Skip to main content
16. desember 2020

Prófessorar verðlaunaðir fyrir snyrtivörur sem byggja á rannsóknum við HÍ

Prófessorar verðlaunaðir fyrir snyrtivörur sem byggja á rannsóknum við HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Náttúra Íslands býr yfir gríðarlega miklum auðæfum sem við erum rétt að byrja að skoða. Í hverri rannsókn koma fram nýjar upplýsingar sem benda til ákaflega áhugaverðra þátta sem tengjast því hvernig lífríkið hefur aðlagað sig að erfiðum aðstæðum hér á norðurslóðum og ekki síst hér í hafinu við Ísland þar sem hlýir og kaldir straumar mætast og skapa umhverfi sem er bæði erfitt og breytilegt fyrir lífverurnar.“

Þetta segir Guðrún Marteinsdóttir, prófessor í fiskifræði við Háskóla Íslands, sem tók í síðustu viku við alþjóðlegum gull- og silfurverðlaunum fyrir þróun á TARAMAR-snyrtivörum. Þær byggjast m.a. á áratuga rannsóknum hennar og Kristbergs Kristbergssonar, prófessors í matvælafræði við Háskóla Íslands en þau eru hjón. 

Í upphafi fór þróunin af stað sem áhugamál Guðrúnar sem svar við þörf á að skapa eiturefnalausa húðvöru til eigin nota. Fljótlega færðust þó rannsóknirnar á hærra stig og í ljós kom að niðurstöður úr rannsóknum Kristbergs og samstarfsmanna hans við háskóla í Bandaríkjunum og Þýskalandi á lífvirkum efnum í matvælum hentuðu mjög vel í þróunina á húðvörunum. Í dag hafa hjónin því flutt niðurstöður úr efna- og matvælarannsóknum frá 30 ára tímabili yfir í þróunina á húðvörunum.

Húðvörur sem hægt er að borða

„Ein merkileg afleiðing af þessu ferli er sú að húðvörurnar eru að sumu leyti líkari matvælum en eiginlegum húðvörum en flestar slíkar vörur sem er á markaði í dag koma úr heimi lyfja- og efnafræði, en ekki matvælafræði. Því má segja að TARAMAR-vörurnar séu tæknilega ætar enda tengist það meginforsendu fyrir vörunum, það að þær hafi engin ertandi, hormónaruglandi eða eitrandi áhrif á húð eða innra umhverfi líkamans þar sem mörg efni í húðvörum eru tekin upp í gegnum húðina og dreifast með blóðrás um allan líkamann,“ segir Guðrún og brosir. 

Verðlaunin sem þau hjónin hlutu heita Global Makeup Awards og eru tengd alþjóðlegri samkeppni um bestu húð- og snyrtivörur í Skandinavíu, Ameríku og Bretlandi. Þetta var í þriðja sinn samkeppnin er haldin að sögn Guðrúnar en á hverju ári keppa 350 til 400 framleiðendur um efstu sætin. Vörurnar er m.a. metnar út frá virkni af fagaðilum á þessu sviði. 

Niðurstöður eru birtar í vefriti Global Makeup Awards.  

makeupawards

Global Makeup Awards hefur verið haldin undanfarin þrjú ár.

„Í ár keppti TARAMAR við fleiri hundruð aðrar vörur frá Norðurlöndunum,“ segir Guðrún,  „og hreppti fyrstu verðlaun fyrir vörulínuna í heild sinni, sem Best Organic Beauty Brand og fyrsta sæti fyrir næturkremið og útlit og hönnun pakkninga. TARAMAR fékk einnig silfurviðurkenningar fyrir augnkrem og hreinsiolíu,“ segir Guðrún.

Margar leiðir opnast með samvinnu háskóla og atvinnulífs

Í stefnu Háskóla Íslands, HÍ21, er ótvíræð áhersla á nýsköpun sem byggist á rannsóknum og öflug tengsl við atvinnulíf.  Fullyrða má að TARAMAR sé afar skýrt dæmi um hvernig rannsóknastarf getur fætt af sér nýjar lausnir í íslensku og alþjóðlegu atvinnulífi til hagsbóta fyrir neytendur og lífríki. „Rannsóknir sem tengjast atvinnulífinu opna margar nýjar leiðir við að afla fjár til rannsókna og þróunar. TARAMAR stundar bæði grunn- og hagnýtar rannsóknir í samvinnu við Háskóla Íslands og erlendar rannsóknastofnanir sem allar miða að því að leysa þau vandamál sem húðvöruheimurinn stendur frammi fyrir í dag,“ segir Guðrún. Hún bætir því við að samstarf með þessu lagi ýti undir þróun á nýjum leiðum og uppgötvunum sem séu jafnvel nýjar fyrir vísindin á heimsmælikvarða.

„Ein merkileg afleiðing af þessu ferli er sú að húðvörurnar eru að sumu leyti líkari matvælum en eignlegum húðvörum en flestar slíkar vörur sem er á markaði í dag koma úr heimi lyfja- og efnafræði, en ekki matvælafræði. Því má segja að TARAMAR-vörurnar séu tæknilega ætar enda tengist það meginforsendu fyrir vörunum, það að þær hafi engin ertandi, hormónaruglandi eða eitrandi áhrif á húð eða innra umhverfi líkamans þar sem mörg efni í húðvörum eru tekin upp í gegnum húðina og dreifast með blóðrás um allan líkamann,“ segir Guðrún.

