Skip to main content
29. nóvember 2023

Sundlaugarnar eru okkar torg og almenningsgarðar 

Sundlaugarnar eru okkar torg og almenningsgarðar  - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Sundlaugarnar eru spennandi staður, þetta eru okkar torg og almenningsgarðar. Það þurfa öll samfélög svona staði þar sem ókunnugir umgangast. Þessi staður er sérstakur því þú ert ekki að gera neitt annað, þetta er hin fullkomna núvitund, síðasti símalausi staðurinn í samfélaginu. Sem eitt mikilvægasta íslenska almannarýmið er þetta áhugavert því þarna erum við öll ýmist berrössuð eða á sundfötum, sem er óvenjulegt miðað við almannarými í öðrum löndum,“ segir Valdimar Tryggvi Hafstein, prófessor í þjóðfræði. Hann og Katrín Snorradóttir þjóðfræðingur voru að senda frá sér bókina Sund sem byggist á yfirgripsmiklum rannsóknum á hinni einstöku sundmenningu Íslendinga sem er yngri en margan grunar.

„Í bókinni birtist ylvolg saga af íslensku nútímasamfélagi í mótun, með léttri klórangan og hveralykt, gufuslæðu og skvampi í einstaklega fallegri og fróðlegri bók um uppáhaldsiðju flestra Íslendinga,“ segir m.a. í kynningartexta bókarinnar um þennan menningarkima sem byggist á legu landsins undir heitum reit, en það eru þeir staðir í heiminum nefndir þar sem eldvirkni er mikil. „Hin hliðin á eldvirkninni, sem við þekkjum svo vel, er jarðhitinn sem eru ótrúleg lífsgæði sem við höfum hérna á Íslandi. Við skrúfum frá krönunum og það kemur heitt vatn úr þeim, við hitum húsin okkar og svo eru það sundlaugarnar sem eru að mínu mati skýrasta birtingarmyndin af almannagæðum á Íslandi,“ segir Valdimar.

Kafað í sögu sundmenningarinnar

Valdimar og Katrín hafa undanfarin tíu ár ásamt fleirum kafað ofan í sögu þessa menningarfyrirbæris sem sundið og sundlaugarnar eru. „Þjóðfræði fæst mjög mikið við það hvernig við urðum eins og við erum og af hverju við gerum eins og við gerum. Bókin segir þessa sögu, af hverju sundlaugarnar eru eins og þær eru og við eins og við erum því þetta er samþætt saga á 20. öldinni og fram á okkar tíma,“ bendir hann á.

sundlaug

Sundlaugin í Borgarnesi. MYND/Gunnhildur Lind

Ásamt Valdimar komu þeir Örn D. Jónsson, fyrrverandi prófessor í nýsköpunarfræðum, og Ólafur Rastrick, prófessor í þjóðfræði, að verkefninu í upphafi ásamt BA- og meistaranemum í þjóðfræði, þar á meðal Katrínu. „Ég hef verið með sund á heilanum síðan ég gerði BA-verkefnið fyrir tíu árum og ég notaði sundið mjög mikið þegar ég var að vinna að verkefnum í meistaranáminu. Þá komst ég að því að það eru nánast óteljandi hliðar á þessari menningu sem hægt er að fjalla um, hvort sem það er fólkið, laugarnar eða ferðamennirnir,“ segir Katrín og bætir við að hugmyndin að því að rannsaka sund í BA-námi sínu hafi einmitt komið þegar hún var í sundi.

Auk Katrínar komu þrír meistaranemar að þessum rannsóknum, þau Sigurlaug Dagsdóttir, Ólafur Ingibergsson og Katrín Dröfn Guðmundsdóttir. „Við vorum öll að rannsaka sund og meðal þess sem við gerðum var að skrifa stóra spurningaskrá sem við sendum út í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands, sem hefur sent slíkar spurningaskrár út í 60 ár, og sundlaugarnar í landinu. Við fengum fleiri hundruð svör frá sundgestum sem lýstu sínu sundi, bæði rútínum, upplifunum, frásögnum og lýsingum. Þetta voru feikilega merkileg gögn og mikið í þeim sem Katrín vann svo mikið úr í meistaraverkefni sínu og sem við vinnum jafnframt úr í bókinni. Þessar raddir sundgesta eru fyrirferðarmiklar í bókinni,“ bendir Valdimar á.

