Skip to main content
24. október 2022

Rýnt í rétt fólks til húsnæðis

Rýnt í rétt fólks til húsnæðis - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þau sem fylgst hafa með fjölmiðlum undanfarin ár hafa vart farið varhluta af fréttum af húsnæðisskorti og háu húsnæðisverði og leigu hér á landi. Ýmsir þættir hafa verið taldir til sem skýra þessa stöðu, þar á meðal ónóg húsnæðisuppbygging, hröð fjölgun íbúa landsins og ásókn ferðamanna í gistingu með tilheyrandi uppkaupum fyrirtækja og fjársterkra aðila á íbúðahúsnæði. 

Stjórnvöld hafa hins vegar tekið á sig tilteknar alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar sem m.a. snúa að rétti til viðeigandi lífsskilyrða, þar á meðal til húsnæðis, og það eru þessar skuldbindingar sem eru rannsóknaviðfangsefni Kára Hólmars Ragnarssonar, lektors við Lagadeild Háskóla Íslands. 

„Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvort sjónarhorn mannréttinda, einkum réttarins til húsnæðis, sem nýtur verndar í alþjóðasamningum sem Ísland hefur fullgilt, skilar sér í nýrri nálgun á húsnæðisstefnu hér á landi og umgjörð húsnæðismarkaðarins sérstaklega,“ segir Kári um rannsóknina sem hann kynnir á félagsvísindaráðstefnunni Þjóðarspeglinum þann 28. október í Háskóla Íslands.  

Nær ekkert fjallað um réttinn til húsnæðis

Það eru einmitt þeir erfiðleikar sem blasa við mörgum á húsnæðismarkaði sem urðu kveikjan að þessari rannsókn en að sögn Kára hefur illa gengið að láta markaðinn sinna því samfélagslaga hlutverki að tryggja fólki öruggt húsnæði. 

Þá bendir Kári á að nær ekkert hafi verið fjallað um réttinn til húsnæðis hér á landi. „Rannsóknin felst í því að beita viðmiðum úr alþjóðlega mannréttindakerfinu, einkum varðandi réttinn til húsnæðis, svo og reynslu frá dómstólum í ýmsum löndum, á íslenskar aðstæður og leggja mat á lagaumgjörð húsnæðismarkaðarins og húsnæðisstefnu íslenskra stjórnvalda út frá mælikvörðum mannréttinda. Nánar tiltekið að kortleggja alþjóðleg viðmið, svo og kenningar fremsta fræðafólks, og draga fram hver séu helstu áhrif þess að taka alvarlega skuldbindingar ríkisins til þess að innleiða réttinn til húsnæðis,“ segir Kári sem notið hefur aðstoðar frá Diljár Bjartar Stefánsdóttur, meistaranema í lögfræði, við rannsóknir á lagaumhverfinu. 

„Í viðhorfum til húsnæðismarkaðarins hefur stundum tapast það grundvallaratriði að húsnæði er fyrst og fremst heimili. Hugmyndir um húsnæði sem fjárfestingu, og þróun tengd þeirri hugmynd þar sem fagfjárfestar og fjármagnsvæðing hefur verið allsráðandi, hafa verið mjög áberandi,“ segi Kári.

Hugmyndir um húsnæði sem fjárfestingu eða verslunarvöru allsráðandi

Að sögn Kára er rannsókninni ekki lokið en hann bendir hins vegar á að þegar hafi komið í ljós að hugmyndir um húsnæði sem mannréttindi hafi fengið lítið vægi hér á landi. „Sé rétturinn til húsnæðis tekinn alvarlega má hins vegar leiða fram ýmsar skyldur sem íslenska ríkið hefur sinnt misvel. Í alþjóðlega mannréttindakerfinu er t.d. lögð áhersla á það grunnatriði að nauðungarsala og útburðargerð verði ekki til þess að gerðarþoli endi heimilislaus. Jafnvel þessar lágmarksskyldur eru ekki vel formfestar hér á landi,“ segir Kári sem mun kynna frumniðurstöður rannsóknarinnar á málstofunni „Ójöfnuður og félagsleg lagskipting“ á Þjóðarspeglinum.

Kári vekur enn fremur athygli á því að út frá sjónarhóli mannréttinda mæli ýmislegt með því útfæra ýmsa þætti á húsnæðismarkaði með öðrum hætti en nú er gert, svo sem umgjörð markaðarins, þátttöku fagfjárfesta og fjármögnunarmöguleika. „Í viðhorfum til húsnæðismarkaðarins hefur stundum tapast það grundvallaratriði að húsnæði er fyrst og fremst heimili. Hugmyndir um húsnæði sem fjárfestingu, og þróun tengd þeirri hugmynd þar sem fagfjárfestar og fjármagnsvæðing hefur verið allsráðandi, hafa verið mjög áberandi. Einu mannréttindin sem hafa komið til skoðunar á þessum markaði eru eignarréttindi, sem eru eðli málsins oftast eignarréttindi í þágu fjármagnseigenda. Mannréttindasjónarhorn sem tekur öll mannréttindi alvarlega felur því í sér töluverða breytingu á grundvallaratriðum,“ segi Kári.

Aðspurður segir Kári að í rannsókninni sé ekki ætlunin að svo stöddu að leggja fram tillögur til aðgerða „heldur fremur áherslubreytingu sem getur skilað nýjum tækifærum í breytingum á lögum og stefnumótun.“ 

Hægt er kynna sér fleiri erindi í málstofunni og heildardagskrá Þjóðarspegilsins á vef ráðstefnunnar.

Kári Hólmar Ragnarsson