Skip to main content
27. janúar 2022

Markmiðið að fækka kynferðisbrotum

Markmiðið að fækka kynferðisbrotum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Mjög mikil umræða hefur átt sér stað í samfélaginu undanfarin misseri um meðferð kynferðisbrota í réttarkefinu, ekki síst á samfélagsmiðlum. Á sama tíma hefur mikil vakning orðið víða um heiminn sem tengist #metoo-bylgjunni en inntakið beinist gegn kynferðislegri áreitni af öllum toga og kynferðislegu ofbeldi. Í þessari bylgju hafa mörg fengið rödd og gagnrýnt löggjöf og meðferð málanna og fullyrt að réttarkerfið á Vesturlöndum sé ekki fært um að taka á þessum brotum. Kallað er eftir breytingum. 

Ragnheiður Bragadóttir, prófessor við Lagadeild HÍ, hefur undanfarin ár unnið að rannsókn á ákvæðum almennra hegningarlaga um kynferðisbrot og á refsingum fyrir brotin. Rannsóknir Ragnheiðar fela einnig í sér tæmandi lýsingu á dómum Hæstaréttar í kynferðisbrotamálum síðastliðna áratugi. „Rannsóknin á lagaákvæðunum um nauðgun í íslenskum rétti er liður í þessu rannsóknarverkefni,“ segir Ragnheiður „og fjallar um lagaákvæðin um nauðgun, kynferðislega misneytingu og kynferðislega áreitni. Aðrar brotategundir koma við sögu að því leyti sem þær tengjast þessum brotum, t.d. kynferðisbrot gegn börnum.“

Ragnheiður segir að fjallað sé um gildandi rétt með samanburði við norræna löggjöf og dóma auk þess sem efnið sé sett í sögulegt og þjóðfélagslegt samhengi. „Fjallað er sérstaklega um þær breytingar sem gerðar hafa verið á ákvæðinu um nauðgun á síðustu árum, hvort þær hafi verið til bóta og hvort frekari breytinga sé þörf.“

Markmiðið ekki að refsa heldur að fækka brotum

Ragnheiður segir að í niðurstöðum sínum komi m.a. fram að núgildandi lagaákvæði um nauðgun séu víðtæk og nútímaleg. „Refsilögin eru þó aðeins einn liður af mörgum í baráttunni gegn kynferðislegu ofbeldi. Hversu vel tekst til með lagabreytingar er einnig háð því hvernig ákæruvald og dómstólar túlka ákvæðin. Sá hluti rannsóknarinnar sem snýr að refsingum fyrir nauðgun sýnir að þær hafa þyngst jafnt og þétt. En mikilvægt er að leggja áherslu á að markmiðið er ekki að refsa sem flestum heldur hlýtur það að vera að fækka nauðgunum og koma þannig í veg fyrir það tjón sem af þeim hlýst, bæði fyrir þolendur og gerendur. Til þess að fækka kynferðisbrotum eru virkar forvarnir nauðsynlegar. Ég tel því að nú sé forgangsatriði að efla forvarnir og beina þeim að réttum markhópum.“ 

Ragnheiður segir að niðurstöður einstakra þátta rannsóknarinnar hafi nú þegar birst í bókum og tímaritsgreinum, bæði hér heima og erlendis. Heildarniðurstöður varðandi þáttinn um nauðgun birtust í bók Ragnheiðar, Nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks, sem kom út fyrir réttum þremur árum. 

Námskeið við Lagadeild - Ofbeldisbrot frá sjónarhóli kvennaréttar

Þegar horft er í kveikjuna að rannsókninni segir Ragnheiður að fyrir aldarfjórðungi hafi verið mikil umræða í samfélaginu um að lögin hér veittu þolendum kynferðisbrota ekki næga vernd og refsingar fyrir brotin væru of vægar. Þetta endurspeglar á margan hátt þá umræðu sem enn er í samfélaginu sem tengist þessum brotum. 

„Fyrir um 25 árum var mér boðið að taka þátt í útgáfu bókar til heiðurs Beth Grothe Nielsen, lektors við Háskólann í Árósum og frumkvöðuls í rannsóknum á meðferð brota gegn börnum í réttarkerfinu og stöðu þolenda. Í bókinni fjölluðu eingöngu konur um efni sem varða konur.“ 

Þar birti Ragnheiður niðurstöður rannsóknar sinnar á ákvörðun refsingar í nauðgunarmálum á 20 ára tímabili, frá árinu 1977 til 1996. „Á sama tíma skipulögðum við Brynhildur G. Flóvenz, dósent við HÍ, nýtt námskeið við Lagadeild Háskóla Íslands, sem við nefndum ofbeldisbrot frá sjónarhóli kvennaréttar. Þar er fjallað um afbrot sem einkum beinast gegn konum og börnum, þ.e. kynferðisbrot og heimilisofbeldi, og er lögð sérstök áhersla á að nálgast viðfangsefnin út frá gagnrýnu sjónarhorni kynjarannsókna og feminískrar lögfræði.“

