Skip to main content
4. febrúar 2020

Kominn tími á orkuskipti meðal stjórnenda

Framsögufólk, panelgestir ásamt heiðursgestum.

Áratugur frá lagasetningu um kynjakvóta

Viðskiptafræðideild stóð fyrir opnum fundi um stöðu kynjanna í stjórnunarstöðum í íslensku atvinnulífi þann 28. janúar síðastliðinn. Kveikjan að fundinum voru niðurstöður rannsóknar sem Ásta Dís Óladóttir, Gylfi Dalmann Aðalsteinsson og Þóra H. Christiansen birtu í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla undir lok síðsta árs og bar heitið Er skortur á framboði eða er engin eftirspurn eftir konum í æðstu stjórnunarstöður?

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands setti fundinn og fagnaði því að umræða um svo mikilvægt viðfangsefni væri tekin á vettvangi Háskóla Íslands. Benti hann á að jafnrétti sé eitt þriggja grunngilda háskólans og markmið nr. 5 í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

„Heldur fagna ég umræðunni einnig vegna þess að það skiptir máli að hér í Háskóla Íslands fari fram umræða um mikilvægustu úrlausnarefni samtímans, og að sú umræða sé byggð á bestu mögulegu gögnum og nýjustu rannsóknum sem til eru.“

Á eftir rektor steig Ásta Dís Óladóttir í pontu og flutti erindi sitt „Misvægi kynja í æðstu stjórnunarstöðum“ þar sem meðal annars kom fram að í stefnu HÍ sé sú lykiláhersla að starf háskólans hafi víðtæk áhrif og að í því sé tekist á við áskoranir samtímans. Einn margra kosta við félagslegar rannsóknir er sá að þær geta vakið upp umræðu í samfélaginu og þannig leitt til þess að gripið sé til aðgerða ef nauðsyn krefur.

„Nú er tæpur áratugur síðan kynjakvótalög á stjórnir voru sett hér á landi og því má fagna að þau leiddu til talsverðra breytinga í þá átt að fjölga konum í stjórnum. Margir bundu vonir við smitáhrif, að konum myndi fjölga í framkvæmdastjórnum og forstjórastöðum. En sú hefur ekki verið raunin.“

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að stór hópur kvenna vilji innleiða lög um kynjakvóta fyrir framkvæmdastjórnir fyrirtækja á Íslandi, þótt ekki væri nema tímabundið, til að leiðrétta kynjahallann. Margar þeirra nefndu að þær hefðu verið á móti kynjakvóta fyrir stjórnir félaga en eftir að hafa séð árangurinn þar og hvernig staðan er nú í stjórnunarstöðum þá séu þær tilbúnar að taka þetta skref.  Margar þeirra telja að ákveðið karlaveldi sé til staðar í kringum æðstu stjórnunarstöður. Ástæðan sé ekki sú að skortur sé á hæfileikaríkum konum til að sinna starfi æðstu stjórnenda en þar sem karlar eru í meirihluta þeirra sem taka ákvarðanir um ráðningu í framkvæmdastjórn væri möguleiki kvenna takmarkaðri. Þetta var meðal annars útskýrt með öflugu tengslaneti karla og að það tengslanet horfi síður til kvenna og þekkingar þeirra. Karlar fái fleiri tækifæri, meiri reynslu og þjálfun yfir starfsævina sem veitir þeim ákveðið forskot. Þetta skýri hins vegar ekki hvers vegna engin kona er forstjóri í skráðu félagi þar sem konur sitja í stjórnum og stjórnir ráða forstjóra.

Ásta Dís Óladóttir kynnti niðurstöður rannsóknar sinnar en í pallborði sátu þau Hanna Katrín Friðriksson, Magnús Harðarson og Þórey S. Þórðardóttir.

Að lokinni framsögu Ástu Dísar hófust pallborðsumræður en í pallborði sátu Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, og Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.

Hanna Katrín benti á að hún hefði nú lagt fram í þriðja sinn tillögur um breytingar á lögum um starfsemi lífeyrissjóða. Í ljósi hlutverks lífeyrissjóða og samfélagslegrar ábyrgðar þeirra verði þeim falið að setja sér jafnréttisstefnu og rökstyðja það ef valið er að fjárfesta í fyrirtækjum sem gæta ekki jafnrar stöðu kynjanna í stjórnendahópi sínum. Hanna Katrín nefndi að hér væri ekki um inngrip í fjárfestingar lífeyrissjóðanna að ræða heldur aukið gagnsæi. Þá tók Hanna Katrín sérstaklega fram að henni þættu þátttakendur í rannsókninni mjög áhugaverðir því þetta væru konur í hópi stjórnenda, konur sem höfðu áhyggjur þegar kynjakvótar voru settir árið 2010 en þær væru, líkt og Ásta Dís benti á, tilbúnar til þess núna að setja kvóta á stjórnunarstöður því lítið hafi þokast á þessum 10 árum.

