Skip to main content
8. september 2023

Nýr aðjunkt í pólskum fræðum að kenna Íslendingum í fyrsta sinn

Nýr aðjunkt í pólskum fræðum að kenna Íslendingum í fyrsta sinn - á vefsíðu Háskóla Íslands

Mariola Alicja Fiema hefur verið ráðin aðjunkt í pólskum fræðum, nýrri námsgrein við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Hún segir að námið, ásamt íslenskunámi Pólverja, geti stuðlað að heilbrigðu, samræmdu og skilningsríku samfélagi, þar sem Pólverjar séu nú fjölmennastir í hópi innflytjenda hér á landi og pólska annað mest talaða málið.

Mariola Alicja er fædd og uppalin í Kraká, næst stærstu borg Póllands, og er menntaður kennari með framhaldsmenntun í kennslu pólsku sem annars máls. Hún hefur unnið við sitt fag, m.a. við Jagiellonian-háskóla í Kraká, þar sem hún hefur kennt fjölþjóðlegum hópi fólks pólsku. Hún segist þó aldrei hafa kennt Íslendingum pólsku fyrr en nú. Fyrir utan hin jákvæðu samfélagslegu áhrif sem námið kann að hafa þá segir Mariola að námið hafi líka hagnýtt gildi fyrir nemendur þar sem samstarf Íslands og Póllands verði sífellt víðtækara, t.d. á sviði lista, mennta og viðskipta. Hún gerir því ráð fyrir að eftirspurn eftir tvítyngdu fólki á íslensku og pólsku fari hratt vaxandi.

Pólska er nú kennd í fyrsta skipti sem námsgrein við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands og er í boði sem 60 eininga aukagrein. Þar er tekist á við pólska málnotkun, málfræði, ritun og lestur auk þess sem fjallað er um menningu og sögu Póllands. Mariola segir að nú sé unnið að því að efla námið þannig að nemendur geti lokið diplómagráðu í pólsku, vonandi strax á næsta ári. Þá sé unnið að því að koma á skiptinámi í samstarfi við pólsku stofnunina National Agency for Academic Exchange, t.d. tveggja til þriggja vikna sumarnámskeiðum fyrir Íslendinga í Póllandi.

Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands efnir til pólskra daga 11. til 14. september með dagskrá í Veröld sem verður öllum opin. Mariola segir að áhersla verði á menningu og sögu Póllands á þriðja og fjórða áratug tuttugustu aldar, en tímabilið milli heimsstyrjalda sé einkar áhugavert í pólskri sögu: „Þá öðluðumst við sjálfstæði að nýju og nafnið Pólland komst aftur á Evrópukortið eftir 123 ára fjarveru. Þjóðin fylltist bjartsýni og von og lagði sig alla fram um að endurreisa landið. Það er þetta blómaskeið í pólsku menningarlífi sem við ætlum að fjalla um á pólskum dögum með kvikmyndasýningum og fyrirlestrum.“

Mariola Alicja Fiema hefur verið ráðin aðjunkt í pólskum fræðum við Háskóla Íslands.