Skip to main content
31. ágúst 2020

Metfjöldi styrkþega úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands

""

Fjörutíu og einn nýnemi í Háskóla Íslands úr 19 framhaldsskólum víðs vegar af landinu tók við styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands við athöfn í Hátíðasal skólans í dag. Um metfjölda styrkþega er að ræða en þetta var í þrettánda sinn sem styrkjum er úthlutað úr sjóðnum.

Undanfarin ár hefur úthlutunarathöfn vegna styrkja úr sjóðnum farið fram á Háskólatorgi í júní og viðstaddir hafa verið styrkhafar og aðstandendur þeirra. Vegna kórónuveirufaraldursins var hins vegar ákveðið að fresta athöfninni fram að upphafi skólaárs og var styrkþegum einum boðið á athöfnina til þess að uppfylla skilyrði sem sóttvarnayfirvöld hafa sett um fjölda fólks í einstökum rýmum. Athöfninni var hins vegar streymt á netinu fyrir aðstandendur styrkþega og aðra áhugasama.

Háskóla Íslands barst metfjöldi umsókna um nám í vor og í ljósi þess var ákveðið að fjölga styrkjum úr Afreks- og hvatningarsjóði umtalsvert. Alls var 41 styrkur veittur að þessu sinni, sem fyrr segir. Þeir koma í hlut nýnema sem hafa náð framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og íþróttum. Í hópi styrkþega eru einnig nemendur sem hafa sýnt fádæma seiglu og þrautseigju og hafa, þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður, staðið sig afar vel í námi. 

Styrkþegarnir koma úr 19 framhaldsskólum víða af landinu og innritast í 23 mismunandi námsleiðir á öllum fimm fræðasviðum Háskóla Íslands. Í þessum glæsilega hópi eru 13 dúxar og semidúxar úr framhaldsskólum landsins á síðustu misserum og árum og sjö styrkhafanna hafa hlotið Menntaverðlaun Háskóla Íslands við brautskráningar framhaldsskóla landsins.

Myndir Kristins Ingvarssonar frá úthlutuninni

Fyrstu styrkirnir voru veittir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands árið 2008 en frá þeim tíma hafa á fjórða hundrað nýnemar tekið við styrkjum úr sjóðnum. Hver styrkur nemur 375 þúsund krónum og er samanlögð styrkupphæð því rúmar 15 milljónir króna.

Styrkhafarnir eru: Aðalheiður Lind Björnsdóttir, Alexandra Kristín Hafsteinsdóttir, Anna Karen Marinósdóttir, Anna Lilja Atladóttir, Anna Magnúsdóttir Eirúnardóttir, Ari Óskar Víkingsson, Arnar Ágúst Kristjánsson, Arnar Sigurðsson, Arnbjörg Ella Sigmarsdóttir, Ástrós Hind Rúnarsdóttir, Berglind Erna Tryggvadóttir, Bjarki Baldursson Harksen, Brynja Marín Bjarnadóttir, Eva Maggý Lindudóttir, Fehima Líf Purisevic, Guðjón Ari Logason, Guðrún Guðjónsdóttir, Guðrún Lilja Kristófersdóttir, Guðrún Ósk Ólafsdóttir, Helga María Magnúsdóttir, Hlynur Aðalsteinsson, Iðunn Andradóttir, Jason Andri Gíslason, Jóhanna Ingisól Sævarsdóttir, Jóhanna María Bjarnadóttir, Katla Rut Robertsdóttir Kluvers, Lieu Thúy Thi Ngo, Magnús Gauti Úlfarsson, Margrét Björk Daðadóttir, Marta Carrasco, Monika Jóhanna Karlsdóttir, Nanna Kristjánsdóttir, Reyn Alpha Magnúsar, Salóme Pálsdóttir, Sóley Halldórsdóttir, Steinunn María Egilsdóttir, Theodóra Björk Ægisdóttir, Urður Andradóttir, Valdimar Örn Sverrisson, Þorri Þórarinsson og Örn Steinar Sigurbjörnsson.

Styrkirnir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands eru veittir með stuðningi Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands og Happdrættis Háskóla Íslands. Stjórn Afreks- og hvatningarsjóðs stúdenta Háskóla Íslands skipa Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar sem er formaður, Ólafur Pétur Pálsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, og Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild.

Nánari upplýsingar um styrkhafana.
 

Styrkþegar úr Afreks- og hvatningarsjóði ásamt rektor og stjórn sjóðsins.