Skip to main content
30. mars 2023

Nefndi köngulóartegundir eftir The Big Lebowski

Nefndi köngulóartegundir eftir The Big Lebowski - á vefsíðu Háskóla Íslands

Kvikmyndin The Big Lebowski hefur fyrir löngu unnið sér sess sem költ-mynd í hugum kvikmyndaáhugamanna en aldarfjórðungur er liðinn síðan hún kom út. Áhrifa myndarinnar gætir víða, m.a. í dagatalinu og í miðbæ Reykjavíkur, og þá hefur hún haft áhrif á ótal manns. Einn þeirra er Ingi Agnarsson, prófessor í dýrafræði við Háskóla Íslands, en endurtekið áhorf hans á myndina í doktorsnámi varð honum innblástur þegar kom að því að nefna tvær nýjar köngulóartegundir sem hann var að rannsaka. Ingi ræddi þessa skemmtilegu nafngift við blaðamann hins vel þekkta tímarits Wired fyrr í mánuðinum. 

The Big Lebowski fjallar um raunir og ævintýri hins sultuslaka Jeffrey "The Dude" Lebowski og glímu hans og félaga hans, Walters og Donny, við ýmsar skrautlega karaktera. Slík áhrif hefur myndin haft að útgáfu hennar er fagnað árlega á Degi the Dude sem er 6. mars. Þá er að finna bar í miðbæ Reykjavíkur sem nýtur mikilla vinsælda og ber sama nafn og myndin. 

Í dýraríkinu er líka að finna alnafna myndarinnar og aðalpersónunnar, köngulóartegundirnar Anelosimus biglebowski and Anelosimus dude. Nöfn þeirra eru sprottin upp úr höfuðskeljum Inga Agnarssonar sem hefur um langt skeið stundað rannsóknir á köngulóm víða um heim en hann kom til starfa við Háskóla Íslands fyrir um ári.

Í viðtali við Wired segir Ingi frá því hvernig nafngiftin kom til en tegundirnar tvær fékk hann í hendur þegar hann var í doktorsnámi í flokkunarfræði, en hún snýst m.a. um að greina skyldleika tegunda lífvera og gefa nýjum tegundum lífvera nöfn. Umræddar tegundir fann kollegi Inga í regnskógum Tansaníu og þegar kom að því að gefa þeim nafn varð Inga hugsað til þeirra óteljandi klukkustunda sem hann varði í að horfa á mynd Cohen-bræðra með félaga sínum. „Mér fannst ég þurfa að heiðra þessa mynd á einhvern hátt og ég gerði það,“ segir Ingi sem hefur fundið og greint fjölda nýrra köngulóategunda í störfum sínum og m.a. nefnt þær eftir Charles Darwin, Obama-hjónunum og Nelson Mandela. 
 

Ingi Agnarssonar hefur um langt skeið stundað rannsóknir á köngulóm víða um heim en hann kom til starfa við Háskóla Íslands fyrir um ári. Mynd/Úr myndasafni Inga

Í viðtalinu bendir Ingi á að einungis 50 þúsund tegundir köngulóa hafi verið uppgötvaðar og rannsakaðar en áætlað sé að á bilinu 150-200 þúsund tegundir séu til í heiminum. „Í hvert skipti sem ég fer inn í regnskóg er 70 prósent þeirra köngulóa sem ég sé óþekktar. Við erum svo skammt á veg komin í uppgötvun tegunda,“ segir hann.

Enn á eftir að rannsaka tegundirnar A. biglebowski and A. dude betur en Ingi bendir á í viðtalinu að ef þær eru eitthvað líkar ættingum sínum innan ættkvíslarinnar Anelosimus þá minni þær um margt á The Dude úr The Big Lebowsky. Flestar köngulóartegundir haldi sig nefnilega út af fyrir sig og séu árásargjarnar gagnvart öðrum tegundum (svolítið eins og Walter Sobchak í The Big Lebowski) en nokkrar tegunda Anelosimus séu aftur á móti félagslyndar og búi saman til risastóra vefi og verji saman ungviði sitt. „Ef við miðum við köngulær sem heild þá eru Anelosimus-tegundir eins og A. biglebowski og A. dude mun afslappaðri en aðrar tegundir… svo framarlega sem þú ert ekki bráð,“ segir Ingi.

Viðtalið við Inga í Wired má sjá hér

Könguló af tegundinni Anelosimus