Skip to main content
12. maí 2022

Leitað að fulltrúum í háskólaráð til næstu tveggja ára

Leitað að fulltrúum í háskólaráð til næstu tveggja ára - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hér með er lýst eftir framboðum og ábendingum um fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð fyrir tímabilið 1.7.2022-30.6.2024.  

Sá sem valinn er sem fulltrúi háskólasamfélagsins í háskólaráð skal vera akademískur starfsmaður Háskóla Íslands í fullu starfi (a.m.k. 75% starfshlutfalli), en þó hvorki forseti fræðasviðs, deildarforseti né varadeildarforseti. Skulu upplýsingar um starfsvettvang og stutt lýsing starfsferils (hámark ein A4 síða) liggja fyrir háskólaþingi. Enn fremur skal liggja fyrir að þeir sem bent er á eða bjóða sig fram séu reiðubúnir að taka tilnefningu þar sem hún er bindandi. 

Skulu ábendingar/framboð ásamt framangreindum upplýsingum berast skrifstofu rektors í rafrænu formi (mb@hi.is) eigi síðar en föstudaginn 27. maí 2022 kl. 12.

Með ábendingar/framboð er farið sem tillögur til ályktana háskólaþings og verða þær sendar út með fundarboði viku fyrir háskólaþing sem fram fer miðvikudaginn 8. júní 2022. 

Skýring
Í 6. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 er kveðið á um skipan háskólaráðs í háskóla þar sem eru fleiri en 5.000 nemendur. Þar kemur fram að auk rektors eigi sæti í ráðinu 10 fulltrúar, tilnefndir til tveggja ára í senn: 
1. Þrír fulltrúar háskólasamfélagsins tilnefndir af háskólaþingi. 
2. Tveir fulltrúar tilnefndir af heildarsamtökum nemenda við háskólann. 
3. Tveir fulltrúar tilnefndir af mennta- og menningarmálaráðherra. 
4. Þrír fulltrúar tilnefndir af þeim fulltrúum sem fyrir eru í háskólaráði.

Í 3. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 er kveðið á um hvernig staðið er að tilnefningu og kjöri fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð Háskóla Íslands. Kjörtímabil núverandi fulltrúa rennur út 30. júní 2022 og því þarf að tilnefna þrjá fulltrúa og þrjá til vara. Tilnefning þeirra fer fram á háskólaþingi miðvikudaginn 8. júní 2022. 

frá Aðalbyggingu