Starfsreynsla metin til styttingar á námi í leikskólakennarafræðum | Háskóli Íslands Skip to main content
3. júní 2021

Starfsreynsla metin til styttingar á námi í leikskólakennarafræðum

Starfsreynsla metin til styttingar á námi í leikskólakennarafræðum  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Mikil gróska hefur verið í leikskólakennaranámi við Háskóla Íslands síðustu ár. Veruleg fjölgun hefur orðið í náminu eftir að hvatningaraðgerðir stjórnvalda til að fjölga kennurum komu til sögunnar og stunda nú tæplega fimm hundruð nemendur leikskólakennarafræði. Síðasta haust hófst fagháskólanám í greininni á Suðurnesjum og Suðurlandi, í nánu samstarfi við Keili og sveitarfélögin á svæðinu. Námið hentar einkum þeim sem hafa starfað sem leiðbeinendur í leikskólum og hyggjast bæta við hæfni sína eða hefja leikskólakennaranám.  

Auk þess hefur í vetur starfshópur á vegum Menntavísindasviðs og kennslusviðs Háskólans undirbúið innleiðingu raunfærnimats í leikskólakennaranámi. Stefnt er að því að verkefnið hefjist á næsta skólaári en um er að ræða fyrstu námsleiðina innan skólans sem tekur upp raunfærnimat. 

Núverandi nemendum boðið í raunfærnimat 

Að sögn Ínu Daggar Eyþórsdóttur, verkefnisstjóra á kennslusviði, fer þróunarverkefni formlega af stað í haust þegar innrituðum nemendum í leikskólakennarafræði, sem uppfylla ákveðin skilyrði, verður boðið að gangast undir raunfærnimat í einstökum fögum. „Leikskólakennarafræðin varð fyrir valinu þar sem námið býður upp á góða möguleika til raunfærnimats, mikil þörf er á að mennta fleiri leikskólakennara og margir sem starfa við fagið hafa reynslu en skortir menntun. Aðeins er um raunfærnimat til styttingar náms að ræða, ekki til inngöngu. Háskólastigið er ekki rétta skólastigið til að votta þekkingu á framhaldsskólastiginu og veita framhaldsskólaeiningar. Umsækjendur sem standast raunfærnimat fá skráðar ECTS einingar til styttingar á náminu,” lýsir Ína. 

Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir, umsjónamaður námsleiðar í leikskólafræðum, telur að vinnan við undirbúning og innleiðingu raunfærnimatsins sé mikilvægt tækifæri til að rýna í og skoða þau hæfniviðmið sem liggi náminu til grundvallar. „Þannig eflum við námið um leið, skoðum þær kröfur sem gerðar eru til nemenda. Þetta er þróunarverkefni sem Háskólinn stýrir en í stýrihópi sitja einnig fulltrúar frá Kennarasambandi Íslands og sérfræðingar frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem eu okkur innan handar og hafa mikla reynslu af framkvæmd raunfærnimats á framhaldsskólastigi.” 

Réttlætismál fyrir stóra kvennastétt 

Þrátt fyrir góðan árangur og margþátta aðgerðir til eflingar leikskólastiginu þá er staðan ennþá sú að menntaðir kennarar telja einungis um þriðjung alls starfsfólks leikskóla hér á landi. Vonast er til að með raunfærnimatinu takist að fjölga menntuðum leikskólakennurum.  

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, segir að meirihluti leikskólakennaranema búi yfir töluverðri reynslu af skipulagi og kennslu í leikskólum. Hún bendir á að lögð sé áhersla á náið samráð við vettvang og samtal um þróun náms í leikskólakennarafræði. „Eitt af því sem kemur skýrt fram frá vettvangnum er mikilvægi þess að styðja við fólk með áralanga starfsreynslu úr leikskólum til að það fái að njóta reynslu sinnar þegar kemur að háskólanámi. Nemendur okkar búa margir yfir mikilli starfsreynslu og jafnvel stjórnunarreynslu. Þetta er jafnframt brýnt jafnréttismál að mínu mati, að stór kvennastétt fái tækifæri til að sýna fram á reynslu sína og þekkingu, eins og alkunna er í karllægari greinum.“  

Enginn afsláttur gefinn af náminu

Raunfærnimat á einstaka námsleiðum er umdeilt innan háskólasamfélagsins enda þótt rökin séu góð. „Helstu gagnrýnisraddir halda því fram að um sé að ræða gjaldfellingu á náminu eða einhvers konar lélegra nám. Það er alls ekki raunin. Umsækjendur sem fara í gegnum raunfærnimat þurfa að uppfylla sömu hæfniviðmið námskeiða eins og þeir sem sitja námskeiðin og taka skrifleg próf. Munurinn er eingöngu sá að þeir sem fara í gegnum raunfærnimat hafa öðlast þekkingu sína og færni utan hefðbundins skólakerfis,“ segir Ína að endingu.  

Mikil gróska hefur verið í leikskólakennaranámi við Háskóla Íslands síðustu ár. Veruleg fjölgun hefur orðið í náminu eftir að hvatningaraðgerðir stjórnvalda til að fjölga kennurum komu til sögunnar og stunda nú tæplega fimm hundruð nemendur leikskólakennarafræði. Auk þess hefur í vetur starfshópur á vegum Menntavísindasviðs og kennslusviðs Háskólans undirbúið innleiðingu raunfærnimats í leikskólakennaranámi. Stefnt er að því að verkefnið hefjist á næsta skólaári en um er að ræða fyrstu námsleiðina innan skó