Skip to main content
14. nóvember 2022

Lokabindi sögu framúrstefnunnar á Norðurlöndum

Lokabindi sögu framúrstefnunnar á Norðurlöndum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komin bókin A Cultural History of the Avant-Garde in the Nordic Countries Since 1975 sem er fjórða og síðasta bindið í ritröð um menningarsögu framúrstefnunnar á Norðurlöndum. Meðal ritstjóra lokabindisins er Benedikt Hjartarson, prófessor í almennri bókmenntafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Benedikt var einnig ritstjóri fyrsta bindis ritraðarinnar sem kom út árið 2012 og annars bindisins sem kom út árið 2018, auk þess sem hann átti sæti í ritnefnd þriðja bindisins sem kom út árið 2016. Útgefandi ritraðarinnar er forlagið Brill.

Í lokabindinu er sjónum beint að tímabilinu eftir 1975 og leitast er við að kortleggja áhrifasögu framúrstefnunnar og birtingarmyndir hennar í ólíkum listgreinum, allt frá myndlist og bókmenntum til sviðslista, kvikmynda, tónlistar og annarra listgreina. Á tímabilinu sem hér er til skoðunar má segja að framúrstefnan sé ótvírætt orðin að hefð og í ritinu er glímt við úrvinnslu og gagnrýni á arfleifð framúrstefnunnar innan ólíkra menningarsviða og innan ólíkra miðla allt til stafrænnar menningar samtímans. Jafnframt er sjónum beint að stöðu framúrstefnunnar á tímum hnattvæðingar, skemmtanaiðnaðar og umhverfisvár.

Í bókinni er að finna níu greinar sem eru helgaðar íslensku efni, þar á meðal tvær greinar eftir Benedikt Hjartarson, annars vegar „Towards a Kinetic Icelandic Culture: Friðrik Þór Friðriksson, Suðurgata 7 and Experimental Film in Iceland“ og hins vegar „Constructing an Avant-Garde Canon in the Twenty-First Century: On the Icelandic Poetry Group Nýhil.“ Aðrir höfundar íslenskra greina eru Æsa Sigurjónsdóttir, dósent í listfræði við Íslensku- og menningardeild HÍ, Holger Schulze, Magnús Þór Þorbergsson, Margrét Elísabet Ólafsdóttir, Ana Stanićević, Úlfhildur Dagsdóttir og Kjartan Már Ómarsson. 

Benedikt Hjartarson lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Groningen árið 2012 og hefur verið prófessor við Íslensku- og menningardeild HÍ frá 2015. Rannsóknir hans liggja á sviði sögulegrar orðræðugreiningar og menningarsögu. Meginviðfangsefni rannsóknanna hafa verið evrópskar framúrstefnuhreyfingar á umræddu tímabili, þar á meðal fútúrismi, dadaismi, expressjónismi, kontstrúktífísmi og súrrealismi. Greinar hans um evrópska framúrstefnu hafa birst á íslensku, þýsku, ensku, sænsku, dönsku og serbnesku. Benedikt hefur átt sæti í stjórn rannsóknanetsins (European Network for Avant-Garde and Modernism Studies) frá stofnun þess árið 2007, auk þess sem hann hefur átt sæti í stjórn Norræns tengslanets í rannsóknum á framúrstefnu (Nordic Network of Avant-garde Studies). Benedikt hefur þýtt nokkuð af erlendum, einkum þýskum og frönskum, fræðitextum á sviði menningarfræði og þekkingarsögu. Má þar nefna greinar og bókakafla eftir Georg Simmel, Norbert Elias, Walter Benjamin, André Bazin, Michel Foucault, Theodor W. Adorno og Max Horkheimer.

Benedikt Hjartarson með bókina A Cultural History of the Avant-Garde in the Nordic Countries Since 1975 .