Skip to main content
9. nóvember 2023

Tækifæri til geimrannsókna aukast með aðild að Artemis

Tækifæri til geimrannsókna aukast með aðild að Artemis - á vefsíðu Háskóla Íslands

Aukin tækifæri til rannsókna og nýsköpunar sem tengist geimnum skapast hér á landi með samningi sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra undirritaði við Geimferðastofnun Bandaríkjanna (NASA) á dögunum um aðild Íslands að Artemis-samkomulaginu svokallaða. Ýmsar greinar innan HÍ tengjast geimrannsóknum með ólíkum hætti og á Háskólinn í umtalsverðu samstarfi bæði innanlands og utan sem snýr að geimrannsóknum. 

Ísland er þrítugasta ríkið til að undirrita Artemis-samkomulagið en auk NASA og ýmissa ríkja kemur Evrópska geimferðastofnunin (ESA) að samnefndri geimferðaáætlun. Hún felur í sér könnun og hagnýtingu sólkerfisins á ábyrgan hátt, m.a. áform um mannaðar geimkönnunarferðir, m.a. til tunglsins í náinni framtíð og síðar til Mars. 

Fram kemur á vef háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins að með aðild að Artemis-samkomulaginu skuldbinda aðildarþjóðir sig til að deila sín á milli rannsóknarniðurstöðum á sviði geimrannsókna. Aðgangur íslensks vísindafólks að slíkum gögnum og samstarfi um gögn og gagnaöflun geti þannig orðið mikilvæg undirstaða fyrir rannsóknir á ýmsum sviðum háskóla- og vísindasamfélagsins, t.d. þegar kemur að jarðfræði, verkfræði, upplýsingatækni, efnafræði, líffræði, fjarkönnun og fleiri greinum. Innan Háskóla Íslands býr mikil þekking í þessum og fleiri fræðigreinum sem tengjast geimrannsóknum með ýmsum hætti.

Þá er bent á á vef ráðuneytisins að aðild að Artemis-samkomulaginu geti stuðlað að þróun nýrra vísindagreina á borð við stjörnulíffræði hér á landi og þar geti íslenskar umhverfisaðstæður, t.d. jarðhiti, kalt loftslag og sérstakur jarðvegur, nýst vel til rannsókna um uppruna og þróun lífs í víðu samhengi. Ísland og íslensk náttúra hefur um langt skeið verið vettvangur fyrir bæði undirbúning geimfara fyrir geimferðir og prófanir á ýmiss konar farartækjum og tækni sem nýta á í geimnum og þar skapast tækifæri til fyrir íslenska vísindamenn til erlends samstarfs á þessu sviði. 

Frá Hálendi Íslands