Skip to main content
28. maí 2015

Styrkir til rannsókna á offitu og fæðuofnæmi barna

""

Verkefni sem snýr að börnum sem glíma við offitu og fjölskyldum þeirra og rannsóknarverkefni um fæðuofnæmi hjá íslenskum börnum hlutu styrk úr Verðlaunasjóði Óskars Þórðarsonar læknis í Háskóla Íslands miðvikudaginn 27. maí. Verkefnin  hafa þegar skilað afar áhugaverðum niðurstöðum en heildarupphæð styrkjanna nemur 800.000 krónum.

Þetta er í sjötta skipti sem veittar eru viðurkenningar úr Verðlaunasjóði Óskars Þórðarsonar læknis en sjóðurinn hefur það markmið að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek, rannsóknir, ritgerðir og skylda starfsemi á sviði barnalækninga.

Ragnar Bjarnason, yfirlæknir barnalækninga á Landspítala og prófessor við Læknadeild, og Tryggvi Helgason, sérfræðingur í barnalækningum, hljóta 500 þúsund króna styrk til að vinna að rannsóknarverkefninu „Heilsuskóli Barnaspítalans“. Heilsuskólinn er meðferðarteymi fyrir börn með offitu og fjölskyldur þeirra. Sjónunum er beint að lífsvenjum barnanna og farið yfir hvað betur má fara til að bæta lífsgæði og líðan þeirra. Markmiðið er að þær breytingar sem fjölskyldan gerir á lífi sínu skili sér í að barnið vaxi í lengd hraðar en þyngd. Teymið var stofnað í núverandi mynd árið 2011 og sex fagstéttir koma að því. Frá upphafi  hefur teymishugsun verið kjarninn í starfseminni og náin samvinna hefur verið milli fagstéttanna við að þróa og byggja upp meðferð fyrir þennan skjólstæðingahóp. Nýleg samantekt sýnir að tekist hefur að bæta bæði lífsgæði og þyngdarstöðu þeirra barna sem hafa nýtt sér meðferðina. Stefnt er að stækkun teymisins svo hægt verði að sinna fleiri börnum með offitu, auka rannsóknir á þessu sviði og styðja í auknum mæli við vinnu á þessu sviði sem fram fer á heilsugæslustöðvum vítt og breitt um landið. 

Ragnar Bjarnason hefur einkum stundað rannsóknir á áhrifum vaxtarhormóns, sykursýki barna og unglinga ásamt offitu barna. Hann lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands 1985 og doktorsprófi frá Gautaborgarháskóla 1997. 

Tryggvi Helgason starfar á Barnaspítala Hringsins og á læknastofu í Domus Medica. Hann lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands 1997 og sérmenntaði sig barnalækningum í Hollandi.

Sigurveig Þóra Sigurðardóttir, klínískur dósent við Háskóla Íslands og sérfræðingur í barnalækningum og ofnæmis- og ónæmislækningum, og Michael Clausen, barnalæknir og sérfræðingur í ofnæmissjúkdómum barna, hljóta 300 þúsund króna styrk til verkefnisins „Fæðuofæmi hjá íslenskum börnum“. Á bilinu 1-2% fullorðinna Evrópubúa þjást af fæðuofnæmi. Fæðuofnæmi er hins vegar algengara hjá börnum en það finnst hjá 5-8% þeirra og er áhyggjuefni þegar þau fara í leikskóla og skóla þar sem oft er um alvarlegt ofnæmi að ræða. Sigurveig og Michael hafa tekið þátt í tveimur evrópskum rannsóknaverkefnum sem snúa að fæðuofnæmi hjá börnum:

EuroPrevall-verkefnið, sem hlaut styrk úr 6. rammaáætlun Evrópusambandsins, beindist að  fæðuofnæmi til tveggja og hálfs árs aldurs og hjá skólabörnum. Rannsóknartilgátan var að samspil umhverfisþátta, matarvenja og erfðaþátta verði til þess að fæðuofnæmi myndist. Um 3,3% þeirra íslensku barna, sem tóku þátt í rannsókninni, reyndust fá sannanlegt fæðuofnæmi til tveggja og hálfs árs aldurs og 4,7% skólabarna voru greind af lækni með fæðuofnæmi.

