Skip to main content
27. júní 2022

Um 20% fjölgun umsókna um leikskólakennaranám við HÍ

Um 20% fjölgun umsókna um leikskólakennaranám við HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Umsóknum um nám í leikskólakennarafræði fjölgaði um u.þ.b. 20% milli ára og 70 leikskólakennarar tóku við brautskráningarskírteinum sínum þann 25. júní síðastliðinn, sem er veruleg aukning frá síðustu árum. 

Alls bárust um 5.051 umsóknir um grunnnám í Háskóla Íslands og þar af um 670 umsóknir um grunnnám á Menntavísindasviði HÍ. Tæplega 170 sóttu um nám við námsleiðir grunnskólakennslu með ólíkum áherslum. Einnig bárust tæplega 60 umsóknir um nám í kennslufræði fyrir iðnmeistara og kennslufræði verk- og starfsmenntunar. Um 100 manns ætla í íþrótta- og heilsufræði, rúmlega 90 í þroskaþjálfafræði, 78 ætla í uppeldis- og menntunarfræði og 39 stefna á nám í tómstunda- og félagsmálafræði. Umsóknir um nám í leikskólakennarafræði reyndust 110 talsins og er um 20% aukning á milli ára.

Þá tóku 70 leikskólakennarar við brautskráningarskírteinum sínum þann 25. júní, sem veruleg aukning frá síðustu árum. Brautskráðum úr leikskólakennarafræði við Háskóla Íslands hefur fjölgað með hverju árinu síðastliðin þrjú ár. Árið 2020 brautskráðust 21 leikskólakennaranemar, árið 2021 brautskráðust 49 og í ár 70 kandídatar.

Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir, dósent og umsjónarmaður námsleiðar í leikskólakennarafræðum við Háskóla Íslands, segir þessa aukningu hafa mikla þýðingu fyrir leikskólasamfélagið. „Það er mjög mikilvægt að í leikskólum starfi leikskólakennarar og að þeir hafi þá fagþekkingu sem til þarf bæði upp á gæði starfsins og menntunar yngstu barnanna. Langflestir leikskólakennaranemar starfa í leikskóla samhliða náminu sem getur verið mikill hagur fyrir leikskólann. Að hafa starfandi nemendur ýtir oft undir faglegt samtal inn í skólanum því neminn er að ígrunda starfið, kemur gjarnan með krefjandi spurningar og á í lifandi samtali við samstarfsfélaga um starfið.“  

Þær Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, og Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir, dósent og umsjónarmaður námsleiðar í leikskólakennarafræðum, fagna aukinni aðsókn í nám í leikskólakennarafræði og undirstrika mikilvægi þess að eiga gott samstarf við leikskólavettvanginn.

Ingibjörg Ósk segir jafnframt að fólk eigi ekki að hika við að koma í leikskólakennaranám þar sem námið sé bæði hagnýtt og skemmtilegt: „Námið leiðir til leyfisbréfs kennara á þremur skólastigum,  en kennarastarfið er eitt mikilvægasta starfið í samfélaginu. Ef fólk hefur áhuga á að starfa með ungum börnum þá er ekki bara mikilvægt að mennta sig á því sviði til að tryggja gæði leikskólanámsins, heldur verður starfið svo miklu skemmtilegra og markvissara þegar maður hefur þekkinguna til að sinna því sem best.“ 

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, þakkar þessa ánægjulegu aukningu samvirkni margra þátta og samstarfi margra aðila: „Menntavísindasvið Háskóla Íslands hefur átt í miklu samtali við leikskólavettvanginn síðustu ár sem hefur verið okkur mikilvægt til þróunar námsins. Þá hefur samstarf háskólanna og vettvangs, m.a. UTÍS-hópsins, um átakið Komdu að kenna verið afar farsælt. Auk þess stendur meistaranemum til boða fleiri valkostir með nýrri MT-gráðu og þá stendur yfir innleiðing á raunfærnimati þar sem hæfni og þekking úr starfi er metin til einingabærs náms. Allir þessir mikilvægu þættir hafa verið unnir í þéttu samstarfi háskóla, vettvangs, sveitarfélaga og stjórnvalda. Það, fyrst og fremst, hefur skilað frábærum árangri og fjölgun leikskólakennara.“ 

Leikskólakennari og börn