Skip to main content
23. nóvember 2022

Styrkir til náms og rannsókna í Japan og á Íslandi

Styrkir til náms og rannsókna í Japan og á Íslandi  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Auglýst er eftir umsóknum um styrki úr Watanabe-styrktarsjóðnum við Háskóla Íslands. Umsóknarfrestur er til og með 16. janúar 2023. 
 
Tilgangur Watanabe sjóðsins er að styrkja fræðileg tengsl Íslands og Japans. Watanabe sjóðurinn styrkir stúdenta og starfsmenn Háskóla Íslands til náms og starfa í Japan og það sama gildir um stúdenta og vísindamenn við japanska háskóla, sem eiga þess kost að fá styrk til dvalar við Háskóla Íslands. 
 
Annars vegar er um að ræða styrki til námsdvalar fyrir nemendur á grunn- og framhaldsstigi við Háskóla Íslands eða japanska háskóla og hins vegar ferða- og dvalarstyrki til nýdoktora, kennara og fræðimanna milli háskóla í Japan og Háskóla Íslands. Nemendur og akademískir starfsmenn af öllum fræðasviðum geta sótt um styrkina. 
 
Veittir eru ferða- og dvalarstyrkir til allt að níu mánaða námsdvalar. Dvalarstyrkur nemur allt að 200.000 kr. á mánuði vegna dvalar á Íslandi og allt að 150.000 JPY á mánuði vegna dvalar í Japan. Styrkþegar sem dvelja lengur en einn mánuð geta einnig sótt um allt að 200.000 kr. í ferðastyrk. Sjóðurinn veitir ekki styrk fyrir skólagjöldum eða öðrum kostnaði. Nýdoktorar, kennarar og fræðimenn geta einnig sótt um allt að 500.000 kr. styrk til styttri dvalar, allt að einum mánuði, sem tengist fræðistörfum eða rannsóknasamstarfi milli Háskóla Íslands og mennta- eða fræðastofnana í Japan. 
 
Stjórn Watanabe sjóðsins metur umsóknir og velur styrkhafa. Stjórnin áskilur sér rétt að hafna styrkumsókn. 
 
Nánari upplýsingar og umsóknareyðublað má finna á vefsíðu Háskóla Íslands 

Útfyllt umsóknareyðublað ásamt fylgiskjölum skal sent á netfangið watanabe@hi.is fyrir miðnætti að kvöldi 16. janúar 2023. 
 
Fyrirspurnum um Watanabe styrktarsjóðinn og umsóknarferli skal beint á netfangið watanabe@hi.is, eða í síma 525-4311.
 
 

""