Skip to main content
7. október 2022

Nemendur í safnafræði styðja við Stríðsárasafnið 

Nemendur í safnafræði styðja við Stríðsárasafnið  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Aðfarnótt 10. maí 1940 gengu breskir hermenn á land í Reykjavík og segja má að á einni vornóttu hafi allt breyst í íslenskum veruleika. „Fjögur herskip lögðust að bryggju í Reykjavík snemma morguns og innan skamms var bærinn fullar af hermönnum,“ segir á Vísindavef HÍ. 

Þarna gerðist sá viðburður í sögunni sem síðar fékk heitið „hernámið“ og hafði veruleg áhrif á uppbyggingu og umsvif á Íslandi. Þeir hermenn sem gengu fyrstir á land voru um tvö þúsund talsins en það þótti gríðarlegur fjöldi á þeim tíma. Það reyndist nú samt bara brot af því sem síðar varð því alls urðu dátarnir rösklega 25 þúsund. Umsvif Breta urðu strax gríðarleg. Þeir þurftu að reisa íbúðarhúsnæði og fjölþætt mannvirki með hernaðarlegan tilgang auk þess sem þeir lögðu vegi og Reykjavíkurflugvöllur var byggður í Vatnsmýrinni. Þetta gátu þeir ekki gert einir og þurftu því íslenskt vinnuafl. Svokölluð Bretavinna varð til og kreppan sem hafði ríkt á undan mildaðist og hvarf. Bresku hermennirnir dreifðust líka víða um land. Bretar höfðu til dæmis talsverð umsvif á Reyðarfirði þar sem nú er rekið sérhæft stríðminjasafn. Því var komið á laggirnar árið 1995 í þeim tilgangi að gera almenningi kleift að ferðast aftur til daga hernámsins. Á safninu er unnt að fá mynd af mannlífi stríðsáranna og skynja áhrif hernámsins á íslensku þjóðina.

Mikilvægt samstarf háskóla og atvinnulífs

Nám í safnafræði við HÍ er ágætt dæmi um hvernig háskólar og atvinnulíf fléttast saman í leitinni að nýjum lausnum í daglegum viðfangsefnum. Það er einmitt markmið í stefnu Háskólans, HÍ26, að flétta enn betur saman samfélag og háskóla en gert hefur verið. Námsbraut í safnafræði hefur t.d. stutt Stríðsárasafnið á Reyðarfirði með fjölbreyttum hætti á síðustu árum. Nýlega var t.d. fjallað um það í fréttum eystra að stjórn menningarstofu- og safnastofnunar hjá Fjarðabyggð hefði falið forstöðumanni Safnastofnunar þar í byggð að kanna það að bjóða nemum í safnafræði austur til að leggja fram hugmyndir sem varða framtíð stríðsminjasafnsins. Hluti af því sem þarf að leysa tengist plássleysi en Stríðsárasafnið á Reyðarfirði á mikinn fjölda muna sem ekki komast ekki á sýningu. Leita á ráða námsbrautar í safnafræði við þessum vanda.

„Við höfum áður fengið nema úr safnadeildinni til okkar með góðum árangri og fengið þaðan aldeilis ágætar hugmyndir,“ segir Pétur Þór Sörensson, forstöðumaður safnsins, í samtali við vefmiðilinn Austurfrétt.

Á Reyðarfirði hefur verið starfrækt Stríðsminjasafn allt frá árinu 1995 og nemar úr HÍ hafa heimsótt það þrisvar í vinnuferðum sínum. „Hóparnir hafa skilað af sér skýrslu í hvert sinn sem hafa nýst okkur vel enda alltaf gott að fá utanaðkomandi álit á hlutunum. Þetta hefur alltaf verið okkur afar gagnlegt enda er þar velt upp ýmsum möguleikum í stöðinni til framtíðar,“ segir Pétur Þór Sörensson, forstöðumaður safnsins.

Samstarf sem gagnast báðum

Sigurjón B. Hafsteinsson, prófessor í safnafræði við HÍ, segir að námbrautin hafi á undanförnum árum verið í fjölþættum verkefnum af þessum toga og nemendur hafi farið vítt og breitt um landið til að leggja söfnum lið. 

„Með verkefnum af þessu tagi gefst nemendum einstakt tækifæri til að hagnýta þekkingu sýna, öðlast færni í að beita henni og leggja raunverulegt lóð á vorgarskálarnar í að bæta starfsemi safna og sem afleiðing af því, bæta samfélagið sem safnið er í,“ segir Sigurjón. 

Pétur Þór segir í Austurfétt að nemar úr HÍ hafi komið þrisvar áður í vinnuferðir austur fyrir tilstuðlan Sigurjóns. „Hóparnir hafa skilað af sér skýrslu í hvert sinn sem hafa nýst okkur vel enda alltaf gott að fá utanaðkomandi álit á hlutunum. Þetta hefur alltaf verið okkur afar gagnlegt enda er þar velt upp ýmsum möguleikum í stöðinni til framtíðar.“ 

Sigurjón segir að það sé mjög mikilvægt að tengja nám beint við atvinnulíf eins og þarna hefur verið gert. „Sérfræðingar á söfnum fá tækifæri til að miðla reynslu sinni og þekkingu og um leið tækifæri til að komast í kynni við nýjar stefnur og strauma í safnafræðum í gegnum samvinnu og samtöl við nemendur og kennara í safnafræði. Frá sjónarhóli nemenda er hér kærkomið tækifæri til að fá innsýn inn í fjölbreytt verkefni og áskoranir sem söfn þurfa að takst á við allan ársins hring,“ segir Sigurjón.

Sigurjón segir að söfn hafi aldrei skipt meira máli en einmitt nú þrátt fyrir að einhverjir kunni að ætla annað á tímum stafrænnar umbyltingar. „Söfn hafa aldrei verið fleiri til í heiminum og ræður þar miklu að samfélög hafa áttað sig á því að í þeim felst afl sem aukið getur lífsgæði fólks, ungra sem aldinna. Fólk er að átta sig á því betur og betur að söfn eru í raun öflugur vettvangur til að bæta bæði menntun og heilsu fólks og þar af leiðandi hefur söfnum vaxið ásmegin.“

Sigurjón segir að söfn hvetji einnig til aukins hreyfanleika fólks, hvort sem það sé vegna atvinnu eða ferðamennsku. „Þó að netið sé til staðar, hverfa ekki langanir og þrár eftir líkamlegri nánd og reynslu af því sem söfn hafa upp á að bjóða.“ 

Söfn eru þjónusta við samfélög

Sigurjón segir að söfn séu samfélagslegar stofnanir og nám í safnafræði við HÍ sé í raun þjónusta við söfn og samfélögin þar sem þau starfa. „Við höfum því sagt að þetta sé þjónustunám, en það byggir á þróaðri menntunarfræðilegri nálgun víða um heim. Litið er svo á að með þjónustunámi séu nemendur og kennarar að sinna samfélagslegri ábyrgð, taka þátt í verkefnum sem skipta samfélagið einhverju máli, auki velferð íbúa og lífsgæði.  Reynslu og vinnu nemenda er deilt með samfélaginu.“

Það er einmitt það sem hefur verið að gerast á Reyðarfirði og verður vafalítið framhald þar á. 

Sigurjón Baldur Hafsteinsson