iFAAM er eftirfylgnirannsókn EuroPrevall og hlaut styrk úr 7. rammaáætlun Evrópusambandsins. Þar er börnum sem tóku þátt í EuroPrevall frá fæðingu fylgt eftir við átta ára aldur. Þátttakendur svara spurningalista og er jafnframt boðið að koma í læknisskoðun, ofnæmishúðpróf og blóðprufu. Í iFAAM-rannsókninni er hægt að kanna tengsl mataræðis móður og barns auk annarra áhrifaþátta á fyrstu tveimur árum barnsins við ofnæmissjúkdóma á skólaaldri í þeim tilgangi að finna leiðir til að fyrirbyggja ofnæmi. Rannsókninni lýkur 2017.

Sigurveig Þóra Sigurðardóttir starfar við ónæmisfræðideild Landspítalans. Hún lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands 1983, sérfræðinámi í barnalækningum frá University of Hartford í Connecticut í Bandaríkjunum 1989 og sérfræðinámi í ofnæmis- og ónæmislækningum frá University of Pittsburgh, Children’s Hospital í Pittsburgh í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum 1991. Sigurveig hefur starfað við Landspítalann frá 1991. Hún varði doktorsritgerð við Háskóla Íslands 2009.

Michael Clausen hefur stundað rannsóknir á ofnæmissjúkdómum barna og fullorðinna. Hann lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands 1987 og varð sérfræðingur í barnalækningum 1993 og ofnæmissjúkdómum barna 1997 eftir framhaldsnám í Svíþjóð. Hann vinnur sem sérfræðingur í barnalækningum og  ofnæmissjúkdómum barna á Landspítalanum. 

Um Verðlaunasjóð Óskars Þórðarsonar

Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði Verðlaunasjóð Óskars Þórðarsonar læknis árið 2000 með veglegri peningagjöf til minningar um Óskar, fóstra sinn. Í desember 2007 bætti Bent um betur og lagði til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Eigið fé sjóðsins er um 20 milljónir króna en samtals hefur Bent gefið Háskóla Íslands 60 milljónir króna með stofnun þriggja sjóða sem heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands. Hinir sjóðirnir tveir eru Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala, sem hefur það að markmiði að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek og styrkja rannsóknir og framhaldsnám í lyfjafræði, og Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar, sem ætlað er að styðja við rannsóknir á einelti.

Óskar Þórðarson barnalæknir brautskráðist frá læknadeild Háskóla Íslands árið 1927, lærði fæðingahjálp í Danmörku síðar sama ár og stundaði sérnám í barnalækningum í Austurríki og Þýskalandi á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Hann stofnaði læknastofu í Reykjavík árið 1930 og rak hana til dauðadags árið 1958. Samhliða var Óskar skólalæknir Austurbæjarskóla og Laugarnesskóla, læknir barnaheimilisins Sumargjafar og eftirlitslæknir við barnaheimili Reykjavíkur. Óskar kvæntist Guðrúnu Sveinsdóttur frá Hrauni á Skaga, móður Bents, árið 1928.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 

Michael Clausen, Sigurveig Þóra Sigurðardóttir og Tryggvi Helgason.
Styrkþegarnir ásamt Ásgeiri Haraldssyni, prófessor í barnalækningum, Guðrúnu Scheving Thorsteinsson, dóttur Bents og Margaretar Scheving Thorsteinssonar, stofnenda sjóðsins, Margaret Scheving Thorsteinsson og Magnúsi Karli Magnússyni, forseta Læknadeildar Háskóla Íslands.
Michael Clausen, Sigurveig Þóra Sigurðardóttir og Tryggvi Helgason.
Styrkþegarnir ásamt Ásgeiri Haraldssyni, prófessor í barnalækningum, Guðrúnu Scheving Thorsteinsson, dóttur Bents og Margaretar Scheving Thorsteinssonar, stofnenda sjóðsins, Margaret Scheving Thorsteinsson og Magnúsi Karli Magnússyni, forseta Læknadeildar Háskóla Íslands.