Skip to main content
28. nóvember 2017

Þýðingasetur gefur út Loftslag eftir Max Frisch

Þýðingasetur Háskóla Íslands hefur gefið út skáldsöguna Loftslag eftir Max Frisch í þýðingu Jóns Bjarna Atlasonar. Bókin er eitt af mikilvægustu verkum svissneska höfundarins Max Frisch og talið merkilegt fyrir frumlega og nýstárlega uppsetningu. Auk þess má finna í sögunni athyglisverða lýsingu á náttúru Íslands eins og hún kom skáldinu fyrir augu þegar það ferðaðist um landið árið 1977.

Á þýsku heitir bókin Maðurinn kemur fram á hólósen og kom fyrst út árið 1979. Sagan segir frá herra Geiser sem innilokaður er í þorpi sínu í Tessín-kantónu í Sviss vegna óveðurs og skriðufalla. Hann reynir í einangrun sinni að smíða sér mynd af heiminum með þeim bókakosti sem hann hefur. Sagan snýst um baráttu hans við tímann og gleymskuna, ekki aðeins hans eigin, heldur einnig skammsýni mannkyns þegar kemur að náttúrunni, höfuðskepnunni sem sigrar alltaf, hvað svo sem mannfólkið telur sig hafa afrekað.

Max Frisch (1911-1991) er eitt þekktasta skáld sem Sviss hefur alið. Hann var arkitekt að mennt, en helgaði sig skrifum eftir að skáldsaga hans Stiller (1954) sló í gegn. Í kjölfarið komu skáldsögurnar Homo Faber (1957), Mein Name sein Gantenbein (1964), auk styttri frásagna, Montauk (1975), Der Mensch erscheint im Holozän (1979) og Blaubart (1982). Homo Faber kom út í íslenskri þýðingu Ástráðs Eysteinssonar og Eysteins Þorvaldssonar árið 1987. Dagbækur Max Frisch eru einnig mikilvægir póstar á ferli hans. Þekktastur á Íslandi og víðar er Frisch fyrir leikrit sín og hafa nokkur þeirra verið þýdd á íslensku og flutt á sviði eða í útvarpi, Biedermann og brennuvargarnir, Andorra, Nú taka þau að syngja og Rip van Winkle. Bjarni Jónsson, Þorvarður Helgason, Bjarni Benediktsson frá Hofteigi og Jökull Jakobsson þýddu þau verk.

Jón Bjarni Atlason, þýðandi bókarinnar, er þýðandi, leiðsögumaður og kennari. Hann lauk BA prófi í þýsku og íslensku frá Háskóla Íslands 1995 og meistaraprófi frá Kielar-háskóla 1999. Jón Bjarni hefur þýtt fjölda texta af og á þýsku, einkum kveðskap, en einnig fræðiefni og prósa.

Kápa ritsins