Skip to main content
25. maí 2023

Tuttugu og þrír nemendur útskrifast frá Jafnréttisskóla GRÓ

Tuttugu og þrír nemendur útskrifast frá Jafnréttisskóla GRÓ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tuttugu og þrír nemendur útskrifuðust í gær með diplómu á meistarastigi í alþjóðlegum jafnréttisfræðum frá Háskóla Íslands. Hópurinn er sá fimmtándi sem útskrifast frá Jafnréttisskóla GRÓ. Aldrei áður hafa nemendur komið frá jafn mörgum löndum, en þau eru sextán talsins: Kamerún, Eþíópía, Gana, Indlandi, Jamaíka, Kenía, Kosovo, Malaví, Mósambík, Nepal, Pakistan, Síerra Leóne, Srí Lanka, Tansanía, Úganda og Simbabve. Þau eru með ólíkan bakgrunn og starfa á fjölbreyttum sviðum, meðal annars hjá stjórnarstofnunum, fjölmiðlum, grasrótarsamtökum, háskólum og innan listaheimsins, en öll eiga þau sameiginlegt að vinna að kynjajafnrétti. Nemendurnir njóta m.a. stuðnings frá alþjóðavídd Menntaáætlunar ESB.

Alls hafa 218 nemendur útskrifast frá Jafnréttisskóla GRÓ sem hefur verið starfræktur við Hugvísindasvið Háskóla Íslands frá árinu 2009 sem þáttur í þróunarsamvinnu Íslands. Frá árinu 2020 hefur hann verið einn fjögurra skóla sem starfa sem hluti af GRÓ þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu undir merkjum UNESCO – Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Hinir skólarnir eru Jarðhitaskólinn, Sjávarútvegsskólinn og Landgræðsluskólinn. Samtals hafa rúmlega 1600 nemendur frá yfir 100 löndum lokið námi við skólana, auk þess sem fjölmargir hafa sótt styttri námskeið sem haldin eru í samstarfslöndum. Einnig styðja skólarnir nemendur til framhaldsnáms við íslenska háskóla.

Aldrei áður hafa nemendur komið frá jafn mörgum löndum, en þau eru sextán talsins: Kamerún, Eþíópía, Gana, Indlandi, Jamaíka, Kenía, Kosovo, Malaví, Mósambík, Nepal, Pakistan, Síerra Leóne, Srí Lanka, Tansanía, Úganda og Simbabve.

Í athöfninni voru, sem fyrr, veitt tvenn verðlaun sem kennd eru við Vigdísi Finnbogadóttur, verndara Jafnréttisskólans. Verðlaunin fyrir hagnýtt verkefni hlaut Sana Salim Lokhandwala frá Pakistan en þar setur hún stöðu tíðaheilbrigðismála í Pakistan í samhengi við félagslegt og efnahagslegt misrétti og leggur til leiðir sem tryggja eiga úrbætur og réttlæti. Verðlaun fyrir besta rannsóknarverkefnið féllu í skaut Bijal Dipak Lal frá Tansaníu. Í ritgerð sinni kannar hún menningarlegar hindranir sem fatlaðar konur í Tansaníu mæta þegar kemur að kynferðislegu sjálfræði.

Ávörp fluttu dr. Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Jafnréttisskólans, dr. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins. Wevyn Helen Awiti Muganda frá Kenía flutti ávarp fyrir hönd útskriftarhópsins. Irma Erlingsdóttir afhenti nemendum prófskírtein sín og Nína Björk Jónsdóttir, forstöðumaður GRÓ, veitti þeim viðurkenningarskjöld GRÓ-GEST.

Myndir Kristins Ingvarssonar frá athöfninni

Útskriftarhópurinn ásamt forstöðumanni Jafnréttisskólans, rektor ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins og forstöðumanni GRÓ.