Ungmennafélögin stuðluðu að því að Íslendingar yrðu syndir

Íslenskar fornsögur geyma frásagnir af miklum sundköppum en samt var það svo að frá upphafi Íslandsbyggðar og fram á 20. öld voru afar fáir Íslendingar syndir. Það er ekki fyrr en fyrstu sundlaugarnar eru byggðar í byrjun 20. aldar sem Íslendingar fara að verða syndir og sundmenningin fer að þróast. „Á einhverjum tímapunkti nærri aldamótum 1900 fer fram umræða um að það þurfi að kenna fólki að synda. Þeirri hugmynd  var ekki endilega tekið vel fyrst, það þótti hálfgerð vitleysa að framlengja dauðastríð fólks sem lenti í slysum í sjó og vatnsföllum,“ segir Katrín.

sundlaugar laugardal

Á bakka gömlu lauganna í Laugardal á öðrum áratug 20. aldar. MYND/Magnús Ólafsson/Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Í bókinni er upphaf sundmenningarinnar rakið til svokallaðrar sundvakningar sem á upphaf sitt árið 1884 þegar Sundfélag Reykjavíkur var stofnað. „Þá fóru menn að kenna sund í Laugarnesinu og hún stóð í nokkur ár en féll svo niður og var svo endurvakin. Sundmenningin og sundkennsla náði svo fótfestu eftir 1908 þegar fyrsta steypta laugin var opnuð í Laugardalnum. Á sama tíma voru ungmennafélögin að verða til og þau lögðu mikinn metnað í að efla líkama og sál ásamt mál- og þjóðrækt. Sundiðkun sameinaði þetta og var meðal annars hvatt til hennar með vísan í Íslendingasögurnar þar sem segir af miklum sundköppum eins og Kjartani Ólafssyni og Gretti Ásmundarsyni. Með slíkar fyrirmyndir varð sundið ekki aðeins mikilvæg lífsbjörg, heldur einnig táknrænt fyrir heilbrigða sál í hraustum líkama,“ bendir Katrín á.

„Leiðin til dyggðar liggur í gegnum laugina, eins og þeir sögðu á þessum tíma,“ bætir Valdimar við og bendir á að á þessum tíma hafi nýjar hugmyndir um líkama og hreinlæti einnig komið til landsins sem hafi haft áhrif á sundmenninguna. „Fram til aldamótanna 1900 forðuðust menn að láta vatn koma á allan líkamann í einu og töldu það stórhættulegt enda ósyndir. Það er talið að einn af hverjum 200 Íslendingum hafi verið syndur um aldamótin 1900,“ segir hann.

Akureyrarsundlaug

Akureyrarlaug um 1930. MYND/Jón og Vigfús/Minjasafnið Akureyri

Íslenskt samfélag er á þessum tíma að breytast úr landbúnaðarsamfélagi í sjávarútvegssamfélag og fólk fær í fyrsta sinn frelsi til að setjast að við sjávarsíðuna og getur aflað fjölskyldunni viðurværis með sjóróðrum. „Þetta er flest allt ósynt fólk á opnum bátum og allt of margir drukknuðu í flæðarmálinu að ásjáandi fjölskyldunni. Það var því mikið þjóðþrifamál að kenna þjóðinni að synda og ungmennafélögin byggðu upp sundlaugar um allt land í sjálfboðavinnu, sem eru allt frá því að vera stífla í lækjum og drullupollar yfir í steyptar laugar. En það var mikill metnaður í þessu og það tókst svona vel til,“ segir Valdimar.

Samhliða þessu verða sundlaugarnar að almenningsböðum. „Fólk fer og þrífur sig í laugunum og börn eru send í sund um helgar með strætó til að fara í vikulega baðið sitt. Sundlaugarnar gegna því lykilhlutverki í að hreinsa þjóðarlíkamann á þessum fyrstu áratugum sundmenningarinnar og innleiða ný viðmið um hreinlæti og líkamsmenningu,“ segir Valdimar.

