Miðaldasaga Hörgárdals og Svarfaðardals
Út er komin bókin A Tale of Two Valleys eftir Árna Daníel Júlíusson, rannsóknasérfræðing við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands. Útgefandi er Háskólaútgáfan.
Dalirnir tveir sem fjallað er um í bókinni eru í Eyjafirði, Hörgárdalur og Svarfaðardalur. Fjallað er um miðaldasögu þessara tveggja dala, frá landnámi um 880 og til 1500. Áhersla er lögð á félags-, hag- og umhverfissögu dalanna, eins og túlka má hana á grundvelli fornleifafræðirannsókna, ritaðra heimilda og fornvistfræðigagna. Kuml úr heiðni, heimakirkjur frumkristni, ýmis annar vitnisburður heimilda um byggð og búsetulandslag, allt er þetta athugað og rætt. Árangurinn er ný og frumleg nálgun í miðaldasögu Íslands. Ritið varð upphaflega til sem rannsóknarskýrsla frá stöðu Dr. Kristjáns Eldjárns við Þjóðminjasafnið 2019, en birtist nú aukið og útfært í tengslum við alþjóðlega rannsókn, The Two Valley Project eða Tvídælu, sem hófst 2021 og lýkur nú í ár.