Skip to main content
18. ágúst 2023

Stelpur diffra í þriðja sinn

Stelpur diffra í þriðja sinn - á vefsíðu Háskóla Íslands

18 stelpur og stálp á aldrinum 16-18 ára sóttu stærðfræðibúðirnar Stelpur diffra í síðustu viku en þær fóru nú fram í þriðja sinn í Háskóla Íslands. Umsjón með búðunum hefur stærðfræðineminn Nanna Kristjánsdóttir í samstarfi við Önnu Helgu Jónsdóttur, dósent í tölfræði, og Bjarnheiði Kristinsdóttur, lektor í stærðfræði og stærðfræðimenntun.Tilgangur búðanna er að gefa stelpum og stálpum, sem hafa mikinn áhuga á stærðfræði, tækifæri til þess að tileinka tíma til þess og skoða betur samhliða sjálfstyrkingu. Um leið er ætlunin að fjölga stelpum og stálpum sem leggja fyrir sig stærðfræði og tengdar greinar

Í búðunum er kafað ofan í ýmsar undirgreinar stærðfræðinnar og að þessu sinni var boðið upp á sjö mismunandi smiðjur sem snertu m.a. rúmfræði, talnafræði, tölfræði, algebru, dulkóðun og gagnalæsi. Þátttakendur fengu bæði fyrirlestra og spreyttu sig á fjölbreyttum þrautum og verkefnum tengdum stærðfræðinni en kynntu sér jafnframt frægar stærðfræðikonur og Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna. Þá heimsótti hópurinn Miðstöð í lýðheilsuvísindum við HÍ, þar sem starfið grundvallast m.a. á tölfræði, og horfði saman á verðlaunamyndina Imitation Game sem fjallar um stærðfræðinginn og dulkóðunarsérfræðinginn Alan Turing.

Enn fremur komu stærðfræðimenntaðar konur, sem starfa á ýmsum stöðum í samfélaginu, að kennslu og kynningunum í búðunum en markmiðið með því var m.a. að varpa ljósi á það hversu víða stærðfræðin kemur við sögu í samfélaginu og undirstrika óvæntar og skemmtilegar hliðar stærðfræðinnar og samspil stærðfræði og lista.

„Við leggjum mikið upp úr samvinnu og samtali í búðunum þannig að þátttakendur leysi þrautir og verkefni í sameiningu. Hér keppast þátttakendur ekki um að klára dæmi sem fyrst eða læra hluti eins og fyrir próf, sem gleymast svo oft, heldur að læra til að læra og skilja til hlítar. Við sjáum það á ummælum þátttakenda eftir búðirnar að þau eru mjög ánægð og segja þær miklu skemmtilegri en þau áttu von á,“ segir Nanna og vísar í ummæli úr könnun meðal þáttakenda: „Kennslan var öðruvísi en ég er vön miðað við hvernig kennt er í skólum. Mér finnst að ef það væri kennt svona í skólum væri það miklu betra umhverfi til að vera betri í náminu sínu og að hafa meiri áhuga á því sem maður er að læra.“ Þá er það til marks um ánægjuna að nokkrir þátttakendur í ár voru að koma í búðirnar í annað sinn.

Stelpur og stálp að diffra í stelpur diffra