Fyrirmyndin að heita pottinum sótt í Snorralaug

Valdimar bendir enn fremur á að eins og oft vill verða með nýjungar og nýsköpun þá fari fólk að nýta hana í öðrum tilgangi en upphaflega var lagt upp með. „Sundlaugarnar eru byggðar fyrir íþrótt og hreinlæti og slysavarnir en verða svo að samkomustað, leikvelli og það samfélagssvið sem við þekkjum, en það breytist eftir miðja 20. öld með Vesturbæjarlauginni,“ undirstrikar hann.

Vesturbærinn vestan Hringbrautar hafi verið fyrsta úthverfið á Íslandi og meðal þess sem menn vildu byggja var kennslulaug fyrir börnin í hverfinu. Bárði Ísleifssyni hjá húsameistara ríkisins hafi verið falið að hanna laugina og Valdimar segir að hann hafi verið svo útsjónarsamur að bæta við sérstakri barnalaug, sem ekki er hönnuð til sundæfinga. Hann hafi hins vegar fengið Gísla Halldórsson arkitekt til að klára útisvæði laugarinnar. 

„Gísli fór á hverjum einasta degi í gömlu laugarnar í Laugardalnum og hafði þar tekið eftir því að í einni útsturtunni var dýpri botn. Þar söfnuðust fyrir börn og jafnvel fullorðið fólk og lá við fætur þeirra sem voru í sturtu hverju sinni, í nokkurs konar heitum potti. Hann sá að þetta væri sniðugt að útfæra frekar,“ útskýrir Valdimar. 

Gísli brá á það ráð að nýta gamla teikningu frá háskólaárum sínum í Kaupmannahöfn af Snorralaug í Reykholti til að innleiða nýjung á sundlaugarsvæðið. „Þegar hann fékk vesturbæjarverkefnið átti hann þessar teikningar af Snorralaug og ákvað að setja tvær „Snorralaugar“ niður á bakkann og það eru fyrstu heitu pottarnir. Vesturbæjarlaugin opnar 1961 og þetta verður miðja mannlífsins í úthverfinu, barnalaugin, heitu pottarnir og útisvæðið. Snorralaugum var svo bætt við eldri laugar og í nýju Laugardalslauginni, sem var opnuð 1968, voru fjórar „Snorralaugar“ og svo breiðist þetta út verður mikilvægur hluti af sundlaugunum,“ segir Valdimar.

Fyrstu „Snorralaugarnar“ eða heitu pottarnir voru settar niður á útsvæði Vesturbæjarlaugarinnar. MYND/Þórdís Erla Ágústsdóttir

Sundlaugarnar gegna miklu hlutverki við að samþætta samfélagið

Valdimar segir að þótt sundlaugarnar séu einstakar að vissu leyti hafi uppbygging almenningslauga ekki bara verið bundin við Ísland á 20. öld. Svipað hafi verið uppi á teningnum í nágrannalöndum. Í Bandaríkjunum hafi til að mynda verið byggðar upp stórar almenningslaugar á Austurstöndinni og í Suðurríkjunum á fyrri hluta 20. aldar. „Þetta voru stéttlausar sumarútópíur því að einkalaugar voru enn varla til, þannig að fólk af öllum stéttum sótti þær, hvort sem það bjó smátt eða stórt. En þangað fóru þó ekki allir hópar þjóðfélagsins því eins og við þekkjum ríkti enn víða lögbundin mismunun gagnvart svörtum Bandaríkjamönnum. Ríki og sveitarfélög voru nefnilega ekki skikkuð til þess fyrr en um og eftir miðja öldina að afnema aðskilnað kynþátta. Þá fara svartar fjölskyldur að mæta á þessa sundstaði og þá verða kynþáttaóeirðir, hvítir ribbaldar safnast þangað til að hrekja þær burt með ofbeldi. Um leið hrundi aðsóknin að laugunum. Innan örfárra ára var steypt upp í flestar laugarnar,“ bendir Valdimar á.

