Skip to main content
18. október 2022

Stofnun Leifs Eiríkssonar auglýsir veglega námsstyrki

Stofnun Leifs Eiríkssonar auglýsir veglega námsstyrki - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nemendum Háskóla Íslands býðst að sækja um styrki til framhaldsnáms og rannsókna í Bandaríkjunum fyrir skólaárið 2023-2024 hjá Stofnun Leifs Eiríkssonar (Leifur Eiriksson Foundation). Stofnunin veitir allt að 25.000 dollara styrki árlega, jafnvirði um 3,5 milljóna króna, en þetta eru með hæstu styrkjum sem íslenskum nemendum bjóðast til framhaldsnáms í Bandaríkjunum. Sjóðurinn veitti nýverið fimm fyrrverandi og núverandi nemendum HÍ styrk til náms í Bandaríkjunum fyrir yfirstandandi skólaár.

Leifur Eiriksson Foundation var stofnaður árið 2001 til að minnast þess að þúsund ár voru liðin frá siglingu Leifs Eiríkssonar til Norður-Ameríku. Tilgangur sjóðsins er að styrkja samstarf milli íslenskra og bandarískra háskóla með því að veita íslenskum stúdentum styrk til að stunda framhaldsnám í Bandaríkjunum og bandarískum stúdentum styrk til að stunda framhaldsnám á Íslandi. Sjóðurinn er tengdur University of Virginia en styrkþegar frá Íslandi geta stundað nám við hvaða bandaríska háskóla sem er og nám á öllum fagsviðum er styrkhæft. 

Reiknað er með að 10 styrkjum verði úthlutað úr Leifur Eiriksson sjóðnum fyrir skólaárið 2023-2024. Umsóknareyðublað vegna styrkja er að finna á www.leifureirikssonfoundation.org.

Umsóknarfrestur er til 18. nóvember 2022 fyrir skólaárið sem hefst haustið 2023.

Ellefu fengu styrk í ár

Stofnun Leifs Eiríkssonar veitti í ár 11 íslenskum og bandarískum háskólanemum námsstyrki vegna skólaársins 2022-2023. Íslensku nemendurnir að þessu sinni stunda nám í eðlisfræði, barnasálfræði, tónlistar- og leikhúsfræðum, opinberri stjórnsýslu, tölvunarfræði og gervigreind. Bandarísku styrkþegarnir stunda nám á Íslandi á sviðum umhverfis- og auðlindafræði, mannfræði, norðurslóðafræði, stjórnmálafræði og norrænna fræða.
  
Íslensku nemendurnir sem hlutu styrk eru:

Áshildur Friðriksdóttir til meistaranáms í hagnýtri eðlisfræði og efnisfræði við Stanford-háskóla í Kaliforníu. Áshildur lauk BS-námi í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands. 

Einar Aðalsteinsson til meistaranáms (MFA) í tónlistar- og leikhúsfræðum við New York University. Einar lauk BA-gráðu í leiklist frá The London Academy of Music and Dramatic Art.
 
Esther Hallsdóttir til meistaranáms í opinberri stjórnsýslu við Harvard-háskóla í Boston. Esther lauk BA-gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands. 

Helgi Sigtryggsson til meistaranáms við Carnegie Mellon háskólann í Pittsburgh á sviði tölvunarfræði og gervigreindar. Helgi lauk BS-gráðu í stærðfræði og tölvunarfræði frá Háskóla Íslands. 

Ísak Rúnarsson til meistaranáms í opinberri stjórnsýslu (MPA) við Harvard-háskóla í Boston. Ísak lauk BA-námi í hagfræði frá Háskóla Íslands. 

Orri Smárason til náms í barnasálfræði við Baylor College of Medicine í Houston, Texas, en námsdvölin er hluti af doktorsnámi hans við Háskóla Íslands. Rannsóknir Orra beinast að börnum og ungmennum með áráttu-þráhyggjuröskun (OCD).

islenskir styrkthegar

Íslensku styrkþegarnir sex í ár, en fimm þeirra hafa stundað nám við HÍ.

Bandarísku nemendurnir sem hlutu styrk til að stunda nám og rannsóknir á Íslandi eru: 

Caroline Weiss til meistaranáms í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands með áherslu á orkustefnu, endurnýjanlega orkugjafa og sjálfbæra auðlindastjórnun. 

Cody Skahan til meistaranáms í mannfræði við Háskóla Íslands á sviði hinseginfræða. 

Franklin Harris til meistaranáms í umhverfisbreytingum á norðurslóðum við Landbúnaðarháskóla Íslands. 

Jonathan Wood til doktorsnáms í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands á sviði sagnfræði og stjórnun efnahagsráðs norðurslóða. 

Timothy Waters til doktorsnáms í norrænum fræðum við University of California í Berkeley, en hluti námsins fer fram við Árnastofnun. 

Stjórn stofnunarinnar er skipuð Kristínu Ingólfsdóttur, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands sem er formaður, Kristrúnu Heimisdóttur, lögfræðingi og lektor við Háskólann á Bifröst, John Casteen III, fyrrverandi rektor University of Virginia, Susan Harris, lögfræðingi við University of Virginia, og Nancy Marie Brown rithöfundi. 

 

Stytta af Leifi Eiríkssyni