Rannsaka leiðir til að stytta framkvæmdatíma á verkstað
Háskóli Íslands og Vegagerðin vinna um þessar mundir að rannsóknaverkefni sem miðar að því að stytta framkvæmdatíma á byggingarstað. Verkefnið snýr að tengingum á forsteyptum veggjum og staðsteyptum sökklum.
Markmið verkefnisins er þróa nýja tengingu milli forsteypts stöpulveggjar og staðsteypts sökkuls til að lágmarka og stytta framkvæmdatímann á byggingarstað. Verkefnið er unnið sem meistaraverkefni í byggingarverkfræði við Háskóla Íslands og lokaverkefni í byggingartæknifræði við Háskólann í Reykjavík í samstarfi við Vegagerðina, BM Vallá og Vistu verkfræðistofu.
Þann 14. september sl. fór fram tilraun á fyrra prófstykki á spennigólfi VR-III. Prófstykkið var útfært eins og um staðsteypta útfærslu sé að ræða. Það verður svo notað til að bera saman við nýja tengingu milli forsteypts stöpulveggjar og staðsteypts sökkuls.
Þeir Franz Sigurjónsson, meistaranemi í byggingarverkfræði við HÍ, og Rúnar Steinn Smárason, nemandi í byggingartæknifræði við Háskólann í Reykjavík, vinna að þessu verkefni. Báðir vinna þeir verkefnið til lokaprófs undir handleiðslu Bjarna Bessasonar, prófessors við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild HÍ, og Ólafs Sveins Haraldssonar, forstöðumanns rannsóknadeildar Vegagerðarinnar.
Aðspurðir hvernig gekk voru þeir sammála um að viðmiðunartengingin hafi staðist væntingar. „Tengingin fór í gegnum 11 stigvaxandi álagspróf og hélt hún styrk alveg fram til loka þegar tvö langjárn í veggnum slitnuðu“. Þeir nefna að mörgu er að hyggja í prófunum sem þessum en það er gagnasöfnunin. „Söfnun gagna er mikilvæg til að geta borið saman prófstykkin.“ Þeir þakka Agli Arnari Valssyni, tæknimanni verkfræðideilda Háskóla Íslands og Eggerti Guðmundssyni, tæknistjóra Vistu verkfræðistofu, kærlega fyrir aðstoðina í þeim efnum.
Franz og Rúnar Steinn hafa þegar hafist handa við að fjarlægja prófstykkið til að koma nýrri tengingu fyrir sem verður prófuð um miðja næstu viku.