Skip to main content
19. maí 2022

Ritstýrir bók um arfleifð og áhrif þjóðsagnasafns Grimms-bræðra

Ritstýrir bók um arfleifð og áhrif þjóðsagnasafns Grimms-bræðra - á vefsíðu Háskóla Íslands

Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands, er ritstjóri bókarinnar Grimm Ripples: The Legacy of the Grimms’ Deutsche Sagen in Northern Europe sem kom nýverið út á hjá alþjóðlega útgefandanum Brill. Bókin er afrakstur fimm ára alþjóðlegs rannsóknasamstarfs á sviði þjóðfræði.

„Bókin varpar nýju ljósi á menningarleg áhrif Deutsche Sagen, safns þýskra þjóðsagna sem Grimm-bræður gáfu út í tveimur bindum 1816 og 1818 og hafa fengið mun minni athygli en Grimms-ævintýrin sem hvert mannsbarn ætti að þekkja og komu fyrst út 1812. Í bókinni er líka fjallað um upphaf þjóðfræða sem fræðigreinar á Norðurlöndum og ekki síst hlutverk söfnunar þjóðfræða í sköpun þjóðmenningar í Norður-Evrópu,“ segir Terry. 

Útgáfa Deutsche Sagen fyrir rúmum tveimur öldum ýtti af stað flóðbylgju söfnunar þjóðfræða í Norður-Evrópu, allt frá Írlandi til Eistlands, þar sem áherslan var fyrst á fremst á þjóðsagnir frekar en ævintýri. „Í bókinni skoðum við m.a. viðhorf safnaranna og annnarra til efnsins sem var safnað og tilgang þess en það endurspeglast í inngöngum bókanna, bréfum og ritdómum. Við einblínum á söfnun og birtingu efnisins og menningarleg áhrif bókanna á myndlist, leiklist og fleira frekar en sögurnar sjálfar í bókunum,“ útskýrir Terry.

Terry hefur rannsakað íslenska þjóðsiði og þjóðtrú í yfir 40 ár og m.a. rýnt í frægasta þjóðsagnasafn Íslendinga, Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri eftir Jón Árnason sem kom út 1862 til 1864. Hann segir kveikjuna að alþjóðlega rannsóknarverkefninu, sem ber heitið Grimm Ripples, tengjast áhuga hans á þjóðsögum og þjóðtrú. „Ekki síst alþjóðlegum tengslum söfnunar þjóðsagna á 19. öld við sköpun þjóðmenningar á Norðurlöndum,“ segir Terry sem hefur skrifað nokkrar greinar um upphaf söfnunar þjóðfræða á Íslandi og á Norðurlöndum.

Árið 2016 voru 200 ár frá því að Grimm-bræður gáfu út fyrsta bindi af Deutsche Sagen og það ýtti að sögn Terry af stað rannsóknasamstarfi stórs hóps þjóðfræðinga beggja vegna Atlantshafs sem allir eiga grein í bókinni. Fræðimannahópurinn starfar við háskóla í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Hollandi, Noregi, Skotlandi, Eistlandi og Finnlandi en auk Terrys kemur Rósa Þorsteinsdóttir, rannsóknalektor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, að efni bókarinnar hér á landi.

Bókin er nærri 600 síður og hægt er að kynna sér hana nánar og kaupa hana á vef Brill.

Terry Gunnell og kápa bókarinnar