laugardalslaug

Gestir í Laugardalslaug árið 1957. MYND/Björn Björnsson/Ljósmyndasafn Íslands

Samfara flutningi fólks í úthverfin fari svo einkalaugar að ryðja sér til rúms í húsagörðum og einkasundklúbbar inni í borgum. Hvítir Bandaríkjamenn fara þannig að verja drjúgum fjárhæðum til þess að synda fjarri samborgurum sínum. „Þegar maður speglar sundsöguna í þessum tveimur löndum þá skilur maður enn þá betur hvað þessar sundlaugar hér á landi gegna mikilvægu hlutverki í að samþætta samfélagið. Að maður sé með fólki úr allt öðrum kimum þjóðfélagsins, úr öðrum atvinnugeirum og stéttum og deili þessu með þeim. Heita vatnið tengir okkur saman – í laugunum okkar er samfélag á hægri suðu.“

Breytt menning með baðlónum

Segja má að aukinn straumur ferðamanna til landsins hafi haft ákveðin áhrif á sund- og baðmenningu þjóðarinnar á síðustu árum því vaxandi hópur ferðafólks kemur hingað til þess m.a. að sækja baðlón eins og Bláa lónið. „Baðlónamenningin byrjar með því. Bláa lónið er eitt þekktasta vörumerki Íslands og ímynd landsins út á við. Á þessari öld hafa svo níu lón bæst við nánast um allt land og við fundum sjö lón til viðbótar á teikniborðinu eða í skipulagsferli. Þetta er algjör sprenging,“ segir Valdimar.

Katrín bendir á að ferðamennirnir sæki einnig í laugarnar og eitt af því sem þau hafi skoðað séu ummæli ferðamanna um sundlaugar á vefsíðunni Tripadvisor. „Þar mæltu sumir ferðamenn einmitt með því að heimsækja frekar laugarnar en hin nýbyggðu baðlón. Fyrir fólk sem er kannski að ferðast um landið í húsbíl er ansi fínt að geta fundið „spa“ í hverjum bæ fyrir jafnmikinn pening og það kostar að fara í sturtu á tjaldstæði,“ bendir hún á.

Valdimar undirstrikar að mikill munur sé á sundlaugunum og baðlónunum. Sundlaugarnar séu niðurgreiddir samfélagsinnviðir fyrir íbúa landsins en lónin einkarekin í hagnaðarskyni og höfði fyrst og fremst til ferðamanna. Þó megi sjá ákveðin áhrif frá lónunum í sundlaugunum, t.d. í steinapottinum í Laugardalnum sem var byggður 1986 og vísar beint í Bláa lónið, og svo öðrum heitum pottum á síðustu árum. „Baðlónin verða vinsæl og þau ganga út á lúxus og nautn í heitu vatni og um leið margfaldast nuddstútarnir í pottunum okkar og nautnin í vatninu fer að vera mikilvægari. Þetta talar því hvert við annað,“ segir hann.

Bókin byggist á rannsóknum og sýningu um sundmenningu

Það vefst engum sem handleikur bókina Sund að mikið er lagt í hana, hvort sem horft er til texta eða útlits. Rætur bókarinnar liggja að sögn Katrínar og Valdimars bæði í ofangreindum rannsóknum og afar glæsilegri og vinsælli sýningu um sundmenningu þjóðarinnar sem stóð allt árið 2022 í Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ. Valdimar var sýningarstjóri ásamt Brynhildi Pálsdóttur hönnuði, en sýningin var sú næstfjölsóttasta í sögu Hönnunarsafnsins – aðeins sýningin á fatnaði frú Vigdísar Finnbogadóttur hefur dregið að fleiri gesti. „Katrín skrifaði sýningaskrá fyrir sundsýninguna sem kom í sjálfu sér ekki út en hún varð grunnurinn að bókinni. Við lögðum þetta allt saman, allar rannsóknirnar síðasta áratuginn, sýninguna og sýningarskrána hennar Katrínar, hrærðum svo vel í þessu og tvöfölduðum uppskriftina,“ segir Valdimar um tilurð bókarinnar sem Forlagið gefur út í samstarfi við Hönnunarsafnið.

kapa Sunds

Kápa bókarinnar er afar glæsileg.