Leitað að lausnum í hafinu við Ísland

„Stærstu verkefnin sem eru í gangi hjá TARAMAR snúa að lífvirkni náttúrlegra efna úr þangi og lækningajurtum og þróun á náttúrulegum ferjum sem eru notaðar til að vernda og lengja líftíma lífvirku efnanna og ferja þau á þá staði í húðinni og líkamanum þar sem þau nýtast best. Þannig byggja nær allar TARAMAR-vörurnar á ferjum og rannsóknir undanfarinna 30 ára á ferjum sem nýta nanótækni hafa nýst á frábæran hátt til að gera efnaformúlurnar virkari og mörgum sinnum öflugri en formúlur sem nýta ekki ferjur. Áhrifin og breytingar á húðinni eru sjáanlegar með berum augum og oft má sjá hin jákvæðu áhrif á mjög stuttum tíma.“ 

Guðrún segir að stærsta rannsóknaverkefni TARAMAR hjá Háskóla Íslands í dag sé þróun á öruggri sólarvörn þar sem hinum mjög svo óæskilegu sólarverjandi efnum, eins og oxybenzone, er skipt út fyrir náttúrleg efni unnin úr þörungum. „Sem dæmi um eitrandi áhrif oxybenzone þá er talið að nokkrir dropar í sundlaug (25 metra laug) leiði til styrkleika sem eyðileggi varnir kóralla þannig að þeim byrjar að blæða. Áhrif þessara efna eru slík að nú hafa fimm baðstrendur víðs vegar um heiminn bannað sólarvarnir sem innihalda þessi efni þar sem þau hafa skaðleg áhrif á lífríkið.“ 

Guðrún segir að þetta verkefni TARAMAR, sem nefnist TARASÓL, sé því gríðarlega mikilvægt og með því sé aukinn skilningur á þeim efnum sem þörungar nýta til að verja sig fyrir ágangi sólar og umhverfis. 

Ihafid

Stærstu verkefnin sem eru í gangi hjá TARAMAR snúa m.a. að lífvirkni náttúrlegra efna úr þangi og lækningajurtum.

Afar hagnýtar rannsóknir

„Þessar rannsóknir eru bæði hreinar grunnrannsóknir, sem snerta skammtafræði og áhrif ljóss á lifandi efni, og hagnýtari rannsóknir þar sem efnin eru metin út frá gleypni sólarljóss en einnig þróun þar sem efnin eru felld út og innlimuð í formúlur sem eru prófaðar af viðurkenndum eftirlits- og rannsóknaraðilum.“
 
Guðrún segir að niðurstöður rannsóknanna hafi leitt í ljós að býsna mörg afar áhugaverð efni megi finna í sjávarfangi sem ekki verja einungis gegn sólarljósi heldur hafa einnig sterk andoxandi áhrif. Þau dragi einnig úr bólgum, styrki frumuhimnur og stöðvi niðurbrot á byggingavefjum húðarinnar. 

Guðrún segir að stór hluti niðurstaðnanna sé færður inn í einkaleyfaumsóknir og séu fjórar slíkar í ferli hjá TARAMAR og Háskóla Íslands.

Vöruþróun í samstarfi við neytendur

Guðrún segir að þróun á TARAMAR vörunum hafi frá upphafi átt sér stað í sterkum tengslum við notendur. „Í fyrstu var mest unnið með B-hluthöfum TARAMAR, sem er stór hópur af eigendum og notendum varanna. Nýjar vörur voru prófaðar í 30 til 40 manna hópum um leið og hlustað var á reynslu og óskir prófenda. Í dag býr TARAMAR yfir vildarklúbb með mörg þúsund þátttakendum. Á hverjum degi eiga sér stað samskipti við þessa vildarvini og TARAMAR nýtur góðs af sögum, reynslu og ábendingum frá þeim. Þannig hefur TARAMAR beint athyglinni að stærstu vandamálum húðvara sem varðar ertandi og eitrandi áhrif innihaldsefna sem eru notuð í svo til öllum vörum á markaði. Stærsta áskorun TARAMAR er að skipta út öllum þessum efnum fyrir örugg og hrein efni sem eru unnin úr  náttúru Íslands.“

Guðrún segir að með TARAMAR hafi vísindamönnunum vitrast mjög sterkt hve mikill auður liggi í langtímarannsóknum. „Við finnum fyrir ómældri gleði þegar niðurstöður úr rannsóknum, sem hófust fyrir 30 til 40 árum, nýtast í þróun á allt öðrum hlutum en þeim sem þær voru ætlaðar í upphafi. Sem dæmi þá erum við nú að nýta upplýsingar um áhrif vítamína á uppbyggingu og jónasamloðun vatns inn í nýjar formúlur sem munu hafa virkni og getu til að næra og byggja upp húð á skala sem hefur verið óþekktur til þessa. Þessar rannsóknir voru framkvæmdar á áttunda áratug síðustu aldar og eru nú nýttar til að varpa ljósi á samskipti og eiginleika náttúrulegra efna í fjölvíddarrými.“ 

Þeim sem vilja kynna sér TARAMAR vörunar er bent á vefsíðurnar www.taramar.iswww.taramar.com og www.taramarseeds.com 

Guðrún Marteinsdóttir og Kristberg Kristbergsson