Skip to main content
12. september 2022

Sumarnámskeið á Húsavík

Sumarnámskeið á Húsavík - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í júnímánuði ár hvert stendur Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík fyrir námskeiði á meistarastigi er nefnist “Studying marine mammals in the wild” (Að rannsaka sjávarspendýr úti í náttúrunni). Námskeiðið er hluti af námsframboði Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands. Námskeiðið stendur í 10 daga og hefst á því að nemendur hlusta á fyrirlestra dr. Marianne Rasmussen um vistkerfi og hvali í Skjálfanda og dr. Ole Lindquist um hvalveiðar, í Hvalasafninu á Húsavík. Síðan fá nemendur að kynnast náið “non-invasive” rannsóknaraðferðum, jafnt þeim sem notaðar eru á landi og úti á sjó.

Í námskeiðinu sem haldið var 2022 voru þátttakendur 35. Dr. Marianne Rasmussen fræddi nemendur um neðansjávarhljóðvísindi. Nemendum bauðst að fara út á báti rannsóknasetursins og nota neðansjávar-hljóðnema til að hlusta og taka upp hljóðheim Skjálfandaflóa og blístur- og smellihljóð í hnýðingum.

Doktorsnemarnir Maria Glarou og Helene Costa fræddu nemendur um rannsóknartækni tengda drónum. Helene, sem starfar við Nord Universitet í Noregi, ræddi hvernig hún notar dróna til þess að taka blásturssýni úr hnúfubökum til að rannsaka bakteríur og veirur. Maria, sem starfar við Rannsóknasetrið á Húsavík, sýndi hvernig hún notar drónamyndir til að mæla lengd og ummál hvala til að álykta um líkamsástand þeirra. Nemendur áttu kost á að að læra hvernig dróna er stýrt og hvernig hann aflar upplýsinga á landi.

Doktorsneminn Charlie Lavin, sem einnig starfar við Nord Universitet í Noregi, kenndi nemendum hvernig fylgt er slóð hvalanna, í ferðum þeim sem North Sailing stendur fyrir. Þeir lærðu að nota GPS-tækni, fjarlægðarmælingar og hvernig fundin er út staða og sundslóð hvalsins með hliðsjón af bátnum.

Dr. Charla Basran kenndi nemendum að taka myndir til greiningar og safna gögnum um hegðun hvalanna, í ferðum Gentle Giants Whale Watching. Eftir að gögnunum hafði verið safnað kenndu þau Charlie og Charla nemendum að skipuleggja og bera kennsl á einstök dýr í langtímaskrám rannsóknasetursins, og fóru einnig yfir ýmis verkefni þar sem myndgreining skiptir höfuðmáli, þ.m.t. að greina mynstur í fari hvalanna og skrá atburði í lífi þeirra í gegnum greiningu öra.

Eins og venja er lauk námskeiðinu með því að nemendurnir tóku nokkra daga í að nýta það sem þeir höfðu lært og vinna lítil rannsóknaverkefni, sem þeir síðan héldu kynningu á í Hvalasafninu á Húsavík. Í verkefnunum var m.a. fengist við gerð þrívíddarmynda, tegundadreifingu og hljóðmyndun höfrunga.  

Myndin er af nemendahópi sumarsins i hvalanámskeiðinu