Skip to main content
27. nóvember 2023

Náttúrufræðistofnun Íslands og HÍ endurnýja samstarf sitt á Breiðdalsvík

Náttúrufræðistofnun Íslands og HÍ endurnýja samstarf sitt á Breiðdalsvík - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Eydís Líndal Finnbogadóttir, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, endurnýjuðu fyrir helgi samstarfssamning stofnananna til næstu þriggja ára. Markmið samningsins, sem fyrst var gerður 2020, er að vinna áfram að eflingu rannsókna í jarðfræði, einkum á Austurlandi, auka hlut þeirra verkefna Náttúrufræðistofnunar Íslands sem unnin eru á Austurlandi og auka samstarf stofnananna.

Rannsóknasetur HÍ á Breiðdalsvík var sett á fót 2021 og er byggt á grunni starfsemi Breiðdalsseturs ses. Setrinu er einkum ætlað að sinna rannsóknum á sviði jarðfræði og málvísinda. Rannsóknasetur HÍ á Breiðdalsvík er eitt af ellefu rannsóknasetrum háskólans á landsbyggðinni innan Stofnunar rannsóknasetra HÍ. Markmið stofnunarinnar er meðal annars að stuðla að rannsóknum, menntun og leiðbeiningu framhaldsnema víða um land og vera vettvangur samstarfsverkefna háskólans við nærumhverfi og nærsamfélög setranna. Með þeim hætti leggja rannsóknasetrin af mörkum við að efla tengsl Háskóla Íslands við atvinnu- og þjóðlíf.

Rannsóknasetrið leggur sérstaka áhersla á miðlun og fræðslu í nærsamfélaginu og samstarf við borkjarnasafn Náttúrufræðistofnunar Íslands. Nemendur í öllum árgöngum Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóla hafa fengið að kynnast jarðfræði heimabyggðar sinnar í gegnum ýmis verkefni, tilraunir og vettvangsferði, og þá hefur setrið staðið fyrir málþingum og  sýningum á sviði jarðfræði og málvísinda og var ný sýning opnuð sl. sumar um notkun borkjarna í rannsóknum.

Þá hefur verið unnið mikið uppbyggingarstarf á borkjarnasafni Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem staðsett er á Breiðdalsvík: safnkostur þess yfirfarinn og skipulagður, innviðir betrumbættir og starfsemin kynnt fyrir vísindasamfélaginu heima og á erlendri grund. Undanfarin ár hefur fjöldi vísindamanna nýtt sér safnkostinn til rannsókna, auk þess sem borkjarnar hafa verið fengnir að láni úr safninu fyrir fræðslu- og listasýningar. Einnig hefur verið unnið að ýmsum verkefnum Náttúrufræðistofnunar Íslands á Austurlandi, meðal annars jarðfræðikortlagningu ýmissa svæða allt frá Lóni til Vopnafjarðar og rannsókn á bergi og steindum náttúruvættisins Teigarhorns í Berufirði.

Með samningnum samþykkja aðilar að tryggja áfram fjármögnun starfs verkefnisstjóra við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík. Starf verkefnisstjóra snýr að borkjarnasafni Náttúrufræðistofnunar Íslands og fleiri verkefnum stofnunarinnar á Austurlandi, auk þess sem verkefnisstjórinn sinnir verkefnum fyrir rannsóknasetrið á sviði miðlunar, fræðslu og rannsókna. 
 

Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands og sérfræðingur á rektorsskrifstofu, Eydís Líndal Finnbogadóttir, settur forstjóri NÍ, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, handsala samninginn í Háskóla Íslands.
Á myndinni eru frá vinstri Anna Sveinsdóttir, sviðsstjóri vísindasafna og miðlunar hjá NÍ, María Helga Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri við Rannsóknasetur HÍ á Breiðdalsvík og jarðfræðingur við NÍ, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Eydís Líndal Finnbogadóttir, settur forstjóri NÍ, og Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Rannsóknasetra Háskóla Íslands og sérfræðingur á rektorsskrifstofu.
Sæunn Stefánsdóttir, forstöðumaður Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands og sérfræðingur á rektorsskrifstofu, og Eydís Líndal Finnbogadóttir, settur forstjóri NÍ, handsala samninginn.