. febrúar 1989. Síðan bættust fleiri í hópinn, konur og karlar.

Í nóvember 1974 samþykkti háskólaráð tillögu þeirra Páls og Þorsteins um breytta skipan náms í heimspekilegum forspjallsvísindum og í apríl árið eftir beindi ráðið því til deilda, að tillögu Guðlaugs Þorvaldssonar rektors, Sigurðar Líndal, prófessors í Lagadeild, og Halldórs Guðjónssonar kennslustjóra að „þær hagi námsskrá sinni þannig að forspjallsvísindum sé ætlað rúm á fyrsta eða öðru námsári.“ Gekk það eftir í meginatriðum og um árabil námu allir háskólanemendur forspjallsvísindi sem leiddi þá inn í hinn flókna þekkingarfræðilega heim vísinda og fræða. Nokkuð löngu síðar varð umfangsmikil breyting á sem ekki verður dvalið við hér. En margir fóru í gegnum „fíluna“ svokölluðu og er ákveðinn söknuður að henni.

Frumkvöðlar með ólíkan bakgrunn

Svo vill til að ég gerðist nemandi í heimspeki haustið 1975 eftir að hafa lokið námi í íslensku og vantaði aukagrein. Ég lauk síðan einnig BA-námi í heimspekinni og kynntist þessum kennurum mætavel - í senn í námi, leik og starfi. Einkum þó Páli sem varð einn minn nánasti vinur og síðar samstarfsmaður er hann gegndi starfi rektors 1997-2005.

Það sem var sérstakt við þessa þrjá kennara var að þeir höfðu sótt menntun sína hver í sínu landinu og þar með innan ólíkra heimspekihefða, Páll í Belgíu, Þorsteinn í Englandi (og Bandaríkjunum) og Mikael í Bandaríkjunum. 

Af því leiddi að þeir nálguðust viðfangsefnin með mismunandi hætti, hver hafði sinn hátt á efnistökum í kennslunni og nemendur fengu innsýn í ólíka heima heimspekinnar með mjög svo fjölbreyttum bókakosti sem fyrir var lagður. Og kennararnir voru vissulega ólíkir, bæði sem menn og um menntun. Tvennt var þó sameiginlegt þeim öllum.

Annars vegar sú aðferð að nemendum var uppálagt að skrifa stuttar ritgerðir um einstök tilgreind viðfangsefni þeirra greina sem kenndar voru, iðulega eina, tvær, þrjár á viku, sem voru síðan rækilega yfirfarnar af kennurunum, reifaðar og ræddar í tímum – og metnar til einkunnar. Í stað ritgerða gátu nemendur valið að taka skriflegt próf í lok námskeiðs. Mig minnir að flestir hafi valið ritgerðirnar.

Þríeinn samnefnari heimspekihefðarinnar

Hitt sem var þeim öllum sameiginlegt – og sem ég vænti að sé enn í heimspekikennslunni – var sá heimspekigrunnur sem byggt var á þrátt fyrir hinn ólíka bakgrunn kennaranna, þ.e. kenningar Sókratesar, Platons og Aristótelesar. Í því efni rifjaðist upp fyrir mér fyrirlestur sem Páll flutti á fundi Félags heimspekikennara 30. janúar 2013, þar sem hann leitast við að svar spurningunni: Hvað er heimspekikennsla? Þar víkur hann einmitt að þessum grunni og þeirri viðleitni heimspekinnar að leitast við að skýra hugmyndir og hugtök í þeim tilgangi að finna sameiginlegar forsendur til að hugsa og skilja heiminn. Hann orðar þetta þannig: *

“Þessar forsendur lúta að hinni andlegu vídd veruleikans þar sem manneskjurnar leitast við að þroskast sem hugsandi verur og öðlast dýpri skilning á sjálfum sér og veröldinni. Um þetta snýst iðkun og kennsla heimspekinnar og hefur alla tíð gert, þótt heimurinn hafi tekið mörgum stökkbreytingum rétt eins og stofnfrumurnar í líkama lifandi vera. Og að sjálfsögðu hefur iðkun heimspekinnar tekið breytingum og kennslan þá líka. En rétt eins og heimurinn er sá sami í dag og fyrir 2500 árum og rétt eins og stofnfrumurnar endurnýja sig stöðugt á nokkra vikna fresti, þá er heimspekin líka ein og söm með síbreytilegum tilbrigðum og ófyrirsjáanlegum stökkbreytingum. Sá sem fer að stunda heimspeki rekur sig endalaust á það að aðrir hafa þegar hugsað þær hugsanir sem hann upplifir með sjálfum sér sem óvæntar – og að hann fær nýja hugmynd sem hann finnur svo hjá Platon eða Descartes.

