Skip to main content
3. nóvember 2023

Ný stofnun við HÍ helguð kóreskri menningu og tungu

Ný stofnun við HÍ helguð kóreskri menningu og tungu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ný stofnun sem kennd er við King Sejong og stuðlar að fræðslu um kóreskt mál og menningu hefur verið sett á laggirnar við Háskóla Íslands en vaxandi áhugi er á hvoru tveggja á Íslandi að sögn kennara í kóresku við skólann. Ýmsir viðburðir eru fyrirhugaðir á vegum stofnunarinnar á næstu vikum og mánuðum.

King Sejong stofnunin (KSIF) var formlega opnuð í HÍ í sumar en unnið hefur verið að stofnun hennar allt frá því að kennsla hófst á námsleið í kóreskum fræðum við Mála- og menningardeild skólans haustið 2022. Sendinefnd frá höfuðstöðvum King Sejong Institute í Seoul í Suður-Kóreu heimsótti Háskóla Íslands í vor þar sem frekari grunnur var lagður að stofnuninni. Hún verður fyrst um sinn til reynslu en vonir standa til að í framhaldinu verði gerður lengri samningur við King Sejong Institute sem m.a. felur í sér fjárstuðning og möguleika á að fá sendikennara frá Suður-Kóreu.

King Sejong Institute er kóresk mála- og menningarstofnun sem stuðlar að kennslu kóreskrar tungu og fræðslu um kóreska menningu og sögu utan Suður-Kóreu, bæði á öllum skólastigum og gagnvart almenningi. Somyeong Im, kennari í kóresku við Háskóla Íslands, stýrir starfi stofnuninnarinnar innan HÍ en hún hóf að kenna kóresku við skólann í fyrrahaust. „Með því að setja á stofn slíka stofnun við Háskóla Íslands fáum við aðgang að kennsluefni, kennsluaðferðum og öðru efni sem framúrskarandi fræðafólk í Suður-Kóreu í kennslu kóresku sem öðru máli hefur þróað. Með því að ljúka námskeiðum innan Háskóla Íslands í samstarfi við King Sejong stofnunina fá stúdentar einnig skírteini um tungumálakunnáttu sína sem gefið er út af suðurkóreskum yfirvöldum,“ segir Somyeong um þýðingu stofnunarinnar.

Aukinn áhugi á kóresku tengdur K-poppi og kvikmyndum

Nám í kóreskum fræðum við HÍ er 60 eininga diplómanám sem nýst getur sem aukagrein með öðru námi eða sem stök diplómagráða. „Eins og tilvikið er með aðrar námsgreinar leggjum við í kóreskunni mikla áherslu á tungumálakennsluna og því sóttumst við eftir stuðningi frá KSIF við að setja á fót stofnun enda er hlutverk stofnunarinnar fyrst og fremst að ýta undir og styðja við kennslu og nám í kóresku. Áhugi nemenda á kóreskri tungu og menningu kviknar oftast út frá kóresku afþreyingar- og fjölmiðlaefni, eins og kóreskum sjónvarpsþáttum, kvikmyndum eða tónlist. KSIF leggur auk þess mikinn þunga á að ýta undir áhuga nemenda á kóreskri menningu með ýmiss konar menningarsamtali og -viðburðum,“ segir Somyeong enn fremur. 

„Íslendingar eru afar stoltir af íslenskunni sem er snar þáttur af sjálfsvitund þeirra. Kóreubúar eru einstaklega stoltir af kóreskri tungu, ekki síst kóreska stafrófinu, Hangeul, sem King Sejong bjó til, en við hann er stofnunin kennd og hann mun hafa verið af fær málvísindamaður og hljóðfræðingur. Kóreska stafrófsdeginum er meira að segja fagnað í Suður-Kóreu sem sérstökum frídegi!“ bendir Somyeong á. MYND/Daniel Bernar/Unsplash

Somyeong segist aðspurð finna fyrir auknum áhuga á kóreskri menningu og tungu hér á landi. „Flestir nemenda minna hafa skráð sig í kóresku eftir að hafa kynnst ýmiss konar kóreskri menningu eins og kóresku drama, K-poppi og kóreskum kvikmyndum. Kóreski afþreyingariðnaðurinn hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum og það hefur líka haft áhrif hér á landi. Þá kom það mér skemmtilega á óvart að kynnast íslenskum nemendum sem eru nú þegar talandi á kóresku, sum þeirra án þess að hafa nokkurn tíma heimsótt Suður-Kóreu,“ segir hún.

Somyeong hefur áður kennt kóresku sem annað mál í heimalandinu en var ekki lengi að slá til þegar henni bauðst að byggja upp námið við HÍ. „Ég hef verið hér á Íslandi í tvö og hálft ár og sú reynsla hefur verið einkar ánægjuleg. Mér finnst ég hafa verið mjög heppin að hafa fundið þá áhugaverðu vinnu sem ég sinni hérna núna,“ segir hún.

Þá ber hún samstarfsfólki sínu við Mála- og menningardeild einkar vel söguna. „Ég hef notið þeirra forréttinda að vinna með ótrúlegum starfsfélögum með fjölbreyttan bakgrunn sem styður það líflega og fjölmenningarlega andrúmsloft sem ég kann svo sannarlega að meta við háskólann. Ég kann líka að meta að að það er mun minna stigveldi í sambandi nemenda og kennara og milli kollega hér við háskólann en ég á venjast í Suður-Kóreu,“ segir hún.

Íslendingar og Suður-Kóreumenn deila stolti af tungumálinu

Aðspurð um hvað Íslendingar og Suður-Kóreumenn eigi sameiginlegt nefnir Somyeong stolt af  af tungumáli sínu. „Íslendingar eru afar stoltir af íslenskunni sem er snar þáttur af sjálfsvitund þeirra. Kóreubúar eru einstaklega stoltir af kóreskri tungu, ekki síst kóreska stafrófinu, Hangeul, sem King Sejong bjó til, en við hann er stofnunin kennd og hann mun hafa verið afar fær málvísindamaður og hljóðfræðingur. Kóreska stafrófsdeginum er meira að segja fagnað í Suður-Kóreu sem sérstökum frídegi!“ bendir hún á en umræddur King Sejong er í hópi þekktustu leiðtoga Kóreu og stýrði Joseon-veldinu á fyrri hluta 15. aldar.

Það hefur verið og er ýmislegt á döfinni á vegum King Sejong stofnunnarinnar að sögn Somyeong.  Auk þess að bjóða upp á byrjendanámskeið í kóresku innan námsbrautar við Mála- og menningardeild er stefnt á að bjóða upp á opna vinnustofu í kóresku fyrir fólk sem hefur þegar einhver tök á málinu í nóvember. „Þá stóð stofnunin nýverið fyrir kóresku drama-kvöldi í Borgarbókasafninu þar sem saman komu aðdáendur kóreskrar menningar og ræddu uppáhalds drömu, persónur og annað tilheyrandi. Þá er ýmislegt annað á döfinni á næstunni, sem verður kynnt nánar þegar nær dregur,“ segir Somyeong um dagskrá King Sejong stofnunarinnar. 

Somyeong Im