Skip to main content
3. maí 2023

Menntun, vísindi og menning meginstólpar samfélaga

Menntun, vísindi og menning meginstólpar samfélaga - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Menntun, vísindi og menning eru meginstólpar hvers samfélags og leiða af sér þekkingu í takt við það sem samfélagið þarfnast hverju sinni. Það er grundvallaratriði við að tryggja framþróun í síbreytilegum heimi. Þar af leiðandi fylgir því mikil ábyrgð að hafa aðkomu að starfsemi af þessum toga hérlendis, sérstaklega þar sem málefnasviðin eru afar yfirgripsmikil en líka á alþjóðlegum vettvangi í umboði ungs fólks á Íslandi.“

Þetta segir Isabel Alejandra Díaz, nemandi og verkefnisstjóri við Háskóla Íslands, en hún var fyrr á þessu ári kjörin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum (SÞ) á sviði mennta, vísinda og menningar. Í vetur var í fyrsta sinn kosið með lýðræðislegum hætti í þessa tilteknu stöðu og Isabel segir að það hafi verið afar þýðingarmikið. 

„Þarna er verið að veita okkur, ungmennahreyfingum landsins, tækifæri til þess að velja eigin fulltrúa, en það er kosið í stöðuna í gegnum Landssamband ungmennafélaga sem 42 ungmennafélög hafa aðild að og þar á meðal Stúdentaráð Háskóla Íslands.“

Isabel þekkir býsna vel til í Stúdentaráði en hún var forseti þess og vann í þágu stúdenta HÍ í tvígang þar sem hún gegndi embættinu tvö tímabil í röð. Þá átti hún sæti í háskólaráði Háskóla Íslands. Núna situr hún sumsé á skólabekk í HÍ en Isabel les þessa dagana undir próf í meistaranámi í opinberri stjórnsýslu. 

„Mér líkar námið afskaplega vel,“ segir hún. „Þegar ég lauk BA-gráðu í stjórnmálafræði voru áformin vissulega önnur, ég ætlaði í alþjóðasamskipti en störf mín hjá Stúdentaráði og setan í háskólaráði 2020 til 2022 breytti öllu. Þar fékk ég góða innsýn í starfsemi opinberra stofnana og helstu málaflokka háskólastigsins. Ég hef mikinn áhuga á háskólasamfélaginu. Sérstaklega í ljósi uppstokkunar á mennta- og menningarmálum og stofnunar nýs ráðuneytis háskólamála.“ 

Mikill styrkur í Aurora-starfinu

Háskóli Íslands á aðild að Aurora, evrópsku samstarfsneti háskóla í fremstu röð. Aurora samstarfið eflir nám, rannsóknir og nýsköpun við HÍ í takt við örar samfélagsbreytingar. Með nánu samstarfi við aðra evrópska háskóla í samstarfinu nýtur HÍ góðs af styrkleika þeirra allra til að efla nám og rannsóknir. Samstarfið skapar einnig sóknarfæri fyrir HÍ varðandi áskoranir sem skilgreindar eru í heimsmarkmiðum SÞ. Isabel vann í tvö tímabil af fullum krafti í þágu stúdenta HÍ innan netsins og þekkir það því vel. 

„Að mínu mati er það mjög mikilvægt að vinna í svona samstarfi eins og Aurora því það styrkir innviði háskóla og veitir nemendum tækifæri til þess að stunda þverfaglegt nám og njóta góðs af alþjóðlegum blæ á háskólagöngunni. Háskólastofnanir eru tvímælalaust uppspretta vísinda, rannsókna og nýsköpunar og það gefur augaleið að aukið þverfaglegt og alþjóðlegt samstarf leiðir til meiri þekkingsköpunar. Þannig tryggjum við fjölbreytileika og gæði háskóla og aukum verðmætasköpun og velmegun samfélaga.“ 

Isabel bætir því við að það sjáist vel í Aurora að háskólar geti bætt hvern annan upp með því að miðla áfram þekkingu en það gerðist einmitt að hennar sögn í verkefninu Spretti sem er í gangi innan HÍ. „Sprettur styður og undirbýr nemendur með innflytjendabakgrunn til háskólanáms með það að markmiði að stuðla að jöfnum tækifærum til menntunar. Það verkefni  er að fyrirmynd verðlaunaverkefnis í Duisburg-Essen háskólanum í Þýskalandi.“

Fulltrúinn er rödd unga fólksins gagnvart stjórnvöldum

Þegar talinu er aftur vikið að hlutverki Isabel fyrir hönd SÞ segir hún ungu fólki ávallt mikilvægt að eiga sæti við borðið ef þannig megi að orði komast. „Þetta á auðvitað sérstaklega vð þegar um er að ræða málefni sem varða ungt fólk.“  

Aðspurð um hvað fulltrúinn geri segir Isabel að það sé nú hennar hlutverk að sækja aðalráðstefnu sem og ungmennaþing UNESCO, norræna samráðsfundi auk þess að taka sæti í íslensku UNESCO-nefndinni. Til viðbótar hefur hún tekið sæti í stjórn Vigdísarstofnunar fyrir hönd íslensku UNESCO-nefndarinnar.