Ragnheiður segir að í námskeiðinu hafi ekki eingöngu verið fjallað um lögin eins og þau birtast okkur, eins og oftast er gert í lögfræðinni, heldur einnig hvernig þau ættu að vera til að ná tilgangi sínum. „Á þessum tíma voru kynferðisbrotin flokkuð eftir aðferðum og þau brot ein, þar sem beitt var ofbeldi eða hótun um það, töldust nauðgun og vörðuðu þyngstu refsingu. Kynmök við fólk í viðkvæmri stöðu töldust ekki nauðgun og vörðuðu mun vægari refsingu. Þetta þótti mér gagnrýnisvert og hóf rannsóknir á lagaákvæðunum um kynferðisbrot með það fyrir augum að unnt yrði að bæta úr þessu.“

„Í námskeiðinu í Lagadeildinni um ofbeldisbrotin er byggt á rannsóknum mínum og samstarfsmanna minna á Norðurlöndum og þaðan fara nemendur með nýja þekkingu út í samfélagið til starfa í réttarkerfinu sem rannsakendur, ákærendur og dómarar. Áhrif þess sjást í breyttri afstöðu hjá ákæruvaldi og niðurstöðum dómstóla á undanförnum árum,“ segir Ragnheiður. MYND/Kristinn Ingvarsson

Samdi drög að frumvarpi um breytingar á kynferðisbrotakafla

Ragnheiður segir að árið 2006 hafi hún síðan fengið tækifæri til þess að hafa áhrif í þá átt en þá fól Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, henni að semja drög að frumvarpi um breytingar á tilteknum ákvæðum í kynferðisbrotakafla hegningarlaganna, m.a. ákvæðinu um  nauðgun. 

„Þau urðu síðan að lögum árið 2007 og þá var lögfest mjög víðtækt nauðgunarákvæði sem ætlað er að taka til allra tilvika þar sem kynmök fara fram gegn vilja þolanda. Vorið 2018 var nauðgunarákvæðinu enn breytt, að sænskri fyrirmynd, og hugtakið samþykki tekið inn í ákvæðið. Almennt má segja að val mitt á þessum viðfangsefnum endurspegli áhuga minn á að bæta stöðu kvenna og barna í réttinum og þar með almennt í samfélaginu.“

Aukin þekking á ákvæðum um afbrotið nauðgun

Með rannsóknum Ragnheiðar hefur án nokkurs vafa fengist aukin þekking á ákvæðum íslensks réttar um afbrotið nauðgun og hvernig því er beitt af dómstólum.

„Niðurstöður rannsóknanna hafa haft bein áhrif á löggjöf, sbr. lagabreytingarnar árið 2007,“ segir Ragnheiður. „Í námskeiðinu í Lagadeildinni um ofbeldisbrotin er byggt á rannsóknum mínum og samstarfsmanna minna á Norðurlöndum og þaðan fara nemendur með nýja þekkingu út í samfélagið til starfa í réttarkerfinu sem rannsakendur, ákærendur og dómarar. Áhrif þess sjást í breyttri afstöðu hjá ákæruvaldi og niðurstöðum dómstóla á undanförnum árum.“

Í fyrstu rannsóknum Ragnheiðar á ákvörðun refsingar í nauðgunarmálum þróaði hún nýja aðferð við rannsókn á dómunum þar sem ekki var unnt að beita hefðbundnum tölfræðilegum aðferðum því að dómarnir voru fáir. Nemendur hennar hafa síðan beitt þeim aðferðum við rannsóknir á ákvörðun refsingar í öðrum brotaflokkum. 

„Rannsóknir á sviði refsiréttar eru því mjög mikilvægar til að bæta samfélagið. Þær nýtast beint í réttarkerfinu til hagsbóta fyrir þolendur brotanna. Auk þess má nefna að niðurstöður vísindarannsókna á þessu sviði styðja við baráttu grasrótarsamtaka fyrir bættri meðferð þessara mála,“ segir Ragnheiður sem hefur ítrekað vakið athygli fyrir rannsóknir á þeim sviðum réttarins sem hafa það að markmiði að bæta samfélagið fyrir alla, ekki síst þá sem standa höllum fæti. 

„Auk rannsóknarefna sem varða bætta stöðu kvenna og barna sem brotið er á, hefur áhugi minn beinst að verndun umhverfisins og þátt refsireglna í verndun náttúru og umhverfis. Ég hef tekið þátt í norrænum og alþjóðlegum rannsóknarverkefnum á því sviði. Verndun umhverfisins er eitthvert mikilvægasta verkefnið sem við stöndum nú frammi fyrir og varðar framtíð okkar allra.“ 

Ragnheiður Bragadóttir