Skip to main content
24. september 2019

Nýr alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs gætir hagsmuna erlendra nema

Kolfinna Tómasdóttir hefur verið ráðin í stöðu alþjóðafulltrúa Stúdentaráðs Háskóla Íslands en hún hóf störf í sumar. Alþjóðafulltrúi hefur yfirumsjón með þjónustu Skrifstofu Stúdentaráðs við erlenda nemendur, gætir hagsmuna þeirra og auðveldar þeim að gerast virkir þátttakendur í háskólasamfélaginu. Alþjóðafulltrúi er jafnframt trúnaðaraðili erlendra nema við Háskóla Íslands.

Í haust hófu rúmlega sexhundruð nemendur með erlent ríkisfang nám við Háskóla Íslands, þar af 235 skiptinemar og tæplega fjögurhundruð á eigin vegum. Alls stunda um 1300 erlendir nemendur nám við skólann.

„Þar sem nú er ráðið í stöðuna í fyrsta sinn þá mun starfið fela í sér að móta betur hlutverk alþjóðafulltrúa í samstarfi við forseta Stúdentaráðs og Skrifstofu alþjóðasamskipta. Ég vil byggja upp sterkan grunn sem komandi alþjóðafulltrúar geta byggt á þar sem þarfir erlendra nema eru hafðar að leiðarljósi,“ segir Kolfinna. Hún nefnir að þar verði hagsmunagæsla og öflugt félagslíf lykilatriði en aðlögum erlendra nemenda að íslensku samfélagi byrji við komu þeirra til landsins og sé alþjóðafulltrúi með þeim fyrstu til að taka á móti þeim. 

Alþjóðafulltrúi hefur einnig milligöngu um að verða erlendum nemendum úti um tengilið (mentor) úr hópi nemenda Háskóla Íslands, í samvinnu við Skrifstofu alþjóðasamskipta. Þá aðstoðar alþjóðafulltrúi Skrifstofu alþjóðasamskipta við skipulagningu viðburða, s.s. móttöku erlendra nemenda og Alþjóðadaga Háskóla Íslands. Auk þess tekur alþjóðafulltrúi þátt í daglegum störfum Skrifstofu Stúdentaráðs í samráði við forseta.  

 „Ég sé fyrir mér að starf alþjóðafulltrúa muni skipta miklu máli fyrir upplifun og velgengni erlendra nemenda við HÍ og ég hlakka til að móta starfið. Í ár hef ég tækifæri til að kafa djúpt í þau verkefni sem snúa að erlendum nemum og móta skýra sýn og stefnu,“ segir Kolfinna. Hún ætlar að einbeita sér að því að bæta mentorakerfið og byggja grunn að öflugu félagslífi sem tekur mið af þörfum erlendu nemanna.

Kolfinna lauk BA-gráðu í lögfræði við HÍ vorið 2019 og stundar nú meistaranám í lögfræði og grunndiplómunám í Mið-Austurlandafræði og arabísku við HÍ. 

Kolfinna er á Skrifstofu Stúdentaráðs á 3. hæð á Háskólatorgi (HT336) og er með opna viðtalstíma alla miðvikudaga kl. 10.00-11.00. Þá má hafa samband við hana í gegnum netfangið internationalcommittee@hi.is eða í síma 5700850.

 

Kolfinna Tómasdóttir