Skip to main content
26. maí 2023

Samfélagið innan EVE Online til umræðu á fundi CCP og Viðskiptafræðideildar

Samfélagið innan EVE Online til umræðu á fundi CCP og Viðskiptafræðideildar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hlutverk spilara í samfélögum tölvuleiksins EVE Online og endurgjöf þeirra til CCP Games er gríðarlega mikilvægt tól í starfsemi fyrirtækisins og er ein af aðalástæðum þess að leikurinn er eins vinsæll og raun ber vitni. Þetta var meðal þess sem fram kom á viðburði sem CCP og Viðskiptafræðideild stóðu fyrir í vikunni í tilefni Iceland Innovation Week.

Nýsköpun er stór hluti af stefnu Háskóla Íslands og áhersla er á að skapa öflugt umhverfi nýsköpunar og samstarfs við fyrirtæki og stofnanir innan skólans. Fjölbreytt nám í nýsköpun og frumkvöðlafræðum er í boði og má þar til dæmis nefna meistaranám í nýsköpun og viðskiptaþróun sem kennt er innan Viðskiptafræðideildar.

Deildin hefur enn fremur lagt áherslu á gott samstarf við fyrirtæki, m.a. til þess að skapa nemendum tækifæri til starfsnáms, og meðal samstarfsaðila er tölvuleikjafyrirtæki CCP Games sem er með höfuðstöðvar sínar í Grósku í Vatnsmýrinni. Í vikunni stóðu CCP og Viðskiptafræðideild fyrir viðurði undir yfirskriftinni „How to build an innovation community“ en hann var liður í árlegri hátíð nýsköpunar í Reykjavík, Iceland Innovation Week.

Á viðurðinum kynnti Ana Orelj, doktorsnemi við Viðskiptafræðideild, rannsókn sína en þar skoðar hún samfélagið í kringum tölvuleikinn EVE Online og þau áhrif sem spilarar leiksins hafa á hann og nýtingu samfélags spilara í nýsköpun fyrirtækja. Hlutverk spilara í samfélögunum og endurgjöf þeirra til fyrirtækisins er gríðarlega mikilvægt tól í starfsemi CCP Games og skýrir það að stórum hluta vinsældir leiksins í gegnum árin. Leikurinn fagnaði nýverið tuttugu ára afmæli sínu og var meðal annars farið yfir það hvernig leikmenn vaxa innan leiksins og auka framlag sitt til hans yfir tíma. Einnig kom Ana inn á það hversu gríðarlega verðmætt það er fyrir leikmenn að vera hluti af samfélaginu sem blómstrar í kringum leikinn en þar hafa spilarar eignast vini, maka og jafnvel hlotið starfstækifæri.

Eftir að Ana hafði kynnt rannsókn sína fluttu Magnús Þór Torfason, dósent við Viðskiptafræðideild og umsjónarmaður meistaranáms í nýsköpun og viðskiptaþróun, og Bergur Theódórsson, starfsmaður í þróun samfélaga hjá CCP, stutt erindi. Í kjölfarið fóru fram líflegar pallborðsumræður um EVE Online, samfélagið í kringum það og það hvaða ráð þríeykið hefði fyrir uppbyggingu slíkra samfélaga. Þar voru skilaboðin skýr, mikilvægt væri að hugsunin um samfélög væri hluti af ferlinu frá upphafi og að vanda þyrfti til verka þar en að ávinningurinn af slíku starfi geti verið gríðarlegur. 

Myndir Kristins Ingvarssonar frá viðburðinum má sjá hér að neðan.

Ana Orelj, doktorsnemi við Viðskiptafræðideild, kynnir rannsókn sína
Gestir á viðburðinum.
Gestir á viðburðinum.
Ana Orelj, doktorsnemi við Viðskiptafræðideild, kynnir rannsókn sína
Gestir á viðburðinum.
Gestir á viðburðinum.