Skip to main content
29. september 2021

Ný bók Sigurðar Gylfa um söfnun heimilda og sjálfsbókmenntir

Ný bók Sigurðar Gylfa um söfnun heimilda og sjálfsbókmenntir - á vefsíðu Háskóla Íslands

Alþjóðlega forlagið Routledge hefur gefið út nýja bók eftir Sigurð Gylfa Magnússon, prófessor í sagnfræði, sem nefnist Archive, Slow Ideology and Egodocuments as Microhistorical Autobiography: Potential History

Bókin hefur það að markmiði að sýna fram á hvernig fræðimenn undanfarin misseri hafa nýtt sér sjálfsbókmenntir (e. egodocuments) frá ýmsum hliðum og opnun fyrir notkun margvíslegra heimilda til að takast á við sögulegar spurningar. Fyrsti hluti bókarinnar fjallar um mikilvægi einkaskjala, bæði fyrir einstaklinginn sjálfan sem skapar heimildina og einnig fyrir hina sem nýta sér þær með einhverjum hætti. Höfundur nálgast viðfangsefnið á grundvelli eigin persónulegrar reynslu og fjallar einnig um mikilvægi slíkra heimilda fyrir fræðaheiminn almennt með áherslu á spurningar á sviði sagnfræði, heimspeki sögunnar, einsögu og minnisfræða.

Seinni hluti bókarinnar er bæði byggður á ljósmyndasafni – safni (e. archive) - sem tilheyrði afa höfundar, sem í áratugi á fyrri hluta 20. aldar safnaði ljósmyndum af flækingum og fólki á jaðrinum. Hugmyndin að þessum hluta bókarinnar var einfaldlega að kanna hvers konar þekkingu er hægt að draga fram þegar ein heimild – skjalasafn, skjal, bréf, ljósmynd, o.s.frv. – er skoðuð og hvort þekkingin sem þannig er aflað sé ef til vill eins góð í eigin samhengi eins og í stærra sniði. Síðasti kaflinn fjallar síðan um það sem höfundur nefnir á ensku „potential history“. „Safnið“ sem fyrirbæri hefur sögu að segja sem er stundum erfitt að skilja, því hluturinn sjálfur – safn afa höfundar – endurspeglaði fortíð sem hann vissi ekki að væri til. Safnið hefur veitt þeim þremur – afanum, föðurnum og honum sjálfum – ástæðu til að spegla sig í fortíðinni; sú reynsla myndar þráð sem liggur í gegnum allt þeirra líf. Í bókinni fær sú tilraun nýja merkingu fyrir þá sem skoða safnið – hvort sem það eru fjölskyldumeðlimir þeirra eða hinn almenni lesandi. Það mætti líta á þessa tilraun sem „hugsanlega sögu“ (e. potential history) eins og pólski fræðimaðurinn, Ewa Domanska, heldur fram þegar hún skoðaði ókannaða möguleika fortíðar í tilraun til að sýna hvaða aðstæður væri hægt að skapa til til að gefa stríðandi öflum tækifæri til að venjast hvort öðrum og hvernig þau gætu lifað saman, eins og hún orðar það í bókarkafla frá 2018, „Staðfestandi hugvísindi“(e. affirmative humanities). Sigurður Gylfi kannar þessi hugtök í þeim tilgangi að útskýra merkingu þeirra fyrir fræðigreinina sagnfræði.

Bókin fæst nú í Bóksölu stúdenta. Heimkaup bjóða verkið einnig til kaups rafrænt, bæði þessa nýju bók og sumar eldri bækur Sigurðar Gylfa sem hafa komið út hjá erlendum forlögum. Sjá eftirfarandi linka:

Archive, slow Ideology and Egodocuments as Microhistorical Autobiography.

Emotional Experience and Microhistory.

Minor Knowledge and Microhistory.

What is Microhistory?

Alþjóðlega forlagið Routledge hefur gefið út nýja bók eftir Sigurð Gylfa Magnússon, prófessor í sagnfræði, sem nefnist Archive, Slow Ideology and Egodocuments as Microhistorical Autobiography: Potential History.