Það kemur því kannski ekki á óvart að hönnuðir að sýningunni, þau Brynhildur Pálsdóttir og Ármann Agnarsson, grafískur hönnuður, hanna bókina. „Þemun, tilfinningin og litirnir úr sýningunni halda sér. Hún er alveg ótrúlega falleg og vel lukkuð,“ segir Valdimar um hönnun bókarinnar og vekur athygli á því að á þegar lesandinn handleiki bókina haldi hann á sundlaug.

Fjórir af hverjum fimm Íslendingum fara í sund

Bókin er ríkulega skreytt myndum úr sögu sundsins og samtíma, en myndirnar eru alls um 140. Einn af fyrrverandi nemendum Valdimars og sundrannsakandi, Sigurlaug Dagsdóttir þjóðfræðingur, er myndritstjóri bókarinnar og vann mikla rannsóknarvinnu fyrir hana. Hún kemur einnig frekar að því að breiða út boðskapinn um sérstöðu íslensku sundmenningarinnar því Sigurlaug verkefnisstýrir tilraun íslenskra stjórnvalda til að fá sundmenninguna skráða hjá UNESCO, Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna. 

idkun

Fram kemur í bókinni að 125 sundlaugar sé að finna á landinu, sumar hverjar nokkuð afskekktar, eins og sjá má á kortinu.

Aðspurð hvernig þeim lítist að þessa hugmynd stjórnvalda segir Valdimar að ef Ísland ætli að tilefna eitthvað þá finnist honum að það eigi að vera sundmenningin. Ekkert annað njóti jafnmikillar almannahylli hérna. „Félagsvísindastofnun kannaði þetta fyrir okkur í tengslum við bókina síðastliðinn vetur. 79% Íslendinga á aldrinum 18-103 ára fara í sund, sem er einu prósenti meira en þeir sem hafa aðgang að Netflix,“ segir hann og glottir. Þá segjast 40% fullorðinna Íslendinga fara einu sinni í mánuði eða oftar í sund allt árið. „Þegar þú tekur alla undir 18 ára með þá ertu kominn með meirihluta landsmanna sem er mjög reglulega í sundi. Það er ekkert annað áhugamál, engin tómstund eða íþrótt sem nálgast þetta í vinsældum,” bendir hann á.

Alin upp í sundi í Reykholtsdal

Það er ekki hægt að skilja við Valdimar og Katrínu án þess að spyrja þau um áhuga þeirra sjálfra á sundi. „Katrín er nánast alin jafnmikið upp í sundi og á þurru landi,“ bendir Valdimar á og kímir. Katrín er nefnilega úr Reykholtsdal, heimasveit Snorralaugar, þar sem heitt vatn sprettur upp víða og hagnýting jarðhitans á sér langa sögu. Katrín bendir á að hveri sé að finna á mörgum bæjum og jafnvel sundlaugar, t.d. í garðinum heima hjá henni. „Ég hef því alltaf verið mikið í sundi og finnst jafn gaman að fara í sund og að rannsaka það,“ segir hún og brosir.

Katrín undirstrikar að sundlaugarnar á Íslandi séu mikil almannagæði en það átti sig ekki allir á því. „Það er mikil krafa hjá fólki að komast í sund og hafa greiðan aðgang að laugunum í landinu. Fólk gerir sér kannski ekki grein fyrir því hversu dýrt það er í raun að byggja sundlaugar og reka þær en það kostar svo bara nokkra hundrað kalla ofan í,“ segir Katrín.

En hvað segir Valdimar, skyldi hann vera mikill sundmaður? „Já, ég elska sund. Allt árið en sérstaklega á veturna í myrkri og frosti. Það er ekkert betra en að finna gufuna stíga upp og vera í 40 gráðu heitu vatni upp að öxlum með frosið hárið að hlusta á mjúkan klið samfélagsins í kringum sig,” segir hann og endurspeglar þar tilfinningu sem við mörg þekkjum afar vel, þökk sé laugunum okkar.

Höfundar bókarinnar, Valdimar Tryggvi Hafstein og Katrín Snorradóttir á staðnum þar sem sundmenningin skaut rótum, í Laugardal, en þar var fyrsta steypta laugin opnuð. MYND/Kristinn Ingvarsson