Neteinelti algengara meðal 6. bekkinga en 10. bekkinga
Í nýútkominni skýrslu Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar (ÍÆ), sem hefur að geyma niðurstöður landskönnunar meðal grunnskólanema í 6., 8., og 10. bekk grunnskóla og fór fram vorið 2022, kemur fram að neteinelti er algengara meðal 6. bekkinga en 10. bekkinga. Um átta af hverjum tíu grunnskólanemum í könnuninni upplifðu mikinn stuðning frá fjölskyldu sinni, svipað hlutfall í 6., 8., og 10. bekk grunnskóla líkar vel eða þokkalega í skólanum sínum og um átta af hverjum tíu þátttakendum hreyfa sig tvisvar sinnum eða oftar í viku.
Í fyrsta hluta skýrslunnar eru fjórir kaflar með landstölum um samskipti nemenda við fjölskyldu, líðan þeirra og afstöðu til skólans, frítíma og hreyfingu og að lokum einelti og slagsmál.
- Neteinelti er algengara meðal nemenda í 6. bekk en í 10. bekk, en tæplega tveir af hverjum tíu þátttakendum í yngsta aldurshópnum (17%) hafa orðið fyrir neteinelti undanfarna tvo mánuði samanborið við rúmlega 12% í 10. bekk. Að sama skapi dregur úr slagsmálum með hækkandi aldri en rúmlega fjórir af hverju tíu þátttakendum í 6. bekk hafa lent í slagsmálum sl. 12. mánuði en í 10. bekk eru það 16% sem hafa lent í slagsmálum. Meðal barna sem töldu fjárhag fjölskyldu sinnar slæman voru frekar þolendur og gerendur eineltis, hvort sem er á Netinu eða raunheimum, og sá hópur var einnig líklegri til að hafa lent í slagsmálum en þau sem töldu fjárhag fjölskyldu sinnar miðlungs eða góðan.
- Um átta af hverjum tíu grunnskólanemum í könnuninni upplifðu mikinn stuðning frá fjölskyldu sinni. Þátttakendur sem töldu fjárhagstöðu fjölskyldu sinnar slæma upplifðu minni stuðning fjölskyldunnar, erfiðari samskipti við móður og föður og sögðust borða sjaldnar með fjölskyldu sinni en þay-u sem töldu fjárhagsstöðu fjölskyldunnar miðlungs eða góða.
- Um átta af hverjum tíu nemendum í 6., 8., og 10. bekk grunnskóla líkar vel eða þokkalega í skólanum sínum. Hins vegar er um helmingur nemenda í 8. og 10. bekk þreyttur flesta eða alla daga í skólanum. Líðan reyndist verst og álag mest hjá þeim sem töldu fjárhagsstöðu fjölskyldu sinnar slæma.
- Um 80% þátttakenda hreyfa sig tvisvar sinnum eða oftar í viku þannig að þau mæðast verulega eða svitna. Hins vegar ná aðeins tveir af hverjum tíu þátttakendum að uppfylla ráðleggingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um daglega hreyfingu barna og ungmenna. Börn sem töldu fjárhagsstöðu fjölskyldu sinnar slæma hreyfðu sig almennt minna og treystu vinum sínum síður en þau sem töldu sig tilheyra betur stæðum fjölskyldum.
Nánar um ÍÆ
Íslenska æskulýðsrannsóknin er umfangsmikil rannsókn sem Menntavísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmir fyrir mennta- og barnamálaráðuneytið á grundvelli 12 gr. æskulýðslaga nr. 70/2007. Markmið rannsóknarinnar er að safna gögnum um velferð og viðhorf barna og ungs fólks og gera þau aðgengileg til að styðja sem best við stefnumótun. Niðurstöður könnunarinnar fyrir einstaka skóla eru sendar gjaldfrjálst öllum þátttökuskólum og fræðslustjórum fljótlega eftir lok fyrirlagnar. Skýrslan sýnir stöðu ýmissa þátta er varða líðan, heilsuhegðun og viðhorf grunnskólanemenda, s.s. tengsl við fjölskyldu, líðan í skóla, vináttu, hreyfingu, mataræði, tíðni eineltis, algengi áfengisdrykkju og notkun nikótíns. Hér er horft til stöðunnar á landinu í heild en sveitarfélög og skólar sem tóku þátt fengu sínar niðurstöður í sérstökum skýrslum strax í vor.
Miðvikudaginn 17. nóvember var haldinn fundur með haghöfum ÍÆ og fóru fram góðar umræður um rannsóknina, niðurstöður og framtíð hennar.
Myndir: Kristinn Ingvarsson.