Skip to main content
12. desember 2022

Ullarkoddi, yfirdýna og einangrunarull verðlaunuð á nýsköpunarnámskeiði

Ullarkoddi, yfirdýna og einangrunarull verðlaunuð á nýsköpunarnámskeiði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hugmyndir að ullarkodda, yfirdýnu fyrir náttúrubörn og húseinangrun úr ull urðu hlutskarpastar í nýsköpunarnámskeiðinu „Heldurðu þræði?“ sem lauk þann 19. nóvember sl. Námskeiðið hélt námsbraut í kynjafræði í Háskóla Íslands í samstarfi við Textílmiðstöð Íslands með stuðningi Evrópuverkefnisins CENTRINNO. 

Námskeiðið fór fram fyrr í haust og þar fékk textíláhugafólk, sem vildi þróa hugmyndir sínar frekar, fræðslu í viðskiptaáætlunum, stefnumótun, stjórnun og starfsmannamálum og hagnýtingu samfélagsmiðla í markaðssetningu auk fræðslu um hringrásarhagkerfið, jafnréttisáherslur og umhverfismál. Margar skemmtilegar hugmyndir litu dagsins ljós og lauk námskeiðinu með fjárfestingakynningum og verðlaunaafhendingu.

Fyrstu verðlaun hlaut hugmynd Elínar Jónu Traustadóttir „Værukær“ sem er koddi fylltur með íslenskri ull. Í öðu sæti var hugmynd Kristínar S. Gunnarsdóttur „Mjúkull – yfirdýna fyrir náttúrubörn“ og í þriðja sæti var hugmynd Lindu Friðriksdóttur „Húseinangrun úr ull“ en verkefnið felst í að nýta ull með steinull í húseinangrun. 

Dómnefnd samkeppninnar skipuðu þau Berglind Ósk Hlynsdóttir, frumkvöðull og fatahönnuður, Hannes Óttósson, doktor í nýsköpun og sérfræðingur hjá Rannís, og Sigurður Sævar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ístex. 

CENTRINNO-nýsköpunarnámskeið fyrir textíláhugafólk verður aftur í boði á vormisseri 2023. 

Um CENTRINNO

Nýsköpunarnámskeiðið tengist Evrópuverkefninu CENTRINNO (New CENTRalities in INdustrial areas and engines for inNOvation and urban transformation) sem Háskóli Íslands og Textílmiðstöð Íslands taka þátt í ásamt stofnunum og fyrirtækjum í níu löndum. Markmið CENTRINNO er að endurvekja hnignandi en menningarsögulega mikilvæg iðnaðarsvæði í Evrópu þar sem störfum hefur fækkað og umhverfi er á fallanda fæti. Sérstök áhersla er lögð á textíl í verkefninu og í tengslum við það er unnið að því að koma nýsköpunar- og þekkingarmiðstöðvum á fót í Amsterdam, Barcelona, Genf, Kaupmannahöfn, Mílanó, París, Tallinn, Zagreb og á Blönduósi. Þar verður margháttaður menningararfur kvenna og karla nýttur sem hvati fyrir nýsköpun og félagslega þátttöku í anda hringrásarhagkerfis og sjálfbærni.

Vefsíða CENTRINNO
 

Verðlaunahafarnir þrír, Elín Jóna Traustadóttir, Kristín S. Gunnarsdóttir og Linda Friðriksdóttir að loknu námskeiði.