Skip to main content
21. október 2021

Tæplega 300 taka við prófskírteinum frá HÍ á morgun

Tæplega 300 taka við prófskírteinum frá HÍ á morgun - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands brautskráir kandídata í þriðja sinn á árinu föstudaginn 22. október en alls munu 290 kandídatar taka við brautskráningarskírteinum að þessu sinni. Metfjöldi hefur útskrifast frá skólanum á árinu.

Engin formleg brautskráningarathöfn er á döfinni frekar en verið hefur í október undanfarin ár en brautskráningarkandídötum býðst að sækja prófskírteini sitt í anddyri Háskólabíós þennan dag.

Afhending fer fram á milli kl. 9 og 15 en nánara fyrirkomulag afhendingar er að finna í bréfi sem sent hefur verið til kandídata. 
Við afhendinguna verður gætt að sóttvörnum og grímur og sótthreinsispritt á staðnum fyrir þau sem það vilja.

Að þessu sinni brautskrást 108 kandídatar frá Félagsvísindasviði, 26 frá Heilbrigðisvísindasviði, 64 frá Hugvísindasviði, 49 frá Menntavísindasviði og 43 frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði.

Háskóli Íslands brautskráði samanlagt 3.015 kandídata í febrúar og júní á þessu ári og því er heildarfjöldi þeirra sem ljúka prófi frá skólanum í ár 3.305 sem er met.

Háskóli Íslands óskar kandídötum innilega til hamingju með áfangann og velfarnaðar í framtíðinni.

Frá brautskráningu