Þórey var spurð að því hvort lífeyrissjóðir ættu að efla samfélagslega ábyrgð sína og setja sér slíkan kvóta. Hún svaraði því til að það væri ekki spurning að lífeyrissjóðir ættu að beita sér í sinni eigendastefna í þágu jafnréttismála. 

„Við þurftum kynjakvóta á framkvæmdastjórnir, hann hefur skilað árangri en við eigum ennþá mjög langt í land.“

Hún nefndi að Alþingi þyrfti að byrja á því að sýna fordæmi í þeim efnum og gæta að kynjahlutföllum í fastanefndum sínum. Nefndi hún sem dæmi fjárlaganefnd þar sem sjö karlar og tvær konur eiga sæti. Sama væri uppi á teningnum í samgöngunefnd og umhverfisnefnd. Sex karlar og þrjár konur sætu í efnahags- og viðskiptanefnd og eins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. „Þarna þarf þingið að bregðast við,“ sagði Þórey og bætti við að þetta væri verkefni samfélagsins alls, bæði karla og kvenna. Blandaðar stjórnir skiluðu betri árangri og slíkt ætti auðvitað líka við meðal stjórnenda. „Við þurfum að beita okkur saman í þessu verkefni,“ sagði hún.

Þá var Magnús spurður hvað skýrði það að engin kona gegndi forstjórastöðu í skráðum félögum. Hann sagði það sérstaka stöðu sem hann kynni ekki skýringar á, en hann reitti hár sitt yfir þessu. Það væri bæði mannréttindamál og hagsældarmál. Þá taldi hann lagasetningu vera visst neyðarúrræði líkt og aðrir hefðu bent á og kannski yrði hann sammála því innan örfárra ára að kominn væri tími á kynjakvóta því hlutirnir yrðu að fara breytast. 

Í erindi Ástu Dísar kom fram að skipt hefði verið um forstjóra í mörgum félögum á tímabilinu frá því að lögin voru sett. Magnús sagðist efast um að stjórnir skráðra félaga hefðu beitt sér nægjanlega fyrir stefnumótun á því sviði því stjórnir beri ábyrgð á ráðningu forstjóra. Þá nefndi Magnús að mikilvægt væri að frá og með deginum í dag myndu stjórnir skráðra félaga leggja fram mjög skýra jafnréttisstefnu um hvernig ætti að ráða í stöður framkvæmdastjóra og forstjórar þyrftu svo að standa skil á því hvernig þessum málum væri háttað.

Þá barst umræðan að fílnum í herberginu varðandi ráðningar, hinu huglæga mati samkvæmt Hönnu Katrínu. Hún beindi því til þeirra sem sæju um ráðningar að rökstyðja vel hlutlægt og huglægt mat við ráðningar sínar.

Að lokum þakkaði Andrea Róbertsdóttir, framkvæmdastjóri FKA og fundarstjóri, öllum þátttakendum fyrir sitt framlag og endaði fundinn á þeim orðum að sennilega væri kominn tími á að setja feðraveldið í líknandi meðferð.

Fundurinn var vel sóttur. Heiðurgestur hans var frú Vígdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og Eliza Reid forsetafrú mætti einnig. Þá sátu fundinn konur sem allar brutu blað með störfum sínum, þær Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, fyrsta konan til að gegna því embætti, Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, og Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, sem báðar eru fyrstu konurnar til að gegna þeim embættum.

Hægt er að sjá upptöku af fundinum á Youtube síðu Háskóla Íslands.

Ásta Dís Óladóttir og frú Vigdís Finnbogadóttir
Jón Atli Benediktsson heilsar frú Vigdísi Finnbogadóttur
Andrea Róbertsdóttir heilsar frú Vigdísi Finnbogadóttur
Andrea Róbertsdóttir opnar fundinn
Gestir í pallborði
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands ávarpar fundargesti
Jóhanna Sigurðardóttir og Eliza Reid fylgjast með fundinum
Framsögufólk, pallborðsgestir og heiðursgestir fundarins