Skip to main content
12. maí 2015

Rektor keypti fyrsta Mæðrablómið

""

Fulltrúar Menntunarsjóðs Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur heimsóttu Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands, á dögunum og seldu henni fyrsta Mæðrablómið í ár. Sjóðurinn styrkir tekjulágar konur og mæður til náms, þar á meðal við Háskóla Íslands.

Undanfarin fjögur ár hefur Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur selt Mæðrablómið og helst salan jafnan í hendur við mæðradaginn. Hann var nú um helgina og í aðdraganda hans heimsótti hópur kvenna frá Mæðrastyrksnefnd Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands, og afhenti henni fyrsta „blómið“ sem að þessu sinni er glæsileg lyklakippa sem hönnuð er og framleidd á vegum fyrirtækisins Tulipop.

Allur ágóði af sölunni rennur í Menntunarsjóð Mæðrastyrksnefndarinnar. Sjóðurinn hefur frá stofnun 2012 styrkt 52 efnalitlar konur til náms, m.a. við Háskóla Íslands, en þegar hafa nokkrar konur brautskráðst frá skólanum með stuðningi sjóðsins. Stuðningurinn felst í greiðslu skrásetningargjalds við skólann ásamt 30 þúsund króna bókastyrk. 

Mæðrablómslyklakippan kostar 2.500 kr. og fæst í eftirtöldum verslunum: Epal (Skeifunni, Kringlunni og Hörpu), Hrím Hönnunarhúsi (Laugavegi) og Hrím Eldhúsi, Hagkaupum í Garðabæ, Heimkaupum, Pennanum Eymundsson (um land allt), N1 (um land allt), Designed in Iceland, Lyfju (Lágmúla, Smáratorgi og Smáralind), Apótekinu (Garðatorgi, Spöng, Setbergi) og Thorvaldsenbasar.

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, tekur við fyrsta Mæðrablóminu úr hendi fulltrúa Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur og hönnuða blómsins hjá Tulipop.
Mæðrablómið er glæsileg lyklakippa sem hönnuð er og framleidd á vegum fyrirtækisins Tulipop.
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, tekur við fyrsta Mæðrablóminu úr hendi fulltrúa Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur og hönnuða blómsins hjá Tulipop.
Mæðrablómið er glæsileg lyklakippa sem hönnuð er og framleidd á vegum fyrirtækisins Tulipop.