Skip to main content
13. júní 2023

Orkuskipti í forgrunni í Íslandsheimsókn

Orkuskipti í forgrunni í Íslandsheimsókn - á vefsíðu Háskóla Íslands

Síðastliðinn föstudag heimsóttu Háskóla Íslands tveir af fremstu vísindamönnum Toyota á heimsvísu og héldu erindi í Hátíðasal. Heimsóknin var skipulögð í samstarfi við Toyota á Íslandi, en höfðu vísindamennirnir sérstakan áhuga á að kynna sér markaðssvæði sem væri leiðandi í endurnýjanlegri orku og því varð Ísland fyrir valinu.

Dr. Gill Pratt er yfirvísindamaður Toyota Motor Corporation og stýrir Toyota Research Institute (TRI). Hjá TRI leiðir hann rannsóknir sem miða að því að að búa til ný verkfæri og möguleika sem miða að bættri tilvist mannsins með rannsóknum á sviði orku og efna, mannmiðaðrar gervigreindar, gagnvirks aksturs, vélnáms og vélfærafræði. Dr. Pratt státar af yfirgripismikilli reynslu innan akademíu og atvinnulífs og starfaði m.a. áður sem dósent í rafmagns- og tölvuverkfræði og tölvunarfræði við Massachusetts Institute of Technology (MIT) í Bandaríkjunum.

Erindi Dr. Pratt bar titilinn „Hvernig minnkum við útblástur koldíoxíðs sem mest á sem skemstum tíma“. Talaði hann um orkuskipti, viðhorf til þeirra og framtíðarsýn Toyota í þeim málum. Benti hann m.a. á að önnur lönd en Ísland væru mun skemur á veg komin í orkuskiptum og að leiðin fram á við lægi í því að gera sem flest ökutæki rafknúin að hluta til, frekar en fá ökutæki 100% rafknúin.

Dr. Brian Storey stýrir sviði orku- og efnarannsókna hjá Toyota Research Institute þar sem unnið er að þróun nýrra lausna sem nýtast munu í samgöngum án útblásturs. Erindi hans sneri að þróun á rafhlöðum og þeim efnum sem mögulegt væri að nota til framleiðslu á þeim í framtíðinni. Aðstæður á heimsvísu og síbreytilegt landslag í aðfangakeðju þýddi að fyrirtæki eins og Toyota þyrftu sífellt að leita nýrra leiða við framleiðslu véla og orkugjafa og áskorarnirnar væru margvíslegar.

Að framsögu lokinni sátu þeir fyrir svörum í pallborði ásamt Rúnari Unnþórssyni, deildarforseta Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar. Fundarstjóri var Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs.

Rúnar Unnþórsson, Brian Storey, Gill Pratt og Sigurður Magnús Garðarsson.
Fundarstjóri, Sigurður Magnús Garðarsson, forseti VoN.
Fundargestir.
Dr. Gill Pratt.
Fundargestir
Dr. Brian Storey.
Dr. Brian Storey.
Pallborð að umræðum loknum.