Skip to main content
10. nóvember 2022

Rannsóknir á fjöldamótmælum á Hringbraut 

Rannsóknir á fjöldamótmælum á Hringbraut  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vandamál og tækifæri ungmenna á Íslandi, búsáhaldabyltingin og kynferðisleg áreitni og ofbeldi í íþróttum var til umfjöllunar í þriðja þætti raðarinnar Vísindin og við á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í vikunni. Þá tóku umsjónarmenn hús á Jóni Gunnari Bernburg, prófessor í félagsfræði í Háskóla Íslands, og samstarfsfólki hans.

Jón Gunnar hefur leitað fanga víða í rannsóknum sínum og þær snerta fjölmörg svið félagsfræðinnar.  Í doktorsverkefni sínu við State University of New York í Bandaríkjunum skoðað hann áhrif afbrotastimplunar á lífshlaupið, en rannsóknin var ein sú fyrsta sem veitti verulegan stuðning við hina svokölluðu stimplunarkenningu um þróun afbrotaferils. Hér á landi hefur hann m.a. gert fjölmargar rannsóknir á vandamálum ungmenna á Íslandi, þar á meðal hvernig hverfasamfélagið mótar vandamál í lífi unglinga burtséð frá þeirra eigin heimilisaðstæðum.

Síðustu ár hefur Jón Gunnar beint sjónum sínum að fjöldamótmælum á Íslandi og þátttöku almennings í þeim en þar hefur hann rýnt ítarlega í búsáhaldabyltinguna 2008-2009 og mótmælin í apríl 2016 í kjölfar Panama-skjalalekans. Hver er hvatinn er að baki þátttöku almennings í mótmælum og hvers vegna voru svo mörg tilbúin að mótmæla, er meðal þess sem Jón Gunnar hefur leitað svara við í gegnum kannanir meðal almennings, greiningu á fjölmiðlaumræðu, viðtöl við mótmælendur og ræður á mótmælum. Rannsóknirnar sýna m.a. að pólitísk hugmyndafræði og sýn á stjórnmálakerfið ræður miklu um þátttöku fólks í mótmælum og þá sýna kannanir að Íslendingar telja að mótmæli hafi áhrif. 

Jón Gunnar ræðir líka kennsluþáttinn í starfi sínu en hann segir bæði rannsóknir og kennslu órjúfanlega þætti af starfinu í háskólanum.

Í þættinum er einnig rætt við Önnu Soffíu Víkingsdóttur, doktorsnema Jóns Gunnars, en hún beinir sjónum sínum að kynferðislegri áreitni og kynferðislegu, andlegu og líkamlegt ofbeldi í íþróttum en að hennar sögn er slíkt mun algengara en mörg grunar.

Þáttinn um rannsóknir Jóns Gunnars og samstarfsfólks má finna hér

Nánar um þáttaröðina

Vísindin og við er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Hringbrautar en það hófst fyrr á þessu ári með frumsýningu fimm þátta um vísindamenn skólans. Umsjón með þáttunum hafa þau Þóra Katrín Kristinsdóttir, efnafræðingur og fjölmiðlakona, og Sigmundur Ernir Rúnarson, sjónvarpsmaður, rithöfundur og ritstjóri Fréttblaðsins og Hringbrautar. Þau taka hús á vísindafólki á öllum fræðasviðum skólans og úti á rannsóknasetrum hans. Þar forvitnast þau um rannsóknir vísindafólksins ásamt því að bregða ljósi á manneskjuna á bak við vísindamanninn. Einnig er rætt við nemendur og samstarfsfólk þess vísindafólks sem er í brennidepli í hverjum þætti.
 

Jón Gunnar Bernburg