Skip to main content
22. maí 2020

Neyðarstigi aflétt á mánudag

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu til starfsfólks og nemenda í dag:

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Heilbrigðisráðherra hefur samþykkt tillögu sóttvarnalæknis um rýmkun á samkomubanni frá og með 25. maí.

Helstu breytingar í Háskóla Íslands verða eftirfarandi:

Íþróttahús

Íþróttahús Háskóla Íslands opnar mánudaginn 25. maí og verður opið með þeim fjöldatakmörkunum sem eru í gildi fram að sumarleyfi sem hefst 1. júlí. Gert er ráð fyrir að hámarksfjöldi gesta í íþróttahúsinu verði 75 gestir og þeir eru beðnir um að virða tveggja metra regluna eftir því sem við verður komið.

Öll kennsla skv. stundatöflu verður í leikfimisal á fyrstu hæð. Opið verður í tækja- og lyftingasal og teygju- og slökunarrými á annarri hæð. Hreinsivökvi og þurrkur eru til staðar. Gestir eru vinsamlega beðnir um að ganga vel um og hreinsa snertifleti á tækjum og tólum eftir notkun.

Háskólatorg

Dregið verður úr fjöldatakmörkunum á Háskólatorgi með því að fjölga sætum til fyrra horfs og leyfður hámarksfjöldi gesta hækkaður í 200 eins og mælt er fyrir um í tilkynningu frá sóttvarnalækni. Þótt slakað hafi verið á tveggja metra reglunni er fólk hvatt til að fara áfram varlega og hafa tvo metra á milli sé þess kostur og að virða óskir þeirra sem vilja halda tveggja metra fjarlægð.

Tölvuver

Dregið verður úr fjöldatakmörkunum með því að fjölga sætum til fyrra horfs. Við viljum benda á að þótt slakað hafi verið á tveggja metra reglunni er fólk beðið um að fara áfram varlega og hafa tvo metra á milli sé þess kostur og að virða óskir þeirra sem vilja halda tveggja metra fjarlægð.

Með kærri kveðju og ósk um góða helgi,

Jón Atli Benediktsson, rektor“

Frá íþróttahúsi