Skip to main content
16. mars 2023

Mennskan er best ræktuð í samtali

Mennskan er best ræktuð í samtali - á vefsíðu Háskóla Íslands

Samtalið sem siðferðilegt hugtak var umfjöllunarefni hátíðarfyrirlesturs Vilhjálms Árnasonar, prófessors emeritus í heimspeki, á Hugvísindaþingi um liðna helgi. Í fyrirlestrinum velti Vilhjálmur fyrir sér samræðuhugtakinu, merkingu þess, margvíslegu hlutverki og mikilvægi. Hann sagði að í eiginlegum samræðum mættust menn í viðfangsefninu og gleymdu sér í því: „Áherslan er hér á að gleyma sér, það losar okkur undan þeim frammíköllum sálarinnar sem einatt trufla athyglina. … Samtalið hrífur okkur þá með sér á ófyrirsjáanlegar brautir. Nýr skilningur skapast, óvænt sjónarhorn ljúkast upp. … En þetta eru sérstök samtöl og óraunsætt að líta svo á að þau veiti viðmið fyrir samtöl þar sem unnið er að tilteknum markmiðum. … Hlutverk setja samræðum okkar skorður, og þær hafa áhrif bæði á það sem er við hæfi að segja og að hve miklu leyti við getum leyft okkur að hrífast með frjálsu flæði samtalsins.“

Hægt er að hlusta á fyrirlesturinn í heild sinni í spilaranum hér að neðan.

Vilhjálmur varð nýlega sjötugur og lauk þá löngu og farsælu starfi við Hugvísindasvið. Hann byrjaði ferilinn sem stundakennari fyrir 40 árum og varð prófessor árið 1996. Jafnframt stýrði hann Siðfræðistofnun Háskóla Íslands frá 1997. Vilhjálmur hefur fjölbreytta reynslu af kennslu, rannsóknum, ritstjórn og stjórnunarstörfum og hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín. Hann hefur einkum fengist við efni á sviði siðfræði, tilvistarheimspeki, heimspeki samfélags og stjórnmála. Viðfangsefnin hafa verið margvísleg, oft á mörkum ólíkra fræðigreina og með áherslu á þýðingu þeirra fyrir íslenskt samfélag og menningu.

Vilhjálmur Árnason flutti hátíðarfyrirlestur Hugvísindaþings 2023.