„Sem fulltrúi ungs fólks er það aðalhlutverk mitt að vera rödd þess gagnvart stjórnvöldum, miðla áfram starfi UNESCO og líka störfum íslenskra stjórnvalda í máefnum mennta, vísinda og menningar, tryggja góð samskipti milli allra haghafa og aukið gagnsæi. Ungmennafulltrúar SÞ koma að gríðarlega mikilvægum málefnasviðum sem taka á ýmsum áskorunum sem við mætum í samfélaginu á degi hverjum og í öllum heimshornum.“ 

Hún bendir á að ungmennafulltrúarnir takist á við málefni sem snúa m.a. mannréttindum, loftslagi, sjálfbærri þróun, börnum og ungmennum og kynjajafnrétti. 

„Í ljósi þess Sameinuðu þjóðunum er ætlað að leysa vandamál og ágreining og hindra styrjaldir er gríðarlega mikil vigt í því að eiga aðild að þeim,“ segir Isabel.  „Að geta fylgst með og tekið þátt í umræðum og komið með innlegg á svo stórum vettvangi, það skiptir hreinlega sköpum fyrir Ísland sem er lítil eyja í Norður-Atlantshafi.“ MYND/Kristinn Ingvarsson

Sameinuðu þjóðirnar hafa mikil áhrif

Þessa dagana eru því miður átök víða um heiminn og fréttir berast daglega af mannfalli í blóðugum bardögum, t.d. í Súdan. Næst okkur geisar styrjöld í Úkraínu eftir innrás Rússa í landið fyrir rösku ári. Isabel segir að flest okkar þekki til þess meginmarkmiðs SÞ að koma í veg fyrir átök og hindra það að sagan endurtaki sig hvað varðar styrjaldir. En að hennar sögn virðist afar flókið að breyta hegðun manna eins og sífelld átök sýna og sanna. Því sé mikilvægara að hennar dómi en oftast áður að vinna saman að friði í gegnum samtök á borð við SÞ. 

„Í ljósi þess Sameinuðu þjóðunum er ætlað að leysa vandamál og ágreining og hindra styrjaldir er gríðarlega mikil vigt í því að eiga aðild að þeim,“ segir Isabel.  „Að geta fylgst með og tekið þátt í umræðum og komið með innlegg á svo stórum vettvangi, það skiptir hreinlega sköpum fyrir Ísland sem er lítil eyja í Norður-Atlantshafi.“ 

Isabel segir að innan SÞ sé einnig settur mikill þungi á mannúðaraðstoð, þróunarsamstarf, umhverfis- og loftslagsaðgerðir, lýðræðisvitund og fleiri slík málefni sem stuðla eigi að velferðarsamfélagi, friðsæld og að réttindi fólks séu virt. „Innleiðing sjálfbærnimarkmiða SÞ snýr einmitt að því að tryggja jöfn tækifæri og sjálfbæra þróun til framtíðar, þess vegna verður innleiðingin heimsmarkmiðanna hvarvetna að vera skýr, markviss og fljótvirk. Þetta snýst um að sýna ábyrgð í verki sem þátttakendur í hinu alþjóðlega samfélagi.“ 

Alþjóðastarf skiptir íslensk ungmenni miklu máli

Isabel segist hafa lært að það sé bæði hressandi og hjálplegt að horfa til annarra þjóða í leit að innblæstri. Þetta sannreyndi hún sem forseti Stúdentaráðs. Verkefni þess eru gríðarmörg og fjölbreytt en helgast öðru fremur að því að berjast fyrir bættum kjörum stúdenta, ekki bara hér heldur starfa stúdentar saman á alþjóðlegum grunni að velferð þeirra allra. 

„Stúdentaráð hefur t.a.m. nýtt sér samband við stúdentahreyfingar á Norðurlöndunum þegar verið er að afla gagna um fjárveitingu til háskólastofnana. Eins tókum við undir með OBESSU, samstúdentum okkar í Evrópu, og kölluðum eftir sanngjarnri og viðunandi fjárfestingu stjórnvalda Evrópuríkja í háskólastiginu í lok árs 2021. Þegar stríðið í Úkraínu braust út höfðu Landssamtök ungmennafélaga í Úkraínu samband við stúdentahreyfingar í Evrópu og óskuðu eftir stuðningi sem við veittum heils hugar hérlendis og reyndum að aðstoða eftir fremsta megni.“

Isabel segir að heildstæð sýn, þar sem margar þjóðir leggja saman reynslu og krafta sína, styðji ungt fólk alls staðar í því að beita sér og sýna frumkvæði. „Það er hollt að víkka sjóndeildarhringinn og stuðla að alþjóðlegri samvinnu því enginn gerir hlutina einn þó það sé vissulega hægt að vera leiðandi og drífandi einn og sér.“ 

Isabel Alejandra Díaz