Páll Einarsson sæmdur Ásuverðlaunum 2022
Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, hlýtur Ásuverðlaun Vísindafélags Íslendinga í ár fyrir einstakt framlag við að rannsaka eðli jarðskjálfta og eldsumbrota og að uppfræða bæði nemendur og almenning um slíka atburði og hættu af þeirra völdum. Páll tók við verðlaununum úr hendi Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, við hátíðlega athöfn í Þjóðminjasafninu í dag.
Viðurkenning úr Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright eru árlega veitt íslenskum vísindamanni sem náð hefur framúrskarandi árangri á sérsviði sínu í vísindum eða fræðum og miðlað þekkingu sinni til framfara í íslensku þjóðfélagi.
Páll hefur starfað við Háskóla Íslands frá árinu 1975, fyrst sem sérfræðingur og vísindamaður hjá Raunvísindastofnun Háskólans og síðar sem prófessor í jarðeðlisfræði. Rannsóknir hans hafa einkum verið á þremur sviðum:
- Á sviði jarðskorpuhreyfinga og aflfræði jarðar þar sem ýmiss konar mælitækni er nýtt til að fylgjast með þeim ferlum sem eru að verki í hreyfingum jarðskorpunnar. Páll tók þátt í fyrstu nákvæmu mælingunum á flekahreyfingum sem gerðar voru 1967-1970 og var einnig í forsvari fyrir þætti íslenskra vísindamanna í fyrstu mælingum með GPS-tækni á jarðskorpuhreyfingum landsins á níunda áratug síðustu aldar. Með þeim má ákvarða t.d. hversu hratt Austurland fjarlægist Vesturland en einnig hvernig jarðskorpan rís umhverfis jökla landsins þegar þeir rýrna og farg þeirra minnkar vegna loftslagsbreytinga.
- Á sviði jarðskjálfta og brotahreyfinga jarðskorpunnar en Páll hefur m.a. kannað eðli og orsakir jarðskjálfta með því að athuga bylgjur sem berast frá upptökum þeirra og þau ummerki sem þeir skilja eftir sig á yfirborði jarðar. Páll átti ásamt Sveinbirni Björnssyni, prófessor og fyrrverandi háskólarektor, frumkvæði að smíði og uppsetningu jarðskjálftamæla í svokölluðu Landsneti skjálftamæla sem sett var upp á umbrotasvæðum landsins á árunum 1973-1979. Mælarnir voru hannaðir og smíðaðir á Raunvísindastofnun Háskólans og var netið rekið í um tvo áratugi þangað til hið nýja stafræna mælakerfi Veðurstofunnar tók við upp úr 1990.
- Á sviði innviða og aflfræði eldstöðva en með skjálftamælingum í rótum eldstöðvar má finna vísbendingar um ástand hennar, kvikuþrýsting eða tilfærslu á kviku. Með Landsneti skjálftamæla skapaðist aðstaða til að fylgjast með helstu eldstöðvakerfum landsins og reyndust Kröflugosin á áttunda og níunda áratugnum Páli og samstarfsfólki afar lærdómsrík. Hægt var að rekja ferðir kvikunnar í jarðskorpunni með jarðskjálftamælingunum. Við bættist að aðrar eldstöðvar voru einnig virkar á næstu áratugum, svo sem Grímsvötn og Hekla, og safnaðist því mikil reynsla við að ráða í samspil skjálfta og eldgosa.
„Páll Einarsson hefur unnið brautryðjendastarf í að samtvinna rannsóknir í jarðeðlisfræði við spár um jarðhræringar og eldsumbrot og nýtingu þeirrar þekkingar sem þannig aflast. Hann hefur leiðbeint fjölda framhaldsnema við háskóla í rannsóknarnámi og flutt fyrirlestra bæði innan lands og utan. Hann hefur verið ötull við að uppfræða almenning enda iðulega kallaður til viðtals þegar jörð skelfur og gos verða,” segir m.a. í rökstuðingi stjórnar sjóðsins fyrir viðurkenningunni. MYND/Kristinn Ingvarsson
Komið að rannsóknum á öllum helstu eldstöðva- og sprungukerfum landsins
Páll hefur frá upphafi ferilsins átt þátt í að skilgreina eldstöðvakerfi landsins, meðal annars með því að kortleggja ásamt stúdentum og öðru samstarfsfólki sínu, innlendu og erlendu, sprungusveima kerfanna. Má þar nefna Þeistareyki, Kröflu, Öskju, Kverkfjöll, Bárðarbungu, Tungnafellsjökul, Hofsjökul, Hengil, Prestahnúk, Eyjafjallajökul, Fagradalsfjall og fleiri. Samhliða því hefur hann unnið að því að meta hættu vegna jarðskjálfta, eldgosa og hlaupa víða um land. Eftir hann liggja enn fremur vel á annað hundrað ritrýndra greina auk þess sem hann hefur ritað marga bókarkafla í alþjóðleg rit. Þá er hann meðal höfunda stórvirkisins Náttúruvá á Íslandi sem kom út fyrir nokkrum árum.
