Skip to main content
10. júlí 2023

Tóku þátt í vinnustofu Aurora í skapandi skrifum

Tóku þátt í vinnustofu Aurora í skapandi skrifum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fjórir nemendur HÍ, Antonia Hamann, Friend Nnadozie Osuorji, Harrison Collins og Matei Popescu, tóku í lok maí þátt í vikulangri vinnustofu í skapandi skrifum í Palacký háskólanum í Olomouc í Tékklandi en vinnustofan var á vegum Aurora-samstarfsins.  

Aurora-samstarfið er net evrópskra háskóla sem leggur áherslu á kennslu og rannsóknir og vinnur að því að þróa háskólanám til framtíðar. Sérstök áhersla er á kennsluþróun og nýsköpun í starfsemi háskóla með það fyrir augum að undirbúa nemendur sem best undir áskoranir framtíðarinnar. Vinnustofan í Tékklandi í skapandi skrifum var liður í því. 

Nemendur frá fjórum skólum innan Aurora-samstarfsins, Háskóla Íslands, University of East Anglia, Háskólanum í Duisburg-Essen og Palacký-háskóla tóku þátt í vinnustofunni í Olomouc með það að markmiði að æfa sig í ritun prósa, ljóða og karakterlýsinga.

Margir nemendanna hyggjast leggja fyrir sig ritstörf en aðrir þátttakendur nýttu tækifærið til þess að bæta við sig þekkingu og leika sér með skapapandi skriftir til þess að efla hæfni sína sem miðlarar. Afraksturinn var því efni byggt á fjölbreyttum stílum og hugmyndum.

Námskeiðið var þannig skipulagt að hver dagur hverfðist um tilteknar ritunaræfingar sem settar voru saman af vandvirkni til þess að ýta undir sköpunarkraft og nýsköpun meðal þátttakenda. Þeir fengu jafnframt einstakt tækifæri til þess að kafa djúpt í eigin tilfinningar og hugsanir og um leið að fága sína rödd sem rithöfundar. Jafnframt gafst þátttakendum færi á að lesa hluta af sköpunarverkum sínum fyrir litla hópa og um leið fá mikilvæga endurgjöf frá bæði kennurum og öðrum þátttakendum.  

Námskeiðinu lauk með upplestri þar sem allir þátttakendur kynntu verk sem þau höfðu unnið mest í. Þetta reyndist þeim afar góð reynsla, ekki aðeins til að undirstrika það sem þau höfðu lært í vikunni heldur ýtti þetta einnig undir sjálfsöryggi og framkomuhæfni nemenda. 

Lengri útgáfu af fréttinni, sem nemendurnir rituðu sjálfir, má lesa á enskum vef HÍ.

Frekari upplýsingar um vinnustofur á vegum Aurora, sem standa nemendum til boða, má finna á vef samstarfsnetsins.

Nemendur sem sátu vinnustofu í skapandi skrifum