Ég veit að það hefur verið lenska í ákveðnum hópi fræðimanna og skálda alveg frá dögum þeirra Sókratesar, Platons og Aristótelesar að skopast að viðleitni heimspekinganna. Og hér komum við að merkilegu atriði sem einnig greinir heimspeki frá öðrum fögum, því það skopast fáir að læknisfræði, tónlist eða eðlisfræði. Þetta skop er ekki alltaf saklaus kímni, heldur beinlínis árás á heimspekina einkum og sér í lagi fyrir það að ætla sér eitthvað sem hún getur ekki, nefnilega að færa mannkyni á silfurfati frumspekilegar, þekkingarfræðilegar og siðfræðilegar forsendur fyrir mannlífinu – ekki síst vísindum og listum, stjórnmálum og efnahagskerfum. Heimspekingar hafa alla tíð verið viðkvæmir fyrir þessari gagnrýni, ekki síst vegna þess að hún kemur oft úr þeirra eigin röðum, það er að segja frá fræðimönnum sem hafa numið heimspeki og segjast jafnvel vera að stunda heimspeki – en gera það með því að ráðast gegn heimspekiskrifum og kenningum eldri heimspekinga og telja þá hafa verið á algjörum villigötum.

Kenningar Sókratesar, Platons og Aristótelesar hafa svo dæmi sé tekið verið allar tættar sundur og saman og afskrifaðar sem öldungis úrelt speki. Samt er það óumdeilt að það eru þessir menn sem lögðu öllum öðrum fremur grunn að þeirri heimspekihefð sem hefur gegnsýrt vestræna menningu og lagt í öllum meginatriðum grunn að því hugmynda- og hugtakakerfi sem hefur haldið utan um veruleikann fyrir okkur í aldanna rás og gerir enn. Vissulega hafa hugmyndir úr heimi Gyðinga, Rómverja og Araba líka haft sín áhrif – og við skulum heldur ekki gleyma því að hugmyndaheimur Grikkjanna á sér djúpar rætur í menningarheimum Egypta, Persa og Indverja sem blómstruðu löngu áður en forngrísk menning reis með sínum glæsta brag á 4. og 5. öldinni fr. Kr.

Ef við horfum til baka og spyrjum okkur um helstu fyrirmyndir heimspekinga síðustu 2500 árin á Vesturlöndum til þessa dags, þá blasir við öllum að það eru þeir Sókrates, Platon og Aristóteles. Öll iðkun heimspeki og þar með öll heimspekikennsla á miðöldum, á nýöld og síðan á 19. og 20. öld ber vitni um þetta. Öll kennsla í heimspeki í háskólum hvarvetna í heiminum tekur nú á dögum mið af hinni vestrænu heimspekihefð um leið og aðrar fornar hugsanahefðir fá einnig verðskuldaða athygli.

thorsteinn_gylfason

Þegar við hófum að kenna heimspeki hér við Háskólann árið 1972 þá höfðum við Þorsteinn Gylfason þetta báðir í huga. Við vorum ekki sammála um allt, en um þetta var enginn ágreiningur. Og við vorum líka algjörlega sammála um það að heimspekin væri fag sem hefði hugar-tök okkar á veruleikanum að viðfangsefni. Og þegar við kynntumst Mikael M. Karlssyni ári síðar þá sáum við strax að hann var sama sinnis; og það sem meira var, hann kunni að kenna rökfræði sem við Þorsteinn höfðum hins vegar hvorugur stúderað í því skyni að kenna. Svo bættist Arnór Hannibalsson í hópinn og fleiri og fleiri sem allir voru sammála um mikilvægi hinna þriggja fornu risa í grískri heimspeki. Heimspekikennsla í Háskóla Íslands hefur því byggt á þessum gríska grunni og þeirri hefð sem þróast hefur á Vesturlöndum.

Þegar við ætlum núna að pæla skipulega í heimspekikennslu á Íslandi – og ekki aðeins í Háskólanum, heldur líka í grunn- og framhaldsskólum, þá eigum við tvímælalaust að rannsaka sérstaklega þessar grunnfyrirmyndir heimspekinnar – Sókrates, Platon og Aristóteles – og hvernig síðari tíma heimspekingar hafa líkt eftir þeim eða hugsanlega reynt að móta hugsun sína beinlínis í andstöðu við þá.“ (Páll Skúlason, 2013).

Þessi þríeini samnefnari heimspekihefðarinnar sem Páll reifar í þessum fyrirlestri er veganestið sem manni var gefið í náminu. Hver og einn vegur svo og metur (vonandi) hvernig með er farið og haft er hugfast. Eitt er að nema og annað að temja sér það sem numið er. Frá mínum bæjardyrum séð eru það iðulega hin einföldu sannindi um nauðsyn röksamhengis í hverju viðfangsefni sem koma upp í hugann, að afmarka, skilgreina og skilja hugtökin sem fengist er við – og samhengi þeirra – áður en afstaða er tekin á grundvelli þeirra. Og ekki síður að alhæfa ekki út frá hinu einstaka um hið almenna (sem reyndar er ekki mjög sjaldgæfur kvilli). Ef maður er trúr þessum einföldu sannindum, þá eru þau býsna gagnlegur förunautur og leiðarljós á vettvangi dagsins, í lífi, leik og starfi.

Þórður Kristinsson, fyrrverandi kennslustjóri HÍ.“

*Páll Skúlason: Hvað er heimspekikennsla? Flutt á fundi Félags heimspekikennara 30. janúar 2013. Sjá: http://pallskulason.is/component/content/article?id=52:hvad-er-heimspeki...

Aðrar heimildir: Kennsluskrár HÍ og Árbækur HÍ

""