Þar að auki hefur Páll birt greinar í áhugamannaritum og ritað skýrslur og flutt erindi fyrir almenning og sérfræðinga á öðrum sviðum rannsókna þar sem jarðhræringar haft áhrif, svo sem við vega- og brúargerð, virkjanir og almannavarnir. Erindi þau sem hann hefur flutt fyrir lærða sem leika skipta mörgum hundruðum, bæði hérlendis og erlendis.
Páll hefur verið ráðgjafi Almannavarna um hættu af jarðskjálftum og eldgosum frá árinu 1975 og hefur átt sæti í Vísindamannaráði Almannavarna frá upphafi. Þá hefur hann átt sæti í nefnd á vegum umhverfisráðuneytisins um aðgerðir til að draga úr hættu af völdum jarðskjálfta frá 1996.
Páll hefur enn fremur starfað með fjölmörgum fagfélögum á sviði jarðeðlisfræði. Þar má helst nefna Jarðfræðafélag Íslands, Vísindafélag Íslands, Eðlisfræðifélag Íslands og Jöklarannsóknafélag Íslands. Að auki hefur hann verið félagi erlendis í American Geophysical Union og Seismological Society of America.
„Páll Einarsson hefur unnið brautryðjendastarf í að samtvinna rannsóknir í jarðeðlisfræði við spár um jarðhræringar og eldsumbrot og nýtingu þeirrar þekkingar sem þannig aflast. Hann hefur leiðbeint fjölda framhaldsnema við háskóla í rannsóknarnámi og flutt fyrirlestra bæði innan lands og utan. Hann hefur verið ötull við að uppfræða almenning enda iðulega kallaður til viðtals þegar jörð skelfur og gos verða,” segir m.a. í rökstuðningi stjórnar sjóðsins fyrir viðurkenningunni.
Páll Einarsson er fæddur í Reykjavík árið 1947. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík og nam eðlisfræði við Háskólann í Göttingen í Þýskalandi ásamt stærð- og efnafræði en þaðan lauk hann fyrrihlutaprófi árið 1970. Hann stundaði síðan nám í jarðeðlisfræði við Columbia-háskóla í New York með jarðskjálftafræði sem aðalfag og eðlisfræði, almenna jarðfræði og strúktúrjarðfræði sem aukafög. Þaðan lauk hann M.Phil. gráðu árið 1974 og doktorsgráðu árið 1975. Páll er faðir þriggja uppkominna barna og er sambýliskona hans Ingibjörg Briem kvikmyndagerðarmaður.
Páll hefur fengið ýmsar aðrar viðurkenningar fyrir störf sín, þar á meðal heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu árið 2015.
Um Ásusjóð Vísindafélags Íslands
Ása Guðmundsdóttir Wright, stofnandi sjóðsins, fæddist að Laugardælum í Árnessýslu hinn 12. apríl 1892. Hún var dóttir Guðmundar læknis Guðmundssonar og Arndísar Jónsdóttur. Ása lifði viðburðaríkri ævi en hún hélt utan og lagði stund á hjúkrunar- og ljósmóðurnám í Lundúnum. Dvaldi hún hjá Lord Buckmaster sem var stallari konungs og fékk hún því að ganga fyrir konung. Á siglingu heim úr námi kynntist hún enskum lögmanni, dr. Henry Newcomb Wright, sem varð síðar eiginmaður hennar. Ása og Henry settust að á Trínidad í Vestur-Indíum, sem þá var bresk nýlenda. Þar ráku þau hjón plantekru í fögru landsvæði í Arimadal. Ása og Henry voru barnlaus og ráðstafaði Ása jarðeign sinni til félags fuglaskoðara og stofnaði fuglafriðland. Búgarðurinn, Spring Hill, heitir nú Asa Wright Nature Centre.
Andvirði bújarðarinnar í dollurum varði Ása meðal annars til stofnunar sjóðs í tengslum við Vísindafélag Íslendinga, sem í rúm 50 ár hefur veitt viðurkenningu Íslendingi sem unnið hefur veigamikið vísindalegt afrek á Íslandi eða fyrir Ísland. Verðlaunin eru heiðursskjal og silfurpeningur með lágmynd Ásu og merki Vísindafélags Íslendinga. Þá fylgir í ár 500 þúsund króna peningagjöf frá hollvinum sjóðsins, Alcoa Fjarðaáli og Brimi hf.
Alls hafa 53 vísindamenn hlotið viðurkenningu úr sjóðnum frá upphafi.
Í stjórn Verðlaunasjóðs Ásu Guðmundsdóttur Wright sitja þrír stjórnarmenn, þau Sveinbjörn Björnsson, prófessor og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, Þránn Eggertsson, prófessor emeritus við Hagfræðideild Háskóla Íslands, auk Sigrúnar Ásu Sturludóttur sem er